Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1303  —  574. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni tillögur Lögmannafélags Íslands um gjafsóknarreglur.


     1.      Hver er afstaða ráðherra til tillagna í skýrslu vinnuhóps Lögmannafélags Íslands frá apríl 2018 um breytingar á reglum um gjafsókn?
    Í skýrslu vinnuhóps Lögmannafélags Íslands sem fyrirspurnin vísar til er að finna margvíslegar ábendingar og athugasemdir við núverandi gjafsóknarfyrirkomulag sem og tillögur að úrbótum í þeim efnum. Má sérstaklega nefna athugasemd um að viðmiðunarfjárhæðir séu of lágar og hafi ekki tekið breytingum frá árinu 2010. Það er afstaða ráðherra að sú athugasemd sé réttmæt en undirbúningur að hækkun viðmiðunarfjárhæða var þegar hafin í ráðuneytinu þegar framangreind skýrsla barst. Hefur verið horft til þess hvort rétt sé að viðmiðunarfjárhæðir gjafsóknar fylgi lágmarkslaunum. Þessari vinnu er rétt ólokið en unnið er að kostnaðargreiningu.
    Þá er að finna í skýrslunni tillögur sem fela í sér grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi gjafsókna, svo sem afnám tekjutengingar á milli maka/sambúðarfólks, möguleika á gjafsókn vegna reksturs mála fyrir stjórnvöldum og stofnun sérstakrar úrskurðarnefndar um gjafsókn. Þær tillögur þarfnast frekari skoðunar.
    Að lokum er í skýrslunni lagt til að nánar tiltekin skilyrði gjafsóknar verði skýrð nánar, einkum þau sem lúta að mati á tilefni málshöfðunar og mati á því hvort verulegir hagsmunir séu að baki málsókn. Þessi atriði verða tekin til athugunar í dómsmálaráðuneytinu.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við tillögunum?
    Ráðherra hefur þegar falið ráðuneytinu að óska umsagnar gjafsóknarnefndar um tillögur þær sem er að finna í skýrslu vinnuhóps Lögmannafélags Íslands. Ákvörðun um næstu skref verður tekin að henni fenginni.