Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1305  —  548. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn fráVilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks.


     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?
    Fasteignir ríkissjóðs er stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið en hún hefur það hlutverk að hafa umsjón með og viðhalda fasteignum í eigu ríkisins. Dómsmálaráðuneytið og stofnanir á málefnasviði dómsmálaráðherra leita til Fasteigna ríkissjóðs þegar kemur að því að velja húsakost og tryggja þannig örugga og hagkvæma umsýslu eigna. Gætt er að því að ávallt sé tryggt sem best aðgengi fatlaðs fólks að þeim byggingum sem opinberar stofnanir nýta sér.
    Fasteignir ríkissjóðs gera reglulega úttektir á húsnæði í eigu ríkisins og þar á meðal er úttekt á aðgengi og hvort húsnæði uppfylli kröfur sem gerðar eru til opinberra bygginga. Þær úttektir styðjast við úttektarlykil sem Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, lét taka saman. Miðað við upplýsingar sem Fasteignir ríkissjóðs gáfu upp hefur verið lögð áhersla á að opinberar byggingar sem eru sérstaklega ætlaðar almenningi hafi forgang hvað varðar úrbætur á aðgengismálum. Miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir hjá Fasteignum ríkissjóðs er gert ráð fyrri að unnið sé að úrbótum á hverju ári og skiptast þær á ólíkar tegundir fasteigna og landshluta.
    Aðgengisstefna um opinbera vefi var samþykkt í ríkisstjórn í maí 2012. Unnið hefur verið eftir þeirri stefnu samkvæmt svörum frá Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins, en félagið sér um rekstur vefja stjórnarráðsins. Í könnun á opinberum vefjum sl. haust þar sem aðgengi var metið á grundvelli stefnunnar fékk vefur Stjórnarráðsins stjornarradid.is fullt hús stiga. Inni á vef Stjórnarráðsins er að finna mikið magn upplýsinga um málaflokka ráðuneytisins og boðið er upp á vefþulu svo hlusta megi á þær upplýsingar sem þar er að finna.
    Aðgengi að dómsmálaráðuneytinu sjálfu hefur á síðustu árum verið bætt með sjálfvirkri hurðaopnun í anddyri ráðuneytisins. Lyfta er í húsinu.

     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?
    Ráðherra leggur áherslu á að aðgengi hreyfihamlaðra sé tryggt. Litið sé til að mynda til þingsályktunar nr. 16/146, um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, sem samþykkt var á 146. löggjafarþingi þegar kemur að aðgengi fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi og að upplýsingum. Unnið verður að því að bæta aðgengi í samvinnu við Fasteignir ríkissjóðs í samræmi við þá almennu stefnu í málaflokknum sem þar kemur fram og ráðuneytum og stofnunum er ætlað að hafa hliðsjón að varðandi aðgengismál fatlaðra.