Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1315  —  547. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?
     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?


Inngangur.
    Vorið 2017 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu nr. 16/146 um nýja stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem gildir fyrir árin 2017–2021. Tekur hún við af fyrri þingsályktun um framkvæmdaáætlun sem unnið hefur verið eftir frá árinu 2012. Gildandi áætlun var unnin í samráði við samtök fatlaðs fólks og sérfræðinga í málefnum fatlaðra og innifelur einnig að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði innleiddur í lagaumgjörð sem og framkvæmd laga.
    Verkefni áætlunarinnar ná til málefna sem snúa að aðgengi, atvinnu, heilsu, ímynd og fræðslu, menntun, sjálfstæðu lífi og þjónustu. Ábyrgð á aðgerðum áætlunarinnar er á hendi velferðarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins. Ríkiseignir, sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, hafa umsjón með viðhaldi á fasteignum í eigu ríkisins og bera því ábyrgð á að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um aðgengi fatlaðs fólks. Framkvæmdasýsla ríkisins, sem einnig heyrir undir ráðuneytið, sér um að það húsnæði sem auglýst er eftir á almennum markaði uppfylli lögbundnar kröfur, m.a. um aðgengi fatlaðra. Því er við að bæta að staðlað ákvæði er í leigusamningum þar sem farið er fram á að leigusali ábyrgist að húsnæðið uppfylli kröfur um aðgengi fatlaðra.

Aðgengi að fasteignum í eigu ríkisins.
    Ríkiseignir hafa umsjón með og sjá um viðhald fasteigna í eigu ríkisins. Ásamt því að sjá um hagkvæma og samræmda umsýslu eigna sér stofnunin um að uppfylla þær almennu reglur og viðmið sem sett eru, þar á meðal að því er varðar aðgengi fatlaðs fólks að byggingum. Ríkiseignir framkvæma reglulega úttektir þar sem farið er yfir hvort húsnæðið uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til opinberra bygginga. Við úttektir er stuðst við úttektarlykil sem gefinn var út af Sjálfsbjörg, landssambandi hreyfihamlaðra.
    Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að gerðar séu úrbætur í aðgengismálum og forgangsraðar verkefnum með það að markmiði að bæta aðgengi að opinberum byggingum. Árlega hefur verið ráðist í talsverðar endurbætur á aðgengi að eldra húsnæði. Þá er ávallt horft til þess að þessar umbætur falli inn í áform um stærri viðhaldsverkefni, sé þess einhver kostur, til að fjármunum sé vel varið. Lögð er áhersla á að bæta aðgengi fatlaðra að húsnæði í þessum viðhaldsverkefnum.

Aðgengi að húsnæði ráðuneytisins.
Arnarhvoll.
    Arnarhvoll, húsnæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni, þáverandi húsameistara ríkisins, og byggður í tveimur áföngum1930–1931 og 1945–1949. Húsið er verndað vegna byggingarsögulegs, menningarlegs og listræns gildis. Viðgerðir og endurbætur hófust á húsnæðinu árið 2013 og er þeim ólokið. Við hönnun endurbóta á húsnæðinu var litið til þess að það uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðs fólks. Aðgengi er því gott hvað þetta varðar í húsnæði ráðuneytisins; merkt bílastæði fyrir utan aðalinngang hússins, skábraut upp að inngangi og sjálfvirk hurðaropnun. Einnig er gott aðgengi fatlaðs fólks að öllum hæðum hússins með lyftu sem og að salernum.

Aðgengi að opinberum vefjum.
    Nýr sameiginlegur vefur Stjórnarráðsins var opnaður árið 2017. Nú eru aðgengilegar upplýsingar um öll verkefni ráðuneytanna á einum stað. Hlutverk upplýsingavefsins er að veita almenningi, fyrirtækjum og erlendum aðilum upplýsingar um starfsemi stjórnsýslunnar á hverjum tíma. Vefurinn er einnig mikilvægur til að bæta stjórnsýslu og tengsl við borgarana. Aðgengisstefna fyrir opinbera vefi var samþykkt í ríkisstjórn í maí 2012. Um það vísast til stefnunnar sjálfrar, Aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi. Í könnun sem var gerð haustið 2017 var aðgengi metið m.a. út frá þeim atriðum sem fram komu í fyrrnefndri stefnu. Niðurstaða könnunarinnar staðfesti að vefur Stjórnarráðsins, stjornarrad.is, uppfyllti allar þær kröfur. Þar að auki býður vefur Stjórnarráðsins notendum upp á vefþulu sem les texta á vefsíðum. Aðgengismál á vefnum hafa einnig verið athuguð með aðstoð óháðra aðila, síðast vorið 2017, og hefur verið brugðist við þeim ábendingum sem þar komu fram. Fylgst er með atriðum er varða aðgengi, m.a. með þjónustu sem Siteimprove býður upp á, til að tryggja að þau séu í lagi.

Aðgengi fatlaðs fólks.
    Varðandi stefnu og aðgerðaáætlun í ráðuneytinu um aðgengi fatlaðs fólks er vísað til 2. tölul. svars við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur á 144. löggjafarþingi (132. mál) um aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum. Einnig samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um nýja stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks eins og að framan greinir.
    Kallað var eftir upplýsingum til að kanna stöðu mála að því er varðar aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum og gögnum sem og að þeim stofnunum sem heyra undir ráðuneytið. Svör stofnana fylgja hér á eftir.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
Aðgengi fatlaðra að húsnæði.
    ÁTVR hugar að aðgengi fyrir fatlaða við allar framkvæmdir sem ráðist er í í Vínbúðunum. Í eldri Vínbúðum hefur aðgengi fatlaðra einnig verið í endurskoðun og endurbætur átt sér stað. Þetta á bæði við um aðgengi inn í búðirnar og einnig innan búðar.

Aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum.
    ÁTVR hefur látið viðurkenndan aðila taka út vefi sína, en aðgengismál á vef eru í skoðun.

Stefna um aðgengi fatlaðs fólks.
    Ekki er til stefna eða aðgerðaáætlun um aðgengismál en mikið er lagt upp úr því að framfylgja þeim lögum og reglum sem gilda um aðgengi fatlaðra.

Bankasýsla ríkisins.
Fullnægjandi aðgengi.
    Bankasýsla ríkisins er á 2. hæð í Borgartúni 3. Lyfta er á jarðhæð. Jafnframt er þar salerni fyrir fatlað fólk. Á milli lyftu á 2. hæð og inngangs stofnunarinnar eru um 2–3 metrar. Hvergi annars staðar í húsnæði stofnunarinnar eru slíkar hindranir að þær hefti för fatlaðra einstaklinga.

Fullnægjandi aðgengi að upplýsingum og gögnum.
    Ekki bárust upplýsingar frá Bankasýslu ríkisins um aðgengi fatlaðra einstaklinga að upplýsingum og gögnum.

Stefna um aðgengi.
    Bankasýsla ríkisins hefur ekki sett sér sérstaka stefnu um aðgengi fatlaðs fólks, þar sem talið er að aðgengi að húsnæði stofnunarinnar sé í samræmi við lög og almenn viðmið í þjóðfélaginu um að tryggja fötluðu fólki fullt aðgengi.

Fjármálaeftirlitið.
Aðgengi fatlaðra að húsnæði.
    Aðgengi fatlaðra að húsinu er mjög gott, móttaka á jarðhæð er sniðin að umferð hreyfihamlaðra, sem og allt aðgengi úr bílastæðakjallara upp á efri hæðir. Rúmgóðar lyftur ná til allra hæða og sjálfvirkar hurðir auðvelda umferð hreyfihamlaðra. Merkingar í húsinu eru skilmerkilegar með auðlesnu letri og táknmyndum fyrir sjónskerta og þá sem eiga við lestrarörðugleika að stríða. Húsnæði stofnunarinnar uppfyllir ákvæði byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, þó með þeirri undantekningu að aðgangsstýrðar dyr, aðrar en að móttöku stofnunarinnar, opnast ekki á sjálfvirkan hátt við aflæsingu.

Aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum.
    Vefur stofnunarinnar býður upp á sérhæfðar stillingar fyrir notendur sem eiga við lestrarörðugleika að stríða þar sem breyta má bakgrunni, leturstærð og tegund leturs. Allt efni á vef Fjármálaeftirlitsins er prentað með krókalausu letri (e. sans serif) sem talið er henta lesblindum betur en krókaletur.

Stefna um aðgengi fatlaðs fólks.
    Sérstök stefna um aðgengi fatlaðra er ekki hjá stofnuninni, en ákvæði gildandi byggingareglugerðar voru höfð til hliðsjónar við leiguútboð húsnæðis. Stuðst er við gildandi staðla W3C við hönnun og frágang á vef stofnunarinnar.

Fjársýsla ríkisins.
Aðgengi fatlaðs fólks að húsnæði.
    Fjársýsla ríkisins er í Vegmúla 3, 108 Reykjavík. Sérstakt merkt bílastæði fyrir fatlaða er fyrir framan Vegmúla 3. Að vestanverðu er hjólastólarampur sem tryggir aðgengi hjólastóla að byggingunni. Lyfta er í húsinu sem passar hjólastólum. Aðgangshnappar sem opna og loka dyrum rafrænt eru á öllum dyrum í húsinu, bæði inn í húsið og á milli hæða. Salerni á 2. og 4. hæð eru með hjólastólaaðgengi.

Aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum.
    Fjársýslan gerði umtalsverðar úrbætur á vefnum fjs.is árið 2013. Þá var unnið í samstarfi við Hugsmiðjuna og Sjá ehf, m.a. til þess að allt efni, öll gögn sem birt væru á vefnum væru aðgengileg öllum. Þess má geta að í úttekt opinberra vefja ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga haustið 2017 („Hvað er spunnið í opinbera vefi?“), hlaut vefur Fjársýslunnar 100 stig af 100 mögulegum hvað aðgengi varðar.

Stefna um aðgengi fatlaðs fólks.
    Ekki er í gildi sérstök formleg stefna né aðgerðaáætlun hvað varðar aðgengi fatlaðs fólks.
Fjársýslan tók þátt í átakinu „Virkjum hæfileikana“ árin 2015 og 2016 sem haldið var á vegum Vinnumálastofnunar með því að bjóða einstaklingum með skerta starfsgetu til að fylgjast með vinnunni í nokkra daga og taka þátt í daglegum störfum og kynnast starfseminni.

Framkvæmdasýsla ríkisins.
    Framkvæmdasýsla ríkisins er með starfsemi sína í Borgartúni 7 á 3. hæð. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða er beint fyrir utan inngang að húsinu. Í anddyri hússins er lyfta sem er 110x140 sm að innanmáli. Henni var komið fyrir í húsinu árið 2004 og uppfyllti þáverandi kröfur byggingareglugerðar. Til upplýsingar má nefna að kröfur hafa verið auknar í gildandi byggingareglugerð í 110x210 sm að innanmáli. Aðgengi hreyfihamlaða um húsnæði Framkvæmdasýslu ríkisins er gott að mestu. Þó vantar salerni fyrir hreyfihamlaða. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur fengið heimildir til þess að gera gagngerar breytingar á innra skipulagi hjá sér og verður þá bætt úr þessu. Áætlað er að ráðist verði í framkvæmdir í lok 2019 eða upphafi í 2020. Þá verði aðrar kröfur byggingareglugerðar sem hafa verið auknar síðan húsið var byggt uppfylltar við framkvæmdirnar.

Upplýsingar á vef Framkvæmdasýslu rikisins.
    Á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins má m.a. finna upplýsingar um hlutverk stofnunarinnar, þjónustu, verkefni, leiðbeiningar o.fl. Nýr vefur var opnaður árið 2015 og hlaut hann tilnefningu sem vefur ársins. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur það að markmiði að aðgengi á vefnum sé gott. Vefur FSR var vottaður samkvæmt alþjóðlegum leiðbeiningum WAI (Web Accessibility Initiative) hjá Sjá ehf. og Öryrkjabandalagi Íslands og uppfyllir kröfur um forgang 1 og 2.
    Í verkefnum Framkvæmdasýslu ríkisins fyrir ráðuneyti og stofnanir ríkisins er starfað í samræmi við lög um mannvirki, nr. 160/2010, en skv. 1. gr. laganna er markmið þeirra m.a. að tryggja aðgengi fyrir alla. Einnig er athygli vakin á ákvæðum gildandi byggingareglugerðar þar sem kveðið er skýrt á um aðgengi sem Framkvæmdasýslu ríkisins ber að fylgja eftir.

Ríkiseignir.
Aðgengi fatlaðra að skrifstofu Ríkiseigna, Borgartúni 7A, 2. hæð:
    Sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru við inngöngudyr. Skábraut liggur að aðalinngangi og fyrirhugað er að stækka anddyri þannig að hægt verði að koma fyrir rafmagnsopnun aðalinngangs. Gott aðgengi er að lyftu á öllum hæðum og rafmagnsopnun er inn í móttöku Ríkiseigna. Umferðarrými, skrifstofur, fundasalir og salerni á skrifstofuhæð eru aðgengileg fyrir hjólastóla. Enginn sérstakur viðbúnaður er vegna annarrar fötlunar, svo sem sjón- eða heyrnaskerðingar, utan það að hnappar í lyftu eru með blindraletri.
    Hvað varðar aðgang að upplýsingum og gögnum er fyrirspurnin túlkuð þannig að átt sé við aðgengi að upplýsingum á netinu. Ekki hefur verið gert ráð fyrir auknu aðgengi fyrir sjónskerta á vef Ríkiseigna. Hafin er vinna við endurhönnun á vefnum og mun þetta aðgengi verða bætt í næstu útgáfu.
    Varðandi stefnu og aðgerðir er jafnframt vísað í svar við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur þingmanns sem lögð var fram á 144. löggjafarþingi, um aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum (132. mál).

Ríkiskaup.
    Húsnæði Ríkiskaupa er á 1. hæð og er því aðgengi fyrir fatlað fólk í nokkuð góðu lagi, bílastæði fyrir framan aðalinngang eru merkt fötluðum og óhindrað aðgengi er að móttöku frá bílastæði. Ekki er sjálfvirkur dyraopnari í aðalinngangi.
    Vefur Ríkiskaupa notar www.stillingar.is sem er lausn fyrir lesblinda og sjónskerta. Vefurinn fékk 91 stig af 100 í einkunn fyrir aðgengi í síðustu úttekt á opinberum vefum sem var árið 2017.

Ríkisskattstjóri.
    Hjá ríkisskattstjóra er ekki í gildi skrásett stefna eða aðgerðaráætlun um aðgengi fatlaðs fólks en ríkisskattstjóri leitast við að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru varðandi þessi atriði.
Starfsstöðvar ríkisskattstjóra eru átta alls, víðsvegar um landið. Nær undantekningalaust er aðgengi fatlaðra einstaklinga tryggt með fullnægjandi hætti á þeim starfsstöðvum þannig að einstaklingar verði ekki sökum fötlunar sinnar varir við takmarkanir inn í rými sem opin eru almenningi. Má í þessu sambandi benda á sérmerkt bílastæði fyrir utan starfsstöðvarnar, hurðir sem opnast sjálfkrafa með skynjurum og lyftur ef fara þarf á aðrar hæðir starfsstöðva. Rekstrareining fjármálasviðs ríkisskattstjóra hefur það verkefni að tryggja að aðgengi fatlaðra á starfsstöðvum embættisins uppfylli kröfur um það.
    Upplýsingavefur ríkisskattstjóra, www.rsk.is, uppfyllir kröfur í samræmi við alþjóðlega staðla um aðgengi fatlaðs fólks. Þjónustuvefur ríkisskattstjóra, www.skattur.is, uppfyllir kröfur í samræmi við alþjóðlega staðla að hluta til en unnið er að endurforritun hans og stefnt er að því að hann uppfylli þær kröfur að fullu árið 2019. Hið sama á við um vefframtalið.
    Ríkisskattstjóri leitar ávallt leiða til að bæta þjónustu sína í tengslum við aðgengi og viðmót vefsíðu embættisins, rsk.is, sem og þær upplýsingar sem þar koma fram.

Skattrannsóknastjóri ríkisins.
Aðgengi fatlaðs fólks að húsnæði.
    Embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins er í leiguhúsnæði á 3. hæð við Borgartún 7B í Reykjavík. Góð aðkoma er fyrir hreyfihamlaða um lyftu við aðalinngang húsnæðisins. Hið sama á við um aðgengi að salernisaðstöðu í húsnæði embættisins.

Aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum.
    Á vef embættisins er unnt að þysja inn allt að 200% án þess að efni á síðunni hverfi. Vefurinn býður ekki upp á stækkun leturs eða talgervil.

Tollstjórinn.
    Tollstjóri leggur metnað sinn í að aðgengi allra sé tryggt.

Aðgengi fatlaðs fólks að húsnæði.
    Aðgengi fatlaðra að Tollhúsinu Tryggvagötu er viðunandi, flái við inngang til þess að auðvelda hreyfihömluðum aðgengi, lyftur fara á allar hæðir, breiðir gangar og fjögur klósett eru í húsinu sem skilgreind eru fyrir fatlaða. Hjá embættinu hafa starfað hreyfihamlaðir einstaklingar og til þess leita fatlaðir viðskiptavinir. Markvisst hefur verið tekið á þeim vandamálum sem upp hafa komið varðandi aðgengismál og gerð bragarbót á, ef því hefur verið viðkomið.

Aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum.
    Varðandi aðgengi að upplýsingum þá er í upplýsinga- og samskiptastefnu embættisins kveðið á um að vefir embættisins séu aðgengilegir öllum og er leitast við að fylgja W3C WCAG 2.0 AA staðlinum (Web Content Accessibility Guidelines). Vefurinn hefur verið tekinn út af Sjá ehf. varðandi aðgengi fatlaðra.

Stefna um aðgengi fatlaðs fólks.
    Ekki er í gildi önnur stefna eða aðgerðaráætlun hjá tollstjóra varðandi aðgengi fatlaðs fólks en sú sem hér að ofan er tilgreind.

Yfirskattanefnd.
Aðgengi fatlaðs fólks að húsnæði.
    Yfirskattanefnd er í leiguhúsnæði á 2. hæð við Borgartún 21. Aðgengi fatlaðra að húsnæðinu er hindrunarlaust, rúmgóð lyfta og salernisaðstaða.

Aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum.
    Að því er varðar aðgengi að upplýsingum og gögnum er vefur yfirskattanefndar tengdur við stillingar.is til að auðvelda aðgengi notenda með lestrartruflanir að vefnum.

Stefna um aðgengi fatlaðs fólks.
    Yfirskattanefnd leitast við að vefur nefndarinnar sé aðgengilegur öllum án þess að sett hafi verið sérstök stefna í því sambandi.