Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1319  —  502. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um opinber störf utan höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Hversu mörg störf eru á vegum ráðuneytisins og stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins? Óskað er eftir sundurliðun eftir stofnunum og landshlutum.
    Í eftirfarandi töflu sést hvaða stofnanir á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafa starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Telur ráðherra að unnt sé að láta vinna fleiri störf á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins?
    Það er stefna ríkisstjórnarinnar og kemur fram í stjórnarsáttmála hennar að hlúa að byggð í landinu meðal annars með því að bæði ráðuneyti og stofnanir skilgreini störf og auglýsi þau án staðsetningar þegar kostur er á. Við þetta má bæta að nú nýverið eða 11. júní sl. samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024. Í framtíðarsýn stefnunnar kemur fram að höfuðborgarsvæðið verði miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu og byggðamál verði samþætt við aðra málaflokka eftir því sem við á.
    Áætluninni er skipt niður í verkefnismarkmið og er það á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytisins að vinna að verkefnismarkmiði B.7. Störf án staðsetningar. Markmiðið er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif á val á starfsfólki. Gert er ráð fyrir að fyrir árslok 2019 hafi hvert ráðuneyti skilgreint hvaða störf verði hægt að vinna utan ráðuneytis.
    Einnig þarf að huga að aðstöðu þessara starfsmanna og hefur verið horft til þess möguleika að koma upp miðstöðvum um landið með sameiginlegri starfsaðstöðu. Kostir slíkra miðstöðva eru ótvíræðir þar sem tækifæri gefast til að byggja upp áhugaverðar og vel útbúnar starfsstöðvar sem gera samvinnu mögulega og efla starfsfólk faglega en ekki síður félagslega. Byggðastofnun hefur verið falið það verkefni að kortleggja mögulegar vinnustöðvar ríkisins.
    Stefna í þessum málaflokki er því skýr. Við þetta má bæta að við þróun og framfylgni þessarar áætlunar verður horft til þeirra stofnana ráðuneytisins sem hafa byggt upp reynslu í störfum án staðsetningar.
    Eftirfarandi er lýsing ríkisskattstjóra á því hvernig stofnunin hélt starfsstöðvum áfram virkum þrátt fyrir kerfisbreytingar:
    „Ríkisskattstjóri ákvað að halda virkum starfsstöðvum um landið og var lögð rík áhersla á að efla þær þrátt fyrir kerfisbreytingu á skattkerfinu. Þáttur í því var flutningur þjónustuvers ríkisskattstjóra til Akureyrar, en frá þeim tíma hefur það alfarið verið mannað háskólamenntuðum starfsmönnum og fjöldi stöðugilda þar aukist. Starfssvið annarra starfsstöðva hafa einnig verið sérhæfð og má nefna sem dæmi um það að á Egilsstöðum hefur verið mikil endurnýjun og sérhæfing starfsmanna hvað varðar verkefni í svokölluðum handreikningi. Tekið skal fram að ekki hefur neinni starfsstöð utan höfuðborgarsvæðisins verið lokað vegna sameiningarinnar en þrjár starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu voru hins vegar sameinaðar í eina í hagræðingarskyni.
    Ráðningar í störf hjá embætti ríkisskattstjóra ráðast eðli máls samkvæmt fyrst og fremst af verkefnum og þeirri starfsstöð sem þarf að endurmanna hverju sinni og hefur því ekki umfram það sem greinir um Akureyri og Egilsstaði verið sett niður formlega stefna um að færa störf sérstaklega út fyrir höfuðborgarsvæðið.
    Laus störf stofnunarinnar eru sem fyrr segir auglýst með hliðsjón af starfsstöðvum og því skýrt tekið fram þegar um störf á landsbyggðinni er að ræða. Ákvörðun um, hvort af ráðningu verður í hvert sinn kann síðan óhjákvæmilega að ráðast af því að hæfir starfsmenn sem best þykja henta í laus verkefni hverju sinni fáist til starfa á viðkomandi landsvæði.“

     3.      Hyggst ráðherra færa störf út á land á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess, sbr. markmið byggðaáætlunar og áform ríkisstjórnarinnar í samstarfssáttmála um að stefna skuli að því að auglýsa störf án staðsetningar?
    Samkvæmt byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024, sem nánar er lýst hér að framan, er gert ráð fyrir að fram fari skilgreining á því hvaða störf verði hægt að vinna utan ráðuneytisins og er gert ráð fyrir að þau störf verði auglýst án staðsetningar. Gert er ráð fyrir að sama aðferðafræði verði notuð fyrir stofnanir ráðuneytisins til að ná fram fyrrgreindu markmiði fyrir árið 2024 um að 10% auglýstra starfa verði án staðsetningar.