Ferill 627. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1321  —  627. mál.
Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um meðferð trúnaðarupplýsinga og skyldur þingmanna.


     1.      Hvernig er reglum forsætisnefndar um meðferð trúnaðarupplýsinga fylgt eftir?
    Reglur forsætisnefndar frá 21. febrúar 2012 fela í sér nánari lýsingu á upplýsingarétti þingnefnda, sbr. 51. gr. þingskapa Alþingis, og á því hvernig skuli haga varðveislu trúnaðarupplýsinga. Þær taka til gagna eða skjala sem þingnefnd fær vegna athugunar sinnar á máli, þ.m.t. eru frumkvæðismál. Í reglunum er afmarkað nánar hvaða hagsmunir geti fallið undir trúnað eða þagnarskyldu. Í 3.–6. gr. er nánari lýsing á skyldum þingnefnda og einstakra þingmanna um meðferð og varðveislu trúnaðargagna. Komi upp atvik þar sem þingmaður eða þingmenn eru grunaðir um að hafa miðlað þagnarskyldum upplýsingum til óviðkomandi eða misfarið með slíkar upplýsingar getur það, að uppfylltum skilyrðum 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 52. gr. þingskapa, verið refsivert. Slík mál eru rannsökuð að hætti sakamála. Málshöfðun á hendur þingmanni fyrir slíkt brot er háð samþykki Alþingis, sbr. 1. mgr. 49. gr. stjórnarskrárinnar.

     2.      Hversu oft hafa fastanefndir þingsins frá og með 143. löggjafarþingi bókað í trúnaðarmálabók skv. 4. gr. reglna forsætisnefndar um meðferð trúnaðarupplýsinga?
    Skjalakerfi Alþingis er nýtt með þeim hætti að bókun um trúnað er færð í skjalasafn þingsins undir viðkomandi máli. Aðgangur að þeim er læstur, sbr. svar við 4. tölul. fyrirspurnarinnar. Frá og með 143. löggjafarþingi hafa fastanefndir þingsins bókað alls 13 sinnum um trúnað. Í 11 málum hefur bókunin tekið til allra gagna hlutaðeigandi máls og í tveimur málum hefur bókunin tekið til tilgreindra skjala.

     3.      Hefur forsætisnefnd fengið kvörtun, kæru eða ábendingu vegna „leka“ á trúnaðarupplýsingum sem þingnefndir eða þingmenn hafa fengið? Ef svo er, hversu oft frá og með 143. löggjafarþingi? Hefur forsætisnefnd gripið til einhverra ráðstafana eða kannað réttmæti slíkra kvartana?
    Frá og með 143. löggjafarþingi hefur forsætisnefnd ekki fengið til meðferðar kæru um leka á trúnaðarupplýsingum sem þingnefndir eða þingmenn hafa fengið til umfjöllunar.
    Nefndin hefur þó tvívegis fjallað um meðferð trúnaðarupplýsinga í þingnefndum. Í fyrra sinn var það í tilefni af ósk formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem farið var fram á að forsætisnefnd tæki til umræðu meðferð trúnaðargagna í þingnefndum og aðgengi að gögnum þingnefnda á lokuðu vefsvæði þeirra (fundagátt). Ekki var vísað til ákveðins máls eða upplýsinga. Á fundi forsætisnefndar 5. febrúar 2018 var málið rætt og samþykkt að forseti mundi, í samráði við skrifstofu þingsins og nefndasvið þess, kanna hvernig best mætti haga aðgangi að fundargögnum fastanefnda, sérstaklega með tilliti til þess að hvaða gögnum yrði frjáls aðgangur, um hvaða gögn skyldi ríkja trúnaður samkvæmt reglum forsætisnefndar og hvaða gögn nefndir óskuðu eftir að væru trúnaðargögn um tíma og yrði þá ekki dreift á fundi.
    Í seinna sinn tók forsætisnefnd til umfjöllunar á fundi sínum 5. mars 2018 ábendingu um ótímabæra birtingu á efni bréfs umboðsmanns Alþingis til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í tilefni af umfjöllun hennar um ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu til Alþingis um skipan dómara í Landsrétt, sbr. 13. gr. þingskapa Alþingis. Í bréfi umboðsmanns frá því 2. mars 2018 kom fram að hann mundi ekki gera bréfið opinbert fyrr en það hefði verið afhent og lagt fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Bréfið var hins vegar aðgengilegt í svokallaðri fundagátt við móttöku þess. Fjallað var um efni þess í Fréttablaðinu 5. mars 2018 áður en það var lagt fyrir nefndina. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur af þessu tilefni ákveðið að gögn, sem ekki varða einstök þingmál sem hún hefur til meðferðar, verði ekki aðgengileg í fundagátt nema samkvæmt ákvörðun hennar.
    Í tilefni af framangreindu og að frumkvæði forseta Alþingis hafa þessi mál verið til sérstakrar athugunar innan skrifstofunnar og á nefndasviði. Megináherslan hefur verið á að fylgja skuli fyrirmælum reglna forsætisnefndar um meðferð trúnaðarupplýsinga. Athugunin hefur jafnframt beinst að því að yfirfara allt verklag, ekki síst eftir að þingmenn fastanefnda hófu að geta sótt fundargögn nefndar í fundagátt.

     4.      Hverjir hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum sem fastanefndir fá afhentar? Hvernig er sá aðgangur og hvernig er öryggi upplýsinganna tryggt?
    Auk nefndarmanna hafa fimm starfsmenn nefndasviðs aðgang að trúnaðargögnum fastanefnda: nefndarritari viðkomandi nefndar, skjalavörður, forstöðumaður nefndasviðs og tveir ritarar. Skjalastjóri Alþingis skilgreinir sérstaklega aðgang þessara starfsmanna að gögnum fastanefnda, þ.m.t. að trúnaðarupplýsingum nefndarinnar. Sérstöku verklagi er fylgt við skráningu trúnaðargagna í skjalasafn og um aðgang að þeim. Geymi gögn trúnaðarupplýsingar samkvæmt ákvörðun þingnefndar eða að ósk sendanda er aðgangi að þeim læst og hann takmarkaður við áðurnefnda starfsmenn Alþingis. Hægt er að læsa aðgangi að gögnum einstaks máls í heild sinni eða að tilgreindum skjölum þess samkvæmt ákvörðun þingnefndar eða að ósk sendanda. Sem dæmi má nefna frumkvæðismál velferðarnefndar um barnaverndarmál og frumkvæðismál stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um uppreist æru. Í fyrra málinu voru öll gögn þess læst og í því seinna voru níu skjöl aðgengileg í fundagátt þingnefndar en aðgangur að þremur skjölum læstur.
    Áréttað skal að gögn sem hafa læstan aðgang í skjalasafni eru ekki aðgengileg í fundagátt þingmanna. Vilji þingmenn kynna sér slík gögn er það gert á sérstöku svæði á nefndasviði, á skrifstofu skjalavarðar eða í undantekningartilvikum hjá þingvörðum samkvæmt nánari ákvörðun þingnefndar. Starfsmenn Alþingis hafa ekki setið yfir þingmönnum á meðan þeir kynna sér gögnin. Nefndarmenn eru upplýstir um það, áður en þeir kynna sér trúnaðargögn, að óheimilt sé að ljósrita þau eða taka myndir af þeim á síma. Að öðru leyti eru önnur gögn þingnefnda aðgengileg í fundagátt nefndarinnar. Aðgang að gáttinni hafa enn fremur starfsmenn þingflokka.
    Sérstakar reglur gilda um aðgang annarra þingmanna að gögnum þingnefndar, sbr. 7. gr. reglnanna. Meginreglan er að aðrir þingmenn en þeir sem í nefndinni sitja hafa ekki aðgang að trúnaðarupplýsingum þingnefndar. Þó getur forseti veitt slíkan aðgang, eins og lýst er í greininni. Um aðgang að gögnunum fer þá eftir nánari ákvörðun forseta. Dæmi um slíkt er umfjöllun Alþingis um svonefnd Icesave-gögn, þar sem þingmenn gátu kynnt sér gögnin í sérstöku herbergi í Skála, þjónustubyggingu Alþingishússins.
    Rétt er að undirstrika að aðgangur starfsmanna Alþingis er bundinn við störf þeirra fyrir þingnefndina og er í þágu starfa hennar og takmarkaður við fyrirmæli nefndarinnar eingöngu. Starfsmenn Alþingis bera þagnarskyldu eins og ríkisstarfsmenn skv. 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og skv. 136. gr. almennra hegningarlaga.

     5.      Hafa þingmenn frá og með 143. löggjafarþingi verið áminntir vegna brota á 52. gr. þingskapa um þagnarskyldu, eða vegna brota á reglum um meðferð trúnaðarupplýsinga?
    Nei. Hvorki forseti né forsætisnefnd fara með agavald gagnvart þingnefndum eða einstökum þingnefndarmönnum. Um svarið vísast að öðru leyti til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     6.      Telur forseti að ástæða sé til að endurskoða reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga?
    Eins og fram kemur í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar er vinna þegar hafin við að yfirfara núverandi verklag við framkvæmd reglna forsætisnefndar um meðferð trúnaðarupplýsinga. Hefur þá sérstaklega verið til skoðunar hvort rétt sé að setja nánari reglur um aðstöðu nefndarmanna til þess að kynna sér trúnaðargögn einslega og þá undir hvers konar umsjón. Jafnframt hefur verið til skoðunar hvernig tryggja megi sem best að áður en þingnefnd tekur við trúnaðargögnum liggi fyrir ákvörðun hennar um trúnað og aðgang nefndarmanna að gögnunum. Leiði athugunin í ljós þörf á að endurskoða reglurnar verður slíkt tekið til umfjöllunar í forsætisnefnd, sbr. 21. gr. og 3. mgr. 51. gr. þingskapa Alþingis. Er stefnt að því að slík niðurstaða liggi fyrir við upphaf 149. löggjafarþings, þ.e. næsta haust.