Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1323  —  530. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um kostnað við hátíðarfund Alþingis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er áætlaður kostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í júlí 2018? Svar óskast sundurliðað eftir helstu kostnaðarliðum.

    Í rekstraráætlun Alþingis fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir 45 millj. kr. kostnaði við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag árið 1918 undirrituðu Danir og Íslendingar samning um fullveldi og sjálfstæði Íslands sem tók gildi 1. desember það ár. Við afgreiðslu rekstraráætlunar í upphafi árs 2018 lágu ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað við þingfundinn, en áætlað var að kostnaður við sjálfan þingfundinn yrði um 35 millj. kr. og dvöl erlendra gesta, móttökur og annar kostnaður var áætlaður 10 millj. kr. Nú þegar umfang viðburðarins hefur skýrst nánar er ljóst að kostnaður getur orðið eitthvað meiri en að framan greinir.
    Í þessu sambandi má nefna að í starfi samráðshóps skrifstofu Alþingis, Framkvæmdasýslu ríkisins, ríkislögreglustjóra og annarra lögregluembætta, þjóðgarðsins á Þingvöllum, ríkissjónvarpsins, ráðuneyta (einkum utanríkisráðuneytis), Vegagerðarinnar o.fl. hefur komið fram að við bætist ýmis kostnaður er tengist þingfundinum, einkum vegna undirbúnings á vegum þjóðgarðsins á Þingvöllum (rafmagn, bílastæði, gæsla, göngustígar og viðhald), en ekki liggur enn fyrir hver slíkur viðbótarkostnaður gæti endanlega orðið.