Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1325  —  626. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um grunn vísitölu neysluverðs.


    Leitað var til Hagstofu Íslands er svör við tölul. 1–6 voru tekin saman.

     1.      Hversu oft og hvenær hefur Hagstofa Íslands breytt grunni vísitölu neysluverðs á grundvelli neyslukönnunar skv. 2. gr. laga nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs?
    Hagstofa Íslands hefur skipt 22 sinnum um grunn síðan 1995. Grunnskipti hafa verið árleg frá árinu 1997. Grunnskipti fara fram í apríl ár hvert og miðast við mars það sama ár. Grunnvogirnar eru unnar upp úr neyslukönnun sem ber nú nafnið Rannsókn á útgjöldum heimilanna. Neyslukönnun var fyrst unnin árið 1939. Ný könnun var gerð nokkrum sinnum á 20. öldinni, en síðan árið 2000 hefur rannsóknin verið í samfelldum rekstri.
    Neyslukönnunin er ítarleg rannsókn á útgjöldum þeirra heimila sem taka þátt. Á hverju ári eru um 1.200 heimili dregin í úrtak. Fólkið á heimilunum sem taka þátt heldur nákvæmt bókhald um útgjöld sín á tveggja vikna tímabili auk þess sem það svarar spurningum um stærri útgjöld yfir lengra tímabil. Með rannsókninni fást svör, frá þverskurði heimila, um útgjöld í landinu sem flokkuð eru með COICOP-neysluflokkun og lögð til grundvallar grunnskiptum í vísitölu neysluverðs.

     2.      Með hvaða hætti og á hvaða vettvangi hefur Hagstofa Íslands gert opinberlega grein fyrir neyslukönnunum skv. 2. gr. laga um vísitölu neysluverðs, niðurstöðum þeirra og fyrir því hvernig þeim hefur verið beitt til að mynda nýjan vísitölugrunn?
    Hagstofa Íslands gerir opinberlega grein fyrir útgáfum á hagskýrslum á vef Hagstofunnar, hagstofa.is. Öllum notendum er birt efnið samtímis samkvæmt birtingaráætlun. Auk þess veitir upplýsingaþjónusta eða ábyrgðarmaður birtingar nánari upplýsingar í kjölfar útgáfu.
    Niðurstöður Rannsóknar á útgjöldum heimilanna eru teknar saman árlega og gerð ítarleg grein fyrir aðferðafræði og niðurstöðum þeirrar samantektar á vef Hagstofu Íslands í ritröðinni Hagtíðindum. Jafnhliða útgáfu Hagtíðinda er gefin út frétt um útgáfuna. Notendur geta fengið sendar tilkynningar um fréttir með tölvupósti ef þeir skrá sig í áskriftarþjónustu Hagstofunnar.
    Í frétt við útgáfu vísitölu neysluverðs í apríl ár hvert er síðan sagt frá grunnskiptunum auk þess sem nýjar grunnvogir eru birtar á vef Hagstofunnar. Upplýsingar um grunnvogir fyrir vísitölu neysluverðs má finna í veftöflunni Vísitala neysluverðs, vogir fyrir undirvísitölur frá 1992 á vef Hagstofu Íslands.

     3.      Hversu oft hefur breyting á grunni vísitölu neysluverðs leitt til hækkunar vísitölunnar og hversu oft hefur slík breyting leitt til lækkunar vísitölunnar, að öllu öðru óbreyttu?
    Breyting á grunni vísitölu neysluverðs hefur ekki bein áhrif til hækkunar eða lækkunar vísitölunnar því að vísitalan er fastgrunnsvísitala; við sérhvern útreikning vísitölu neysluverðs liggja sömu grunnvogir til grundvallar, með öðrum orðum. Vísitala neysluverðs er keðjutengd milli grunna.

     4.      Hvernig hefði vísitala neysluverðs þróast til ársloka 2017 miðað við þann vísitölugrunn sem upphaflega lá til grundvallar útreikningi vísitölunnar við gildistöku laga um vísitölu neysluverðs, sundurliðað eftir mánuðum? Hvernig hefur vægi húsnæðisliðarins þróast og hvert er vægi hans í helstu nágrannalöndum?
    Ekki eru til útreikningar á Hagstofu Íslands fyrir það hver þróun vísitölu neysluverðs hefði orðið ef engin grunnskipti hefðu verið framkvæmd frá gildistöku laganna um vísitöluna á Hagstofu Íslands 1995. Hlutfallslegt vægi húsnæðisliðar hefur aukist á tímabilinu, var 18,5% í upphafi tímabilsins en stendur nú árið 2018 í 34,5% af vísitölu neysluverðs. Breytingar á vægi geta bæði verið vegna kostnaðarauka sem neytendur hafa af neyslu úr neysluflokknum en einnig vegna lægri kostnaðar við aðra neysluflokka.

Tafla 1. Þróun á vægi húsnæðisliðar (04) í vísitölu neysluverðs frá gildistöku laga nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs.
Neysluflokkur eftir COICOP Nóvember 1992 Mars 1998 Mars 2003 Mars 2008 Mars 2013 Mars 2018
04 Húsnæði, hiti og rafmagn 18,5% 17,4% 20,3% 28,2% 25,4% 34,5%
041 Greidd húsaleiga 2,5% 2,4% 2,3% 4,0% 4,3%
042 Reiknuð húsaleiga 8,2% 11,2% 17,9% 12,7% 21,3%
043 Viðhald og viðgerðir á húsnæði 1,2% 3,0% 4,6% 3,4% 2,9%
044 Annað vegna húsnæðis 2,1% 1,1% 1,2% 2,0% 1,6%
045 Rafmagn og hiti 3,4% 2,6% 2,3% 3,3% 4,3%
Ítarlegri samantekt má finna í töflu fyrir grunnvogir sem vísað er til í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.
COICOP er neysluflokkunarkerfi Sameinuðu þjóðanna fyrir einkaneyslu.

    Tilgangur grunnskipta er að auka gæði mælinga þannig að neyslusamsetningin endurspegli sem best raunverulega neyslusamsetningu meðalheimiliseiningar í landinu. Almennt eru neyslubreytingar hægar og lítill munur á grunnvogum frá ári til árs, en þegar skoðað er yfir lengra tímabil verða samsetningarbreytingar í neyslu mun sýnilegri. Þetta á vel við í stöðugu efnahagsumhverfi og er oft miðað við að uppfærsla grunnvoga á fimm ára fresti sé fullnægjandi. Þetta endurspeglast í 2. grein laga um vísitölu neysluverðs. Þróun víðs vegar um heiminn hefur þó verið í þá átt að uppfæra vogir með tíðari hætti, svo sem árlega eins og gert er á Íslandi. Með því að endurspegla sem best raunverulega neyslusamsetningu fólks á heimilum í landinu eru lágmörkuð möguleg áhrif sem breytt neysluhegðun hefur til bjögunar á verðmælingum á einkaneyslu. Þróun á vægi húsnæðisliðar í nokkrum nágrannalöndum má sjá í töflu 2.

Tafla 2. Þróun á vægi húsnæðisliðar í nokkrum nágrannalöndum.
COICOP 04: Housing, Water, Electricity, Gas and other Fuels 1995 1998 2003 2008 2013 2017
Bretland 13,4% 13,3% 10,3% 30,3% 29,9% 30,1%
Danmörk 29,1% 28% 28,7% 29,3% 30,6% 29,8%
Noregur 25,4% 21,3% 25,3% 29,5% 21,6% 24%
Svíþjóð 33,8% 33,5% 28,7% 27,1% 26,4% 23%
Bandaríkin 34,3% 35,7% 38% 36,7% 37,7%
Heimild: OECD, stats.oecd.org/Index.aspx?DataSetCode=MEI_CPI_WEIGHTS#

     5.      Hvernig hefði vísitala neysluverðs þróast frá mánuði til mánaðar til ársloka 2017 miðað við hvern nýjan vísitölugrunn sem myndaður hefur verið á grundvelli 2. gr. laga um vísitölu neysluverðs frá gildistöku þeirra laga?
    Vísað er til svars við 4. tölul. fyrirspurnarinnar. Til viðbótar má nefna að aðeins er unnið með það sett grunnvoga sem er í gildi í vísitölu neysluverðs hverju sinni. Því eru ekki til útreikningar á Hagstofu Íslands á því hver vísitala neysluverðs hefði orðið ef grunnvogir hefðu verið með öðrum hætti en gilti á hverjum tíma.

Tafla 3. Vogir neysluflokka í vísitölu neysluverðs við gildistöku laga nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs, og árið 2018.
Vísitala neysluverðs (100%) – Yfirflokkar skv. COICOP Nóvember 1992 Mars 2018
01 Matur og drykkjarvörur 17,7% 11,2%
02 Áfengi og tóbak 3,5% 2,4%
03 Föt og skór 6,3% 3,6%
04 Húsnæði, hiti og rafmagn 18,5% 34,5%
05 Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 6,8% 3,9%
06 Heilsa 2,5% 3,9%
07 Ferðir og flutningar 15,2% 16,9%
08 Póstur og sími 1,1% 2,3%
09 Tómstundir og menning 13,4% 9,8%
10 Menntun 1,4% 0,7%
11 Hótel og veitingastaðir 4,0% 5,1%
12 Aðrar vörur og þjónusta 9,6% 5,8%
Ítarlegri samantekt má finna í töflu fyrir grunnvogir sem vísað er til í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.
COICOP er neysluflokkunarkerfi Sameinuðu þjóðanna fyrir einkaneyslu.

     6.      Hvernig eru aðilar að verðtryggðum leigu- og lánasamningum upplýstir um breytingar á grunni vísitölu neysluverðs og áhrifum þeirra á verðtryggðar skuldbindingar?
    Hagstofa Íslands gerir grein fyrir breytingum á grunni vísitölu neysluverðs í útgáfum sínum á vef Hagstofunnar, hagstofa.is, og birtist efnið öllum notendum samtímis samkvæmt birtingaráætlun eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Breytingar á grunni vísitölu neysluverðs hafa ekki bein áhrif til hækkunar eða lækkunar á vísitölu eins og fram kemur í svari við 3. tölul. og því eru ekki efnislegar forsendur til að fjalla um áhrif breytinganna á verðtryggðar skuldbindingar.

     7.      Telur ráðherra að upplýsingar um samsetningu á grunni vísitölu neysluverðs og áhrif breytinga á honum séu aðgengilegar og gagnsæjar fyrir neytendur?
    Ráðherra gerir ekki athugasemdir við aðgengileika og gagnsæi upplýsinga um samsetningu á grunni vísitölu neysluverðs. Fjallað er um aðferð Hagstofu Íslands við miðlun opinberrar tölfræði í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Vefsíða stofnunarinnar er meginvettvangur fyrir miðlun þeirrar opinberu tölfræði sem stofnunin ber ábyrgð á. Öllu efni er miðlað samkvæmt birtingaráætlun og er birt öllum notendum samtímis. Í kjölfar útgáfu geta allir notendur nálgast Hagstofuna með frekari fyrirspurnir símleiðis eða í tölvupósti. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að fréttatilkynningum. Hagstofa Íslands leitast við að haga mælingum og útgáfu opinberrar tölfræði í samræmi við meginreglur í opinberri hagskýrslugerð, sbr. Stjórnartíðindi, nr. 1086, 23. nóvember 2016.