Ferill 616. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1327  —  616. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um innleiðingu regluverks þriðja orkupakka ESB.


     1.      Hver er áætlaður árlegur kostnaður ríkisins, opinberra eftirlitsaðila og orku- og dreifingarfyrirtækja á næstu árum vegna innleiðingar regluverks þriðja orkupakka ESB?
    Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna aukinna lögbundinna verkefna raforkueftirlits Orkustofnunar, í tengslum við innleiðingu þriðja raforkupakka ESB, aukist um 49 millj. kr. á ári frá því sem verið hefur. Sá kostnaður felst í auknum verkefnum á sviði raforkueftirlits Orkustofnunar, sem leiðir af innleiðingu á þriðju raforkutilskipun ESB, og eru þau eftirfarandi:
     1.      Nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu- og heildsölumarkaði raforku.
     2.      Athuganir á starfsemi raforkumarkaðar til að stuðla að virkri samkeppni og tryggja að markaðurinn starfi eðlilega.
     3.      Þátttaka í ACER (e. Agency for the Cooperation of Energy Regulators).
     4.      Nýjar heimildir til að beita stjórnvaldsviðurlögum eftir þörfum.
     5.      Eftirlit og skýrslugerð um raforkuöryggi.
    Ekki er gert ráð fyrir öðrum kostnaði ríkisins eða orku- og dreifingarfyrirtækja.

     2.      Hefur innleiðing þriðja orkupakkans áhrif á orkuverð til heimila og fyrirtækja? Hver verða áhrifin á verðmiðlun raforkuverðs?
    Engar breytingar eða nýmæli er að finna í þriðja orkupakkanum sem ætla má að hafi mælanleg áhrif á orkuverð til heimila og fyrirtækja eða á verðmiðlun raforkuverðs.