Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1329  —  654. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um samning um heilbrigðisþjónustu Sjúkrahússins á Akureyri við Grænland og Færeyjar.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að koma á samningi um sjúkraþjónustu eða sjúkrahúsrekstur á milli Sjúkrahússins á Akureyri og aðila í Færeyjum eða á Grænlandi, sbr. samninga Landspítalans við fyrrgreind lönd? Ef ekki, hvað stendur í vegi fyrir að slíkur samningur verði gerður?
    Heilbrigðisráðherrar Grænlands, Færeyja og Íslands eiga með sér náið samstarf og funda árlega. Þessa fundi sitja einnig fulltrúar Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri. Næsti fundur verður haldinn í Reykjavík í lok ágúst 2018. Hafa fundirnir leitt af sér náið samráð þessara stofnana við Grænland og Færeyjar. Starfsemi og starfsgeta hinna íslensku stofnana eru löndunum vel kunnug, sem og þær gjaldskrár sem stuðst er við.
    Samstarfið hefur leitt af sér almennan samstarfssamning Færeyja, Grænlands og Íslands sem heilbrigðisráðherrar landanna undirrituðu í Reykjavík 10. júní 2014. Ekkert er formlega því til fyrirstöðu að samningar um tiltekin verk eða þjónustu verði gerðir milli einstaka stofnana og landanna sé vilji til slíks af beggja hálfu.

     2.      Telur ráðherra að hægt væri að auka þjónustu sem Landspítalinn veitir á grundvelli samninga sem eru í gildi við aðila í Færeyjum og á Grænlandi?
    Í gildi eru samningar Landspítala annars vegar við The Faroese Hospital System (FHS) og hins vegar við Agency for Health and Prevention in Greenland (AHP) um sjúkrahúsþjónustu. Samningurinn við Færeyjar er frá 2014 og gildir í 12 mánuði, en framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn sé honum ekki sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. Sama gildir um samninginn við Grænland. Hann er frá 2016 og framlengist sjálfkrafa um ár í senn sé honum ekki sagt upp.
    Samningarnir eru hliðstæðir að flestu leyti. Þetta eru samstarfssamningar en klíníska þjónustan miðast við að Landspítali taki við sjúklingum frá FHS og AHP sem er vísað þangað af umsjónarlækni á viðkomandi stöðum og heyra undir samninginn. Um er að ræða rammasamning um valkvæða þjónustu og eru engar sérstakar takmarkanir á því hvaða þjónustu er hægt að fella þar undir.
    Hins vegar getur Landspítali vísað frá sér verkefnum, t.d. vegna skorts á fagfólki eða annarra hindrana. Eins og staðan er nú eru ekki forsendur til að gera verulegar breytingar á núverandi samstarfi.
    Ekkert í samningunum sjálfum hindrar aukið samstarf við Færeyjar og Grænland.

     3.      Hvers vegna er enginn samningur í gildi milli Sjúkrahússins á Akureyri og aðila í Færeyjum og Grænlandi varðandi sjúkraflutninga sem fara fram frá Akureyri, sbr. svar ráðherra við fyrirspurn á þskj. 1031?
    Af hálfu Sjúkrahússins á Akureyri hefur verið stutt við sjúkraflug til og frá Grænlandi um áratuga skeið. Þessi sjúkraflug hafa hins vegar verið tiltölulega fá og því hefur sú hefð skapast að rekstraraðili sjúkraflugsins hefur haft hjá sér lista af læknum og sjúkraflutningamönnum sem hafa verið reiðubúnir til að fara með í sjúkraflug hafi verið talin þörf á því. Sjúkrahúsið hefur ekki talið forsendur vera fyrir því að koma á sérstakri vakt eða bakvakt vegna þessa. Skapist slík þörf má telja komin skilyrði fyrir því að koma á formlegum samningi.
    Öll framangreind atriði verða rædd nánar á fundi heilbrigðisráðherra Færeyja, Grænlands og Íslands í Reykjavík í ágúst 2018.