Ferill 666. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1330  —  666. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um framkvæmdir vegna Landspítalans við Hringbraut.


     1.      Telur ráðherra að hægt verði að loka spítalanum í Fossvogi, eins og ráðgert er þegar nýr meðferðarkjarni verður tekinn í notkun á Landspítalanum við Hringbraut, í ljósi aukinnar þarfar fyrir sjúkrahúsþjónustu og þess að nýting sjúkrarúma hefur verið langt yfir æskilegu marki?
    Eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík var hafist handa við að undirbúa stækkun Landspítala og ákveða framtíðarstaðsetningu sjúkrahússins. Þegar tekin var ákvörðun um að byggja við Hringbraut, sbr. minnisblað til ríkisstjórnarinnar frá 2009, var lagt upp með að flytja alla starfsemi úr Fossvogi að Hringbraut. Við Hringbraut á að vera öll slysa- og bráðamóttaka spítalans, skurðstofur og gjörgæsla ásamt legudeildum. Öll rannsóknarstarfsemi og myndgreining verður á einum stað við Hringbraut ásamt sjúkrahóteli. Með sameiningu þjónustunnar á einum stað skapast talsverð hagræðing, bæði í rekstri spítalans og faglegri þjónustu. Reynslan sýnir að með aukinni framleiðni í sjúkrahúsþjónustu fækkar legudögum en aukning verður í göngudeildar- og dagdeildarþjónustu.
    Aldraðir sem hafa lokið meðferð á sjúkrahúsinu og þurfa að komast í hjúkrunarrými hafa teppt pláss á spítalanum, en til stendur að ráðast í stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma næstu fimm árin.

     2.      Hver er uppfærð áætlun um endurnýjun á gömlu húsnæði Landspítalans við Hringbraut og hversu langan tíma er áætlað að sú endurbygging taki?
    Í tengslum við byggingu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss er áformað að ráðast í endurnýjun á núverandi húsnæði spítalans við Hringbraut. Alls er áformað að nýta áfram um 55.000 m2. Jafnframt þarf að reisa nýjar stoðbyggingar á lóðinni, svo sem vörumiðstöð og flokkunarstöð, alls um 4.400 m2.
    Ekki hefur verið lagt heildstætt mat á áætlaðan kostnað við endurbæturnar, en Landspítali hefur lagt fram bráðabirgðamat á áætluðum kostnaði og kostnaði við nauðsynlegar stoðbyggingar. Áætlunin hljóðar upp á um 15.300 millj. kr. á verðlagi í desember 2017. Ekki liggur fyrir tímaáætlun um framkvæmdirnar, en framkvæmdatíminn gæti orðið um fjögur til sex ár.

     3.      Hvenær eru áætluð verklok vegna nýbyggingar Landspítalans við Hringbraut? Hversu hár er áætlaður heildarkostnaður?
    Áætluð verklok nýbygginga við Hringbraut, þ.e. meðferðarkjarna, rannsóknarhúss, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhúss, verða árið 2024.
    Kostnaðaráætlanir Nýs Landspítala ohf. (NLSH ohf.) taka tillit til hönnunar- og framkvæmdakostnaðar nýbygginga meðferðarkjarna, rannsóknarhúss, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhúss. Jafnframt taka þær tillit til hönnunar- og framkvæmdakostnaðar gatna, veitna, lóðar, tengiganga, tengibrúa, þyrlupalls, bílakjallara við Sóleyjartorg og tækni- og stoðkerfa húsa, en einnig til verkeftirlits og kostnaðar við verkefnisstjórn vegna verkþáttanna. Alls er áætlaður kostnaður við framangreind mannvirki 54.577 millj. kr. án vsk. miðað við 136,5 stiga byggingarvísitölu í janúar 2018.