Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1332  —  611. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um breyttar áherslur í opinberum innkaupum.


     1.      Hver hefur ávinningurinn verið af breyttum áherslum í opinberum innkaupum sem kynntar voru í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í október 2016 í kjölfar setningar nýrra laga um opinber innkaup, nr. 120/2016? Hafa verið sett á fót fleiri tilraunaverkefni er snúa að hagkvæmum innkaupum síðan 2016? Hver eru fyrirhuguð næstu skref í því að innleiða aukna hagkvæmni í opinberum innkaupum?
    Nýjar áherslur í opinberum innkaupum, sem kynntar voru árið 2016, fólu í sér að ríkið beitti innkaupaaðferðum með markvissari hætti, t.d. með sameiginlegum innkaupum, örútboðum og fækkun birgja. Þá fólu nýju áherslurnar einnig í sér að bæta upplýsingakerfi svo að ríkið fengi betri yfirsýn yfir innkaup sín.
    Í framhaldinu hófu Ríkiskaup endurskipulagningu á rammasamningum ríkisins með áherslu á fækkun birgja og aukna verðsamkeppni. Er það mat Ríkiskaupa að þær breytingar sem stofnunin hefur nú þegar gert á fyrirkomulagi rammasamninga muni skila yfir 2 milljörðum kr. í heildarávinning yfir líftíma samninganna.
    Dæmi um verkefni sem boðin hafa verið út í samræmi við breyttar áherslur og skilað hafa miklum ávinningi eru t.d.:
          Útboð á tölvubúnaði þar sem áætlaður ávinningur er rúmlega 100 millj. kr. á ári.
          Einn samningur við Microsoft vegna hugbúnaðarleyfa fyrir ríkið þar sem áætlaður ávinningur er um 200 millj. kr. árlega.
          Sameiginleg innkaup grunnskóla á ritföngum þar sem örútboð skilaði verði 64,2% undir kostnaðaráætlun.
    Annað verkefni sem snýr að aukinni hagkvæmni og skilvirkni opinberra innkaupa er að gera alla helstu ferla innkaupa stafræna. Stafrænt útboðskerfi mun auðvelda aðgengi birgja að innkaupum ríkisins og auka gagnsæi. Aukið gagnsæi og stafrænir ferlar mun þar með auka aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að þátttöku í samkeppni um opinber innkaup. Jafnframt er unnið að uppsetningu stafræns innkaupakerfis þar sem ríkisstofnanir munu fá aðgang að rammasamningum Ríkiskaupa á miðlægan og stafrænan hátt. Ávinningur af slíku kerfi er samræmdari og skilvirkari innkaup, bætt yfirsýn yfir innkaup ríkisins og einfaldari samskipti einkamarkaðarins við ríkið sem kaupanda.
    Í nýlegum lögum um opinber innkaup eru auknar heimildir til að nýta nýsköpunarsamstarf við útboðsferlið. Nýsköpunarsamstarfi er ætlað að hvetja opinbera aðila til að efla nýsköpun þegar nauðsynlegar lausnir eru ekki þegar til staðar. Í undirbúningi er gerð nýrrar innkaupastefnu sem mun enn frekar staðfesta breyttar áherslur í opinberum innkaupum auk þess sem tekið verður tillit til vistvænna og nýskapandi lausna.

     2.      Hver var ávinningurinn af útboði á flugfarmiðum Stjórnarráðsins í febrúar 2016 og hver eru fyrirhuguð næstu skref? Hefur farið fram útboð á flugmiðum fyrir stofnanir ríkisins? Ef ekki, hvenær er það fyrirhugað? Hver voru heildarkaup ríkisins (A-hluta) á flugmiðum árin 2016 og 2017?
    Stjórnarráðið réðst í markvissa endurskipulagningu á innkaupum á flugfarmiðum. Liður í þessari endurskipulagningu var útboð á flugfarmiðum auk þess sem sérhæfður starfsmaður sér um bókun á hagstæðustu kjörum samkvæmt samningi hverju sinni.
    Góð reynsla var af flugfarmiðaútboðinu fyrir Stjórnarráðið og í kjölfarið voru flugfarmiðakaup fyrir allar stofnanir ríkisins boðin út með sambærilegum hætti. Í báðum þessum útboðum var farin sú leið að semja bæði um fast verð á fargjöldum og almenn afsláttarkjör. Ríkiskaup áætla að afsláttarsamningurinn fyrir stofnanir ríkisins muni skila heildarávinningi sem nemur rúmlega 100 millj. kr. yfir samningstímann. Tilboð í fargjöld á föstu verði var 30% undir kostnaðaráætlun. Sambærilegar niðurstöður fengust í útboði sem framkvæmt var fyrir Stjórnarráðið.
    Eftir að samningstíma fyrrgreindra útboða líkur munu fargjöld verða boðin út á ný fyrir allar ríkisstofnanir, þar með taldar Stjórnarráðið. Þá er verið að skoða endurbætur og samræmda verkferla við skráningu á ferðaupplýsingum. Fjársýsla ríkisins heldur utan um rafrænt ferðauppgjörskerfi innan fjárhags- og mannauðskerfis ríkisins (Orri). Rúmlega 20% stofnana ríkisins nýta sér kerfið. Með slíku kerfi má nálgast á auðveldan hátt upplýsingar um flugferðir starfsmanna ríkisins og nýta þær til hagkvæmari útboða. Möguleiki er einnig á því að nýta kerfið til upplýsingagjafar vegna innanlandsflugs.
    Heildarinnkaup A-hluta stofnana á flugfarmiðum árin 2016 og 2017 liggja ekki fyrir. Ein af ástæðum þess er mismunandi verkferlar við bókun og greiðslu á flugfarmiðum. Með samræmdri upptöku á rafrænu ferðauppgjörskerfi munu slíkar upplýsingar verða aðgengilegar.

     3.      Hver var ávinningurinn af rammasamningi um kaup á raforku frá 1. júní 2016 til tveggja ára? Hver voru heildarkaup ríkisins (A-hluta) á raforku árin 2016 og 2017 (í kWst og krónum)?
    Gjaldfærð kaup á raforku fyrir A-hluta stofnanir ríkisins árin 2016 og 2017 voru 1.322. millj. kr. og 1.399 millj. kr. Fjárhæðirnar innifela annars vegar gjöld vegna dreifingar raforkunnar frá hlutaðeigandi dreifiveitu, sem byggist á gjaldskrá dreifiveitna, og hins vegar smásöluverð frá orkufyrirtækjum sem er sá hluti gjaldsins sem er á samkeppnismarkaði. Í bókhaldi ríkisins er raforkukostnaður ekki sundurgreindur í raforkunotkun og dreifingu. Því er ekki hægt að tilgreina hvorn hluta fyrir sig.
    Í kjölfar útboðs á rammasamningi fyrir raforku var farið í þrjú sameiginleg örútboð fyrir allar stofnanir þar sem sérfræðingar voru fengnir til þess að reikna út hagstæðasta tilboð fyrir hvert örútboð út frá notkun einstakra stofnana. Ávinningur af rammasamningum var að opnað var fyrir samkeppni allra starfandi raforkusölufyrirtækja á tíma útboðsins auk þess sem allar stofnanir ríkisins fengu hagstæðustu kjör sem í boði voru á tíma útboðsins, metið af óháðum sérfræðingum. Erfitt er að meta fjárhagslegan ávinning af samningunum þar sem raforkuverð eru breytileg.