Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1335  —  379. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um skuldaskil einstaklinga.


     1.      Í hve mörgum tilfellum á árunum 2008–2017 leystu kröfuhafar, þ.e. fjármálafyrirtæki og aðrir lánveitendur, til sín fasteignir einstaklinga á grundvelli almenns samningsfrelsis, án úrskurðar um fullnustugerð, samnings um greiðsluaðlögun eða sambærilegra úrræða? Svar óskast sundurliðað eftir árum, mánuðum, lánveitendum og landsvæðum.
    Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, getur alþingismaður óskað upplýsinga eða svars frá ráðherra um opinbert málefni, sbr. einnig 54. gr. stjórnarskrárinnar. Þeir lánveitendur sem þessi liður fyrirspurnarinnar tekur til eru einkaréttarlegir aðilar og upplýsingar um ráðstafanir þeirra teljast aðeins til opinberra málefna að því marki sem slíkar upplýsingar eru opinberar lögum samkvæmt, sbr. einnig ákvæði 3. mgr. 49. gr. laga um þingsköp Alþingis. Þar sem umbeðnar upplýsingar beinast ekki að opinberu málefni í skilningi framangreindra ákvæða getur ráðuneytið ekki krafist þess að lánveitendur láti þær í té. Ekki er því unnt að veita efnislegt svar við þessum lið.
    Að því sögðu áréttar ráðuneytið að upplýsingagjöf fjármálastofnana til almennings er þáttur í heilbrigðu fjármálakerfi og ráðherra telur eðlilegt að lánveitendur leggi sig fram um að veita greinargóðar upplýsingar um starfsemi sína á borð við þær sem spurt er um.

     2.      Telur ráðherra koma til greina að setja reglur um almenna skyldu fjármálafyrirtækja til að upplýsa um fjölda tilfella þar sem þau hafa leyst til sín fasteign einstaklings í tengslum við skuldaskil eða skuldauppgjör, hvort sem er með fullnustu- og réttarúrræðum, á grundvelli samninga, eða með öðrum hætti, á tilteknu tímabili?
    Fjármálafyrirtækjum og öðrum lánveitendum ber, skv. 38. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda (fasteignalánalögin), að veita neytanda færi á að óska eftir úrræðum, svo sem endurfjármögnun eða skilmálabreytingu láns, sem gætu leyst greiðsluerfiðleika neytanda áður en lánveitandi krefst nauðungarsölu á grundvelli samnings um fasteignalán. Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarp til laganna þá ,, [byggist greinin á 1. mgr. 28. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði], en í henni segir að aðildarríki skuli gera ráðstafanir til að hvetja lánveitendur til að sýna eðlilegt umburðarlyndi áður en krafist er nauðungarsölu. Við mat á því hversu langt þurfi að ganga er rétt að horfa til 4. gr. í viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um vanskil og nauðungarsölur (Guidelines on arrears and foreclosure). Greinin fjallar um mat lánveitanda á viðeigandi viðbrögðum við vanskilum og felur í sér að lánveitendur skuli m.a. taka tillit til aðstæðna neytanda og greiðslugetu hans þegar ákveðin eru næstu skref vegna greiðsluerfiðleika sem geta falið í sér endurfjármögnun eða skilmálabreytingu lánsins. Vert er að taka fram að lánveitanda er heimilt að taka inn í mat sitt á viðeigandi úrræðum greiðsluvilja neytanda að teknu tilliti til viðskiptasögu.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um annað en að fjármálafyrirtæki og aðrir lánveitendur hafi farið eftir ákvæðinu í framkvæmd. Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu, sem fer með eftirlit með framkvæmd ákvæðisins skv. 1. mgr. 52. gr. fasteignalánalaganna, hafa engin mál komið upp þar sem neytendur hafa kvartað til stofnunarinnar um að lánveitendur séu ekki að fara að ákvæðinu. Engu að síður kann að vera vel til fundið að leita reglulega upplýsinga um fjölda tilvika þar sem fjármálafyrirtæki leysir til sín eign, upphæðir sem liggja til grundvallar slíkri aðgerð og verðmæti eignarinnar sem fyrirtækið leysir til sín í tengslum við skuldaskil eða skuldauppgjör, ekki síst ef litið er til þess að slíkar upplýsingar gætu varpað ljósi á ákveðna hlið á fasteignamarkaðnum og fjármálum einstaklinga. Því telur ráðherra að vel megi skoða að fara fram á slíka upplýsingagjöf frá fjármálafyrirtækjum.