Ferill 658. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1336  —  658. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um aðstoðarmenn ráðherra og annað aðstoðarfólk.


     1.      Hversu marga aðstoðarmenn hafa ráðherrar og ríkisstjórn ráðið án auglýsingar frá því að ríkisstjórnin tók til starfa? Svar óskast sundurliðað fyrir aðstoðarmenn ráðherra og fyrir annað fólk sem starfar í ráðuneytum eða fyrir ríkisstjórnina á annan hátt.
    Alls hafa 24 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar verið ráðnir á grundvelli heimildar í 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands í tíð núverandi ríkisstjórnar. Nú eru starfandi 22 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar. Ekki eru til staðar aðrar lagaheimildir til að ráða aðstoðarmenn eða aðstoðarfólk án auglýsingar nema þá til skamms tíma eða vegna afleysinga, sbr. nánar reglur nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, með síðari breytingum, sbr. einnig heimildir laga til að flytja embættismenn og aðra starfsmenn á milli ráðuneyta og stofnana án auglýsinga. Óski fyrirspyrjandi eftir upplýsingum um slíkar ráðningar sem kunna að hafa verið ákveðnar í ráðuneytum og/eða um verksamninga sem ráðuneyti kunna að hafa gert við utanaðkomandi ráðgjafa er rétt að hann beini sérstökum fyrirspurnum þar að lútandi til viðkomandi ráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis.

     2.      Hafa slíkir aðstoðarmenn áður verið fleiri en þeir eru nú?
    Við samþykkt nýrra laga um Stjórnarráð Íslands árið 2011 voru heimildir til ráðningar aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnar auknar frá því sem áður hafði verið. Með þeim breytingum sem þá voru gerðar fékk hver ráðherra í ríkisstjórn heimild til að ráða tvo aðstoðarmenn án auglýsingar. Að auki var mælt fyrir um sérstaka heimild til handa ríkisstjórn til að taka ákvörðun um ráðningu þriggja til viðbótar. Tilgangur breytinganna var að styrkja pólitískt stefnumótunarhlutverk ráðherra með því að auka heimildir þeirra til að ráða sér við hlið valda trúnaðarmenn til aðstoðar. Frá því að breytingar þessar voru samþykktar hefur aðstoðarmönnum smá saman farið fjölgandi innan ramma gildandi lagaheimilda. Hámarksfjöldi aðstoðarmanna samkvæmt framangreindum lagaheimildum og miðað við núverandi fjölda ráðherra í ríkisstjórn er 25, en 22 eru nú að störfum. Árið 2017 voru 20 aðstoðarmenn að störfum þegar mest var og er það næstmesti fjöldi aðstoðarmanna sem verið hefur.

     3.      Hver er áætlaður árlegur heildarkostnaður af störfum þessa aðstoðarfólks?
    Áætlaður heildarlaunakostnaður vegna aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnar, miðað við núverandi fjölda aðstoðarmanna, er 427 millj. kr. fyrir árið 2018.

     4.      Væntir ráðherra þess að ríkisstjórnin muni ráða fleira fólk sér til aðstoðar án auglýsingar?
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. eru nú ónýttar heimildir til ráðningar þriggja aðstoðarmanna til viðbótar við þá sem fyrir eru á grundvelli 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvort sú heimild verði nýtt.
     5.      Hvernig hyggst ráðherra, í ljósi yfirlýstra áforma um að efla Alþingi, jafna aðstöðumun ráðherra annars vegar, sem njóta ríkulegs stuðnings ráðuneyta, stofnana og aðstoðarmanna, og stjórnarandstöðuþingmanna hins vegar, sem njóta ekki slíks stuðnings?
    Það er stefna núverandi ríkisstjórnar að beita sér fyrir því að löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis verði styrkt með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka. Auk þess er það stefna ríkisstjórnarinnar að nálgast stór og þýðingarmikil málefni og stefnumótun í þeim með þverpólitískum hætti. Í samræmi við þetta voru samþykktar, að frumkvæði stjórnarmeirihlutans á Alþingi, viðbótarfjárveitingar til þessara verkefna á fjárlögum þessa árs og er frekari hækkun áætluð á næstu árum. Þá voru framlög til stjórnmálasamtaka sem fulltrúa eiga á Alþingi einnig hækkuð. Forræði á því og endanlegt ákvörðunarvald um það hvernig best verði stutt við framangreind meginhlutverk Alþingis og alþingismanna, m.a. með ráðstöfun þeirra fjármuna sem Alþingi er ætlað til þessara verkefna á fjárlögum, er hins vegar á hendi þingsins sjálfs, forseta Alþingis, forsætisnefndar og formanna þingflokka sem og skrifstofu Alþingis. Hafa áform í þessum efnum þegar verið kynnt forsætisnefnd Alþingis og formönnum þingflokka þar sem m.a. kom fram að vinna væri að hefjast við skipulagningu á nýju kerfi aðstoðarmanna fyrir þingmenn og þingflokka. Óski fyrirspyrjandi eftir nánari upplýsingum um áætlanir Alþingis er sá kostur fyrir hendi að beina þingfyrirspurn til forseta Alþingis þar að lútandi.