Ferill 676. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1341  —  676. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samstarfsverkefni Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands.


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón S. Brjánsson, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Bryndís Haraldsdóttir, Inga Sæland, Þorsteinn Víglundsson.


    Alþingi ályktar að ganga til samstarfs við Hið íslenska bókmenntafélag um útgáfu tveggja ritverka:
     a.      verks um Þingvelli í íslenskri myndlist,
     b.      nýs yfirlitsverks um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar.
    Alþingi ályktar enn fremur að styðja útgáfuna fjárhagslega með árlegum fjárveitingum þar til verkefnunum er lokið, á grundvelli samnings sem gerður verði þar um milli forsætisnefndar fyrir hönd Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags og mennta- og menningarmálaráðuneytið staðfesti.

Greinargerð.

    Alþingi heldur hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí nk. í tilefni þess að öld er liðin frá því að samningar voru undirritaðir um fullveldi Íslands og frelsi í eigin málum. Föst venja er að Alþingi komi saman á Þingvöllum á slíkum hátíðarstundum í sögu þjóðarinnar.
    Þingvellir eru hjarta íslenskrar sögu. Þar varð árið 930 til fyrsta stofnun Íslendinga, Alþingi, sem markaði lok landnáms og upphaf þjóðríkis á Íslandi. Nær óslitið síðan hafa Íslendingar ráðið málum sínum á Alþingi, og fram undir 1800 var það háð á Þingvöllum við Öxará. Þingvellir og Alþingi eru rauði þráðurinn í sögu Íslands. Auk þess er alkunna að Þingvellir eru geysilega merkilegir og heimsþekktir fyrir jarðfræðilega sérstöðu sína og lifandi landmótun. Fegurð Þingvalla er einstæð og hverjum manni yndi að dveljast þar og skoða staðinn.
    Forsætisnefnd Alþingis þykir það þess vegna mjög vel við hæfi að gefin verði nú út bók um Þingvelli eins og þeir birtast myndlistarmönnum, málurum þjóðarinnar, á löngu tímabili. Er markmiðið að draga fram fegurð staðarins eins og hún er túlkuð með augum fremstu og merkilegustu myndlistarmanna sem Ísland hefur átt.
    Forsætisnefnd hefur átt samstarf við Hið íslenska bókmenntafélag, elsta menningarfélag þjóðarinnar, um undirbúning þess að gefa út bók í tilefni af aldarafmæli fullveldisins um Þingvelli í íslenskri myndlist.
    Eins og fram kemur í þeirri ályktun sem Alþingi samþykkti fyrir undirbúning hátíðarhalda á árinu 2018 er um það sammæli meðal allra sem til þekkja að bókmenntaarfur Íslendinga og íslensk tunga séu undirstaða íslensks sjálfstæðis og þeirrar framfarasóknar sem það hefur skapað og sé skýrasta einkenni sjálfsvitundar þjóðarinnar. Í greinargerð með tillögunni, sem flutt var af formönnum allra stjórnmálaflokkanna sem þá áttu fulltrúa á Alþingi, segir m.a.: „Án alls vafa er menningararfur og tunga þjóðarinnar sá grundvöllur sem frelsisbarátta hennar var reist á á 18. og 19. öld.“
    Sífellt þarf að hlúa að sögu þessarar menningararfleifðar og skrifa nýjar og nýjar bækur eftir því sem rannsóknum fleygir fram og viðhorf breytast. Því hefur enn fremur orðið að samkomulagi milli forsætisnefndar og Hins íslenska bókmenntafélags að Alþingi styðji þá bókmenntasögu sem félagið hefur haft í undirbúningi undanfarin missiri og lagt drög að. Stefnt er að því að ljúka þeirri útgáfu eftir þrjú ár.
    Áætla má að kostnaðurinn við undirbúning og útgáfu þessara tveggja verka muni nema samtals um 25–30 millj. kr. og að skipta megi þeim kostnaði á þrjú ár, 2019–2021. Kæmu þá um 10 millj. kr. útgjöld á hvert ár. Eðlilegast væri að fjárveitingin, sem merkt yrði tímabundin, færi undir alþingiskostnað og yrði síðan greidd Bókmenntafélaginu eftir því sem útgáfunni yndi fram, að höfðu samráði við forsætisnefnd Alþingis.
    Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir útgáfuverkefnunum tveimur og er þar byggt á undirbúningsvinnu og rökstuðningi Hins íslenska bókmenntafélags.

Þingvellir í íslenskri myndlist.
    Hið íslenska bókmenntafélag hyggur á útgáfu veglegrar bókar með myndum frá Þingvöllum (Þingvallabók) eftir helstu myndlistarmenn þjóðarinnar auk nokkurra mynda eftir listamenn sem ekki eru jafnþekktir. Þannig munu koma fram mörg sjónarhorn. Hver myndlistarmaður sér Þingvelli sínum augum og túlkar myndefnið á sinn hátt. Verkin verða valin í samvinnu við listfræðing sem einnig ritar inngang en þar verður fjallað stuttlega um Þingvelli í íslenskri myndlist og helstu listamennina. Með myndunum yrði örstutt greinargerð um hvern myndlistarmann á íslensku ásamt þýðingu á önnur mál. Hugsað yrði fyrir því að gera efnið aðgengilegt með margmiðlunartækni.
    Vegna fegurðar staðarins og sögu skipa Þingvellir sérstakan sess í íslenskri myndlist. Frá því að menn fóru að mála úti í náttúru Íslands hefur Þingvallasvæðið verið viðfangsefni listmálara og er án efa sá staður sem flestir hafa málað. Í fyrstu voru það einkum erlendir listamenn en um og upp úr aldamótunum 1900 settu íslenskir listamenn upp trönur sínar á Þingvöllum. Allar götur síðan hafa Þingvellir verið viðfangsefni íslenskra myndlistarmanna.
    Viðfangsefni bókarinnar er myndlist frá Þingvöllum. Sýnt verður hvernig myndlistarmenn sjá Þingvelli og umhverfi þeirra vetur, sumar, vor og haust og hvernig þeir túlka það sem fyrir augu ber. Við ritun verksins verður unnið mikið starf við skráningu þeirra listaverka sem til greina koma.
    Verkið hefur verið lengi í undirbúningi og mikið starf hefur þegar verið unnið. Að því er stefnt að niðurstaðan verði vegleg bók um einn mikilvægasta stað Íslands sem gegnir sérstöku hlutverki í sögu og menningu lýðveldisins og Alþingis Íslendinga sérstaklega.

Íslenskar bókmenntir.
    Hið íslenska bókmenntafélag hyggst gefa út nýtt yfirlitsverk um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar. Um yrði að ræða heildstætt verk, um 900 blaðsíður í tveimur bindum, gefið út eftir strangri tímaáætlun árið 2021. Höfundar yrðu færir sérfræðingar í bókmenntasögu við Háskóla Íslands sem mundu kappkosta að taka tillit til nýjustu rannsókna sérfræðinga á sviðinu. Verkinu yrði sérstaklega beint að lesendum 21. aldar, einkum háskólastúdentum. Mikil þörf er fyrir tiltölulega stutt og snarpt yfirlitsrit um þetta efni þar sem sérfræðingar ynnu saman sem órofa heild og hefðu mikið samráð sín á milli. Þar yrði rík áhersla á miðlun efnisins með sérstöku tilliti til þarfa nýs lesendahóps. Tækni margmiðlunar yrði nýtt.
    Sérstaða og styrkur Íslands hefur aldrei falist í efnahagslegum yfirburðum eða pólitískri valdastöðu. Á hinn bóginn búa Íslendingar að nálægð við merkilegan menningararf sem hefur verið styrkur íslenskra bókmennta öldum saman. Miðaldabókmenntaarfur Íslands er sá næststærsti og einn sá frægasti í allri Evrópu og á 20. öld varð Ísland fámennasta ríki heims til að eignast Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum. Þessu riti er ætlað að færa nútímamönnum þennan bókmenntaarf, jafnt eldri sem yngri, ekki síst íslenskum 21. aldar lesendum því að afar mikilvægt er að tengslin rofni ekki milli þessa hóps og menningararfsins. Þetta verður gert á tvennan hátt:
     1.      Með ríku tilliti til nýjustu rannsókna á sviði sem verður gert hátt undir höfði og eru líklegri en eldri rannsóknir til að glæða áhuga nýrra lesenda.
     2.      Með mikilli umhugsun og natni við að gera efnið sem aðgengilegast og uppsetningu þess sem næst kröfum nútímans. Þetta verða leiðarljós við ritstjórn verksins.
    Á aldarafmæli fullveldis Íslands er ástæða til að minnast þess að það var gæfa Íslendinga að þeir varðveittu um aldir forna, norræna skáldskaparhefð sem varð til þess að þeir týndu ekki sínu forna, norræna máli. Þetta mál – sem við tölum enn – er dýrasti þáttur íslenskrar menningar – og um leið var málið og allt sem því er tengt einn áhrifaríkasti hvatinn til þeirrar endurreisnar Íslands á 19. og 20. öld sem leiddi til fullveldis 1918 og að lokum til sjálfstæðis.
    Ritnefnd sex sérfræðinga við Háskóla Íslands hefur þegar hafið störf. Unnið verður með hönnuði frá fyrstu stigum og kapp lagt á að verkið verði ekki aðeins fróðlegt heldur einnig aðgengilegt.