Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1343  —  446. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um rafmyntir.


     1.      Hefur ráðuneytið eða undirstofnanir þess skilgreint sérstaklega einkenni viðskipta með rafmyntir, svo sem Bitcoin?
    Við vinnslu svarsins var m.a. byggt á upplýsingum sem ráðuneytið aflaði frá Fjármálaeftirlitinu, ríkisskattstjóra, tollstjóra og Seðlabanka Íslands.
    Ráðuneytið, innanríkisráðuneytið, Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Neytendastofa gáfu út sameiginlega viðvörun til almennings um sýndarfé 19. mars 2014. Þá áréttuðu bæði ráðuneytið og Fjármálaeftirlitið aðvörun til almennings um sýndarfé í fréttatilkynningum á vef sínum í byrjun þessa árs.
    Rafmynt, eða sýndarfé eins og hún hefur verið kölluð í íslenskum lögum, hefur ekki verið skilgreind með samræmdum hætti. Í veforðabók útgáfufélagsins Cambridge University Press er sýndarfé (e. virtual currency/cryptocurrency) skilgreint þannig að það taki til stafræns gjaldmiðils sem ekki er útgefinn af stjórnvöldum heldur í opnu netkerfi þar sem dulkóðun er nýtt til að tryggja örugga greiðslumiðlun.
    Eins og fram kom í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Smára McCarthy (þskj. nr. 455 – 341. mál) 23. apríl síðastliðinn hefur Seðlabanki Íslands skilgreint sýndarfé sem rafræna útgáfu sem hefur verðgildi en er gefið út af aðila sem hvorki er seðlabanki né eftirlitsskyldur aðili í skilningi laga og er í eigin mæli að reikna einingu hlutaðeigandi að verðmæti. Í 2. gr. laga nr. 91/2018, um breytingu á lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, með síðari breytingum, er sýndarfé skilgreint sem hvers konar stafrænt fé sem er hvorki rafeyrir í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris né gjaldmiðill. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að hugtakið gjaldmiðill er í lagagreininni skilgreint þannig að undir það falli seðlar, mynt og aðrir gjaldmiðlar sem seðlabankar eða aðrir til þess bærir opinberir aðilar gefa út og er viðurkenndur lögmæltur gjaldmiðill. Hafa þarf í huga að tegundir sýndarfjár eru taldar vera á annað þúsund og því erfitt að fullyrða að framangreindar skilgreiningar séu fyllilega lýsandi í tilviki þeirra allra.
    Viðskipti með sýndarfé eru í grundvallaratriðum ekki frábrugðin öðrum viðskiptum þar sem skipst er á verðmætum. Þau má í megindráttum flokka í tvennt, annars vegar viðskipti þar sem greitt er fyrir vöru eða þjónustu með sýndarfé og hins vegar kaup og sölu sýndarfjár þar sem gagngjaldið er oftast í formi peninga. Í sumum tilvikum geta aðilar myndað eða grafið eftir sýndarfé (e. mining) með ákveðnum athöfnum og að því leyti er sýndarfé t.d. frábrugðið peningum sem gefnir eru út af opinberum aðilum. Viðskipti með sýndarfé eiga það sameiginlegt að verðmæti þess hefur mikil áhrif á hvort viðskiptin eiga sér stað og hvernig gjaldi og gagngjaldi er hagað.
    Segja má að viðskipti með sýndarfé lúti ekki sömu markaðslögmálum og viðskipti með hefðbundna gjaldmiðla, en framboð og eftirspurn gjaldmiðla ræðst fyrst og fremst af efnahagsástandi í þeim ríkjum sem gefa þá út. Enn sem komið er snúast viðskipti með sýndarfé fyrst og fremst um spákaupmennsku enda sveiflast verð þeirra mun meira en verð gjaldmiðla. Fram til þessa hefur notkun sýndarfjár verið takmörkuð hérlendis, a.m.k. meðal almennings. Undanfarin missiri hafa hins vegar sprottið upp gagnaver, bæði í innlendri og erlendri eigu, þar sem stundaður er námugröftur (e. mining) eftir sýndarfé með notkun tölva (netþjóna). Þar hefur sýnst skorta eitthvað á nánari skilgreiningar og leikreglur, sbr. svör við 2. og 3. lið.     

     2.      Hver er í megindráttum lagaumgjörð slíkra viðskipta, m.a. hvað skattframkvæmd og skatteftirlit varðar?
    Engin sérlög hafa verið sett um viðskipti með sýndarfé en hins vegar er gengið út frá því að viðskiptin falli að ýmsu leyti undir almenn lög, þ.m.t. undir gildissvið eignarréttar, kröfuréttar og skattaréttar og eftir aðstæðum neytendaréttar og samningaréttar. Eins og vikið var að undir 1. lið samþykkti Alþingi nýlega breytingu á lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Með breytingunni verða þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu og það sama gildir um þjónustuveitendur stafrænna veskja. Þá var hugtakið sýndarfé skilgreint í sömu lögum sem hvers konar stafrænt fé sem er hvorki rafeyrir í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris né gjaldmiðill.
    Hvers kyns eignir eru háðar reglum eignarréttar en þær fjalla í grundvallaratriðum um umráð og not eigna. Þar eru eignir í formi sýndarfjár ekki undanskildar.
    Kröfuréttur fjallar um kröfur og efndir þeirra og reglur hans ná því til greiðslna eða gagngjalds í formi sýndarfjár jafnt sem annarra verðmæta. Af ákvæðum laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, leiðir að íslensk króna er lögeyrir í öllum greiðslum á Íslandi. Krafa um greiðslu fjár verður því efnd með greiðslu í krónum nema hún hljóði upp á greiðslu í öðru formi. Af því leiðir að sýndarfé verður ekki nýtt til greiðslu kröfu nema aðilar samningssambands hafi um það samið. Ef vanefndir verða getur til þess komið að hina vanefndu greiðslu verði að meta til peninga. Undir slíkum kringumstæðum reynir á peningalegt verðmat greiðslu hvort sem hún átti samkvæmt samningi að eiga sér stað með afhendingu sýndarfjár eða annarra verðmæta.
    Sýndarfé er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, en sú almenna regla gildir þegar að tekjuskatti kemur að allar tekjur eru skattskyldar hvernig sem þeirra er aflað og sama í hverju er goldið. Þá eru viðskipti innan lands virðisaukaskattsskyld á öllum stigum og einnig innflutningur á þjónustu. Ráðuneytið óskaði m.a. eftir upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra vegna fyrirspurnarinnar enda hefur embættið lögbundið hlutverk þegar að skattframkvæmd og skatteftirliti kemur. Í svari embættisins kom fram að því hefðu borist ýmis erindi er varða skattlagningu viðskipta með sýndarfé, einkum Bitcoin. Svör ríkisskattstjóra við erindunum gefa góða mynd af skattframkvæmd og skatteftirliti í tengslum við sýndarfé. Draga má saman þau álitaefni sem ríkisskattstjóri hefur fengist við á eftirfarandi hátt:
     1.      Hvaða reglur gilda um skattlagningu sölu eða innlausn sýndarfjár, þ.e. þegar því er skipt í hefðbundna gjaldmiðla eða öfugt? Hvernig fer um aðra ráðstöfun sýndarfjár?
     2.      Hvernig á að telja eign í formi sýndarfjár fram til skatts?
     3.      Hvaða reglur gilda um skattlagningu þegar kemur að sölu á reiknigetu og hýsingarþjónustu til aðila sem mynda sýndarfé með svokölluðum greftri?
     4.      Hvaða reglur gilda um skattlagningu í tilviki þeirra sem grafa eftir sýndarfé í eigin þágu?
    Í svari ríkisskattstjóra rekur embættið hvernig það hefur tekist á við framangreind álitaefni og reifar efni svara sem það hefur gefið þeim sem sent hafa embættinu erindi. Eftirfarandi er útdráttur úr svari embættisins:
     1.      Við álagningu tekjuskatts skiptir miklu að skilgreina hvers konar tekjur verða til í viðskiptum þar sem mismunandi reglur gilda um skattalega meðferð ólíkra tegunda tekna. Þá skiptir einnig verulegu máli hvort um er að ræða tekjur sem stafa frá atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða tekjur einstaklinga. Í ljósi þess að sýndarfé rýrnar ekki við eðlilega notkun og aldur og það er því ekki heimilt að fyrna verður sýndarfé að teljast hafa einkenni lausafjár. Ríkisskattstjóri telur að sýndarfjáreign beri að meðhöndla með sama hætti og hlutafjáreign og tekjur af henni sem söluhagnað eða -tap. Við útreikning hagnaðar eða taps af sölu eða innlausn sýndarfjár hefur embættið miðað við að kaupverð þess sé jafnt meðalkaupverði viðskipta með sýndarfé fram að söludegi líkt og gildir um hlutafjáreign. Ef viðskipti með sýndarfé teljast til tekjuöflunar í atvinnurekstri er kostnaður vegna þeirra frádráttarbær. Eigi viðskiptin sér hins vegar stað utan atvinnurekstrar er óheimilt að draga tap af sölu þeirra frá skattskyldum fjármagnstekjum nema þær séu tilkomnar vegna söluhagnaðar af sömu tegund sýndarfjár.
     2.      Í leiðbeiningum vegna skattframtals einstaklinga er þess getið að færa skuli sýndarfé, svo sem Bitcoin, til eignar á markaðsverði í árslok í kafla 4.4 á framtali sem aðrar eignir áður ótaldar. Í framtalsskilum rekstraraðila ber að eignfæra sýndarfé á gangverði eins og það var í árslok. Við kaup eða sölu á vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með sýndarfé ber að miða við að gangverð sýndarfjár sé hið sama og samtímagangverð í kauphöll, ef um skráð sýndarfé er að ræða. Ef sýndarféð er óskráð ber að miða við það verð sem almennt á við í sambærilegum viðskiptum með viðkomandi vöru eða þjónustu. Ef verðlagning viðskiptanna er frábrugðin því sem almennt gerist í hliðstæðum viðskiptum geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt verð og miðað skattlagningu við það.
     3.      Almennar reglur virðisaukaskattslaga eiga við um viðskipti þar sem greitt er fyrir vöru og þjónustu með sýndarfé. Slík viðskipti eru jafnan virðisaukaskattsskyld. Sala á reiknigetu og hýsingarþjónustu til aðila sem mynda sýndarfé, þ.e. starfa við námugröft, er virðisaukaskattsskyld og sala á slíkri þjónustu innan lands telst til virðisaukaskattsskyldrar veltu. Sala á reiknigetu og hýsingarþjónustu til erlendra aðila er hins vegar undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu en heimilt er að færa virðisaukaskatt af aðfangakaupum vegna þjónustunnar sem innskatt við uppgjör virðisaukaskatts.
     4.      Þrátt fyrir að almenna reglan sé sú að greiða beri virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum er ríkisskattstjóri þeirrar skoðunar að þeir sem grafa eftir sýndarfé geti ekki við þá starfsemi talist stunda sölu á vöru eða þjónustu til annarra. Af þeim sökum falli þeir utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts.
    Eftirlit skattyfirvalda með viðskiptum með sýndarfé lýtur sömu reglum og gilda almennt um skattskyld viðskipti. Þar sem viðskipti með sýndarfé eiga sér nánast alfarið stað með rafrænum hætti er framkvæmd þess erfiðari viðfangs en í tilviki hefðbundinna viðskipta með áþreifanlegar vörur og þjónustu. Sýndarfé er ekki alltaf skráð á raunverulegan eiganda en viðskiptin ættu alla jafna að skilja eftir sig rafræna slóð sem má rekja með réttum verkfærum. Virkt skatteftirlit og -rannsóknir á viðskiptum með sýndarfé kalla á að skattyfirvöld búi yfir sérþekkingu á slíkum viðskiptum. Svo eftirlitið verði skilvirkt þurfa skattyfirvöld að eignast eða hafa aðgang að gagnasöfnum, nauðsynlegum hugbúnaði og tækjum. Þetta á raunar við um eftirlit með rafrænum viðskiptum almennt (e. Digital Commerce) en þau hafa vaxið ört að umfangi og líkur eru á að vöxturinn haldi áfram til framtíðar.

3.     Telur ráðherra ástæðu til þess að taka viðskipti með rafmyntir til nánari skoðunar?
    Viðskipti með sýndarfé eru tiltölulega ný af nálinni hér á landi og hafa helst birst í fjölda fyrirtækja sem stunda hér námugröft í íslenskum gagnaverum. Álitamál þeim tengd hafa verið að koma inn á borð íslenskra stjórnvalda upp á síðkastið, m.a. skattyfirvalda, eins og fram kemur í svari við 2. lið. Mikil umræða hefur verið um málið á alþjóðavettvangi undanfarið, bæði hjá OECD og ESB, og sum ríki, þar á meðal Bandaríkin, eru komin vel á veg með að setja þessum viðskiptum ramma á meðan önnur eru komin skemmra á veg.
    Séð frá sjónarhóli skattyfirvalda má ráða af svörum RSK, sbr. svar við 2. lið, að fram til þessa hafi einungis borist erindi um tiltekin afmörkuð tilvik, en nokkuð skorti hins vegar á að heildarmynd af skattlagningu viðskipta með sýndarfé liggi fyrir. Í ljósi þess hefur ráðherra hug á því að setja á fót starfshóp til að skoða til hvaða skattalagabreytinga aðrar þjóðir hafa gripið gagnvart þessum viðskiptum ásamt því að kortleggja hvað mögulega stendur enn út af í því tilliti í íslenskum skattalögum þannig að lagaumgjörðin sé skýr. Hafa ber í huga að hér er um alþjóðlegt viðfangsefni að ræða og þar af leiðandi er brýnt að vel sé fylgst með þróun þess á erlendum vettvangi.