Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1346  —  551. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks.


     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?
    Almennt séð fer það eftir byggingartíma hvort húsnæði ráðuneytis og stofnana þess uppfylli kröfur um aðgengi fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi. Þannig er að eldra húsnæði, eðli máls samkvæmt, uppfyllir jafnan ekki þessar kröfur á meðan að nýrra húsnæði uppfyllir þær að flestu leyti með tilliti til laga um mannvirki og krafna um aðgengi sem þar er að finna. Hvað varðar eldra húsnæði er oft erfitt að gera viðeigandi breytingar á húsnæðinu til að það uppfylli kröfur, nema til komi viðamikil endurgerð eða endurbygging á húsnæðinu. Í einhverjum tilfellum hefur verið ráðist í slíkar breytingar, en þá aðeins í hluta af húsnæði og þá einungis gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að geta tekið á móti gestkomandi einstaklingum sem eru bundnir við hjólastól. Almennt stendur ekki til að ráðast í endurgerð eða endurbyggingu húsnæðis enda oftast um leiguhúsnæði að ræða og væru því slíkar breytingar á ábyrgð og kostnað eiganda.
    Vefir ráðuneytisins og stofnana þess uppfylla í flestum tilfellum, að hluta til eða öllu leyti, kröfur um aðgengi að gögnum og upplýsingum er henta blindum, lögblindum og sjónskertum. Vefur Stjórnarráðsins, www.stjornarrad.is, sem er sameiginlegur vefur allra ráðuneyta, uppfyllir aðgengisstefnu um opinbera vefi sem samþykkt var í ríkisstjórn í maí 2012.
    Benda má á að í flestum stýrikerfum tölva er jafnframt að finna almenn tól til að bæta aðgengi blindra og sjónskertra að upplýsingum og gögnum á vefjum eða í tölvukerfum. Má í því sambandi m.a. nefna tæki á borð við „stækkunargler“, hljóðgervil og vörpun lyklaborðs á skjá.
    Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki markað sér almenna stefnu eða sett saman sérstaka aðgerðaáætlun um aðgengi fatlaðs fólks. Á það skal þó bent að Skógræktin hefur kappkostað að útbúa gott aðgengi fatlaðs fólks að þeim þjóðskógum sem opnir eru almenningi. Vatnajökulsþjóðgarður hefur margar starfsstöðvar víða á sínu starfssvæði og hefur farið í samstarf við Gott aðgengi og er aðili að aðgengismerkjakerfinu. Gott aðgengi hefur tekið út þjóðgarðsmiðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs og aðgengi þeirra er birt á vefnum www.gottadgengi.is. Hyggst þjóðgarðurinn vinna kerfisbundið að því að bæta aðgengi fatlaðs fólks. Veðurstofa Íslands er að vinna að bættu aðgengi í samstarfi við húseiganda.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneyti er með starfsstöð í leiguhúsnæði við Skuggasund 1 og Skuggasund 3. Eigandi húsnæðisins er Rekstrarfélag Stjórnarráðsins. Um er að ræða allt húsnæði í Skuggasundi 1, en í Skuggasundi 3 er um að ræða alla þriðju hæð hússins og hluta af fjórðu hæð þess. Aðrir aðilar eru með starfsstöðvar í Skuggasundi 3, þ.m.t. ein stofnun ráðuneytisins, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (hluti af annarri hæð) og gilda því sömu svör.
    Húsnæði sem hýsir starfsemi ráðuneytisins er byggt árin 1943 (Skuggasund 1) og 1936 (Skuggasund 3) og hefur ekki verið endurbyggt eða endurgert (þ.e. endurbætur er krefjast byggingarleyfis, sbr. skilgreiningu laga um mannvirki nr. 160/2010) og tekur því ekki tillit til krafna um algilda hönnun samkvæmt gildandi mannvirkjalögum.
    Við Skuggasund 1 hafa verið gerðar endurbætur til að tryggja aðgengi fatlaðra sem eru gestkomandi. Þannig er fyrir framan inngang ráðuneytisins að finna bílastæði sem er merkt og afmarkað fyrir fatlaða. Þaðan er óhindrað aðgengi að sjálfopnandi dyrum inn í móttöku ráðuneytisins. Inn af móttöku eru salerni með aðgengi og útbúnað fyrir fatlaða. Á jarðhæð ráðuneytisins er fundarherbergi með aðgengi fyrir fatlaða. Í ráðuneytinu er jafnframt lyfta sem veitir aðgengi að öllum hæðum þess en ekki hafa verið gerðar breytingar á húsnæðinu er miða að aðgengi fatlaðs fólks, svo sem að fjarlægja alla þröskulda, víkka dyr og almenn rými til að tryggja hjólastólaaðgengi eða útbúa salerni með hjólastólaaðgengi.
    Skuggasund 3 deilir aðkomu og bílastæði fyrir fatlað fólk með Skuggasundi 1 og því er gott aðgengi inn um aðalinngang þeirrar byggingar. Í húsinu er jafnframt lyfta upp á allar hæðir. Að öðru leyti eru ekki gerðar neinar sérstakar ráðstafanir um aðgengi fatlaðra að húsnæðinu, hvorki almennu rými þess né að skrifstofum starfsmanna, að salernum, kaffistofum eða fundarherbergjum.

     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?
    Ráðuneytið hefur ekki markað sér sérstaka stefnu eða aðgerðaráætlun um aðgengi fatlaðs fólks. Ekki hafa verið settar sérstakar verklagsreglur um móttöku og aðgengi fatlaðs fólks sem eru gestkomandi í þeim tilgangi m.a. að tryggja öryggi þeirra ef slíkar aðstæður mundu skapast. Eins og staða máls um aðgengi fatlaðs fólks er háttað nú ætti ráðuneytið erfitt um vik að ráða í vinnu einstakling sem bundinn væri hjólastól þar sem ekki væri hægt að tryggja aðgengi hans að húsakynnum ráðuneytisins né tryggja öryggi hans ef svo bæri undir.
    Við vinnslu þessa svars lét ráðuneytið fara fram könnun á meðal þeirra stofnana sem heyra undir ráðuneytið um efni fyrirspurnarinnar. Niðurstöður þeirrar könnunar er að finna í meðfylgjandi töflu. Fjórtán stofnanir af fimmtán svöruðu fyrirspurn ráðuneytisins.
    Ráðherra hyggst í kjölfar fyrirspurnarinnar láta vinna úttekt á núverandi aðgengi fyrir fatlað fólk í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og beina því til stofnana ráðuneytisins að forstöðumenn þeirra geri slíkt hið sama. Í framhaldi verði gerð aðgerðaáætlun á grundvelli úttektar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.