Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1348  —  515. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um jarðvegslosun í Bolaöldu.


     1.      Hversu mikið magn af jarðefnum, mold, möl, grjóti og steinsteypubrotum var flutt árlega á jarðvegslosunarsvæðið í Bolaöldu í hlíðum Vífilsfells í landi Ölfuss frá því að starfsemi hófst þar og fram til ársins 2017?
    Ráðuneytið bendir á að skýrslur rekstraraðila um meðhöndlaðan úrgang er að finna á vef Umhverfisstofnunar:
     ust.is/atvinnulif/starfsleyfi-og-eftirlit/skyrslur-um-medhondladan-urgang/
    Er þar m.a. að finna upplýsingar frá Bolaöldum ehf. fyrir árin 2014, 2015 og 2016. Í eftirfarandi töflu má sjá magn jarðefna sem endurnýtt voru í Bolaöldu á árunum 2012–2017.

Ár Endurnýtt jarðefni
2012 129.883 tonn
2013 255.981 tonn
2014 300.000 tonn
2015 333.159 tonn
2016 432.000 tonn
2017 465.679 tonn

     2.      Hefur verið könnuð hagkvæmni þess að jarðvegur sem fellur til og til þessa hefur verið losaður í Bolaöldu væri framvegis nýttur, t.d. til uppfyllingar við hafnargerð við Faxaflóahafnir? Ef svo er, hver var niðurstaða slíkrar könnunar?
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að slíkar hagkvæmniúttektir hafi verið gerðar. Bent er á að svæðið í Bolaöldum er með starfsleyfi til landmótunar en landmótun úr óvirkum úrgangi telst vera endurnýting úrgangs. Í þessu samhengi er einnig vert að minnast á að í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er kveðið á um að nýta eigi efni í landmótun innan svæðis til þess að draga úr þörf á akstri með efni og afsetningu þess en það fer þó eftir gerð jarðefna og aðstæðum hverju sinni.