Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1349  —  514. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um rannsóknir og öryggisráðstafanir vegna jarðvegslosunar í Bolaöldu.


     1.      Hvernig er gengið úr skugga um að á jarðvegslosunarsvæðinu í Bolaöldu í landi Ölfuss sé eingöngu losað endurnýtanlegt, óvirkt jarðefni en ekki lífræn efni?
    Heilbrigðisnefnd Suðurlands gaf árið 2011 út starfsleyfi til tólf ára fyrir starfsemi Bolaalda ehf. vegna endurnýtingar úrgangs til landmótunar á afmörkuðu efnistökusvæði sem hætt er að nota í Bolaöldu. Eingöngu er heimilt að taka á móti endurnýtanlegum óvirkum jarðvegsúrgangi, svo sem mold, möl og grjóti. Óheimilt að taka á móti lífrænum úrgangi eins og húsdýraáburði og landbúnaðarhrati. Starfsmaður skal vera á vakt á afgreiðslutíma svæðisins og skal losun vera útilokuð utan afgreiðslutíma með lokun á aðkomuleiðum. Reglubundið eftirlit er með starfseminni með eftirlitsheimsókn heilbrigðiseftirlitsins annað hvert ár og aukaheimsóknum ef ástæða þykir til, t.d. í kjölfar ábendinga og/eða kvartana. Bolaöldur ehf. skulu halda skrá yfir þá farma sem berast inn á svæðið, bæði magn og tegund efnis, og skal skráin vera aðgengileg eftirlitsaðila. Berist inn á svæðið farmur með efni sem ekki er tækt í landmótun er starfsleyfishafa gert að fjarlægja hann. Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefur gert kröfu um viðbragðsáætlun vegna mengunaróhappa af völdum olíu eða spilliefna vegna starfseminnar og er hún í vinnslu hjá starfsleyfishafa.

     2.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á efnasamsetningu jarðefna sem losuð eru í Bolaöldu með hliðsjón af nálægð þeirra við vatnsverndarsvæði og hverjar eru niðurstöður þeirra rannsókna?
    Atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun skal hafa gilt starfsleyfi, sbr. reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit (áður reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun). Með slíkum atvinnurekstri skal haft eftirlit, sbr. framangreinda reglugerð nr. 550/2018 (áður reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit). Núgildandi starfsleyfi Bolaalda ehf. byggist á reglugerð nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit og samkvæmt henni er atvinnurekstri skipt í fimm flokka í samræmi við umfang og hættu á mengun. Þannig skal meðalfjöldi skoðana í 1. flokki vera tvisvar á ári og gera skal eftirlitsmælingar þriðja hvert ár. Endurvinnsla úrgangs er í 5. flokki og skal heilbrigðisnefnd ákveða tíðni eftirlits, sem í tilfelli starfseminnar í Bolaöldu er annað hvert ár. Ekki er kveðið á um eftirlitsmælingar fyrir starfsemi í 5. eftirlitsflokki.
    Í kjölfar nýju reglugerðarinnar nr. 550/2018 gerir eftirlitsaðili áætlanir um reglubundið eftirlit með atvinnurekstri á grundvelli eftirlitsáætlana, þ.m.t. um tíðni vettvangsheimsókna, sem byggist á kerfisbundnu mati á umhverfisáhættu viðkomandi starfsemi.

     3.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á líklegum breytingum á efnasamsetningu grunnvatns við að regnvatn sígi með tímanum ofan í aðfluttan jarðveg við Bolaöldu og blandist náttúrulegu grunnvatni á Heiðmerkursvæðinu? Hverjar eru niðurstöður þessara rannsókna, hafi þær verið gerðar?
    Talin er lítil hætta af mengun vegna urðunar óvirks úrgangs eins og þess sem notaður er við landmótun í efnistökusvæðinu í Bolaöldu. Þetta endurspeglast í fyrri reglugerðum um starfsleyfi og mengunarvarnaeftirlit sem giltu þegar starfsleyfið var gefið út, þar sem starfsemin er í 5. flokki og ekki gerðar kröfur um eftirlitsmælingar, sbr. svarið við 2. lið. Þau skilyrði sem fram koma í starfsleyfi heilbrigðisnefndarinnar eru talin nægjanleg til verndar umhverfinu og ekki er talin þörf á sérstökum umhverfisrannsóknum vegna starfseminnar.

     4.      Er til áhættumat vegna jarðvegslosunar í Bolaöldu og viðbragðsáætlanir sem eru endurskoðaðar með reglubundnum hætti í ljósi áhættumats? Hverjir eru helstu þættir slíkra áætlana, þar á meðal um verkaskiptingu og skiptingu ábyrgðar aðila sem koma að slíkum áætlunum?
    Ekki hefur verið gert áhættumat vegna losunar jarðefna til landmótunar á efnistökusvæðinu í Bolaöldum, enda er þar einungis heimilt að urða óvirkan jarðvegsúrgang, svo sem mold, möl og grjót, sbr. svör við framangreindum spurningum.

     5.      Hvernig er háttað framkvæmd eftirlits með starfsleyfisskyldri starfsemi í Bolaöldu, m.a. á sviði mengunarvarna?
    Varðandi urðun óvirks úrgangs er vísað til svars við 1. lið. Í Bolaöldu er einnig efnistaka og hefur Heilbrigðisnefnd Suðurlands gefið út starfsleyfi vegna þeirrar starfsemi og annast mengunarvarnaeftirlit með starfseminni. Þá liggur jafnframt fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu Ölfusi vegna efnistökunnar. Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefur einnig gefið út starfsleyfi til handa Vélhjólaíþróttaklúbbnum vegna aksturssvæðis við Bolaöldu.

     6.      Telur ráðherra samrýmast vatnsverndarsjónarmiðum að jarðlosunarstarfsemi með því umfangi sem raun ber vitni og mengunarhættu sem slíkri atvinnustarfsemi fylgir sé valinn staður í Bolaöldu í ljósi þess að hún liggur á mörkum fjarsvæðis vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins og við mörk tveggja grunnvatnsstrauma, Elliðaárstraums og Selvogsstraums, og að lunginn af neysluvatni Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga er fenginn úr fyrrnefnda straumnum? Hver er rökstuðningur fyrir áliti ráðherra í þessu efni?
    Efni hefur verið unnið úr Bolaöldum í nokkra áratugi. Árið 2011 lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna nýs efnistökusvæðis í Bolaöldu. Þar er m.a. fjallað um frágang á eldra efnistökusvæðinu. Fram kemur að Umhverfisstofnun telur að haugsetja ætti efni á eldra námusvæði með markvissari hætti til að draga eins fljótt og unnt er úr ummerkjum eftir efnistöku í hlíðum Vífilsfells. Stofnunin telur að leggja eigi áherslu á að haugsett verði með hlíðum fjallsins til austurs og vesturs. Skipulagsstofnun leggur til skilyrði við framkvæmdaleyfisveitingu sem eru að á næstu fimm árum frá útgáfu leyfis eigi Bolaöldur ehf. að laga ummerki eftir efnistöku í hlíðum Vífilsfells á þann hátt sem kynnt er í matsskýrslu. Kveðið er á um að til þess verði notað haugsett efni sem þegar hefur verið komið fyrir á svæðinu og annað efni sem berast mun til svæðisins á því tímabili.
    Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefur gefið út stafsleyfi vegna landmótunarinnar og efnistökunnar og annast mengunarvarnaeftirlit vegna þeirrar starfsemi. Mat á umhverfisáhrifum, leyfisveitingar og mengunvarnaeftirlit vegna starfsemi í Bolaöldu er í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.
    Umrædd starfsemi er ekki innan vatnsverndarsvæðis en innan vatnsverndarsvæða gilda strangar reglur hvað varðar starfsemi og framkvæmdir. Um stjórnsýslu á sviði vatnsverndar fer samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Í stöðuskýrslu sem unnin var undir stjórn vatnamála var grunnvatnshlotið, sem Bolaalda og vatnsverndarsvæðið sem um ræðir tilheyra, ekki metið í hættu. Þess má einnig geta að umrætt grunnvatnshlot er á vöktunaráætlun Umhverfisstofnunar sem nú er í vinnslu undir stjórn vatnamála. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvers konar vöktun verður komið á í grunnvatnshlotinu, en vöktunaráætlunin er nú í vinnslu aftur, eftir nokkurt hlé sem var tilkomið vegna fjárskorts í málaflokknum. Ráðherra fagnar því að vinna við vöktunaráætlun er hafin á ný hjá Umhverfisstofnun enda brýnt að stunda öfluga vöktun á mikilvægum vatnshlotum sem þessum.