Ferill 636. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1350  —  636. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um sjúkraflutninga.


     1.      Hvaða aðferðir voru notaðar árið 2017 til þess að flytja sjúklinga á sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir og hversu oft var hver aðferð notuð á hverri stofnun það ár?
    Svar við spurningunni miðast við þær upplýsingar sem Neyðarlínan safnar um sjúkraflutninga. Í eftirfarandi töflu koma fram sjúkraflutningsleiðir sem notaðar eru hér á landi og tegundir áfangastaða sem flogið er til en nöfn stofnana eru ekki skráð í gagnagrunn Neyðarlínunnar um sjúkraflutninga.

Hvert flutt 2017 Sjúkrabifreið Flugvél Þyrla Alls Hlutfall áfangastaða
Sjúkrahús 28.166 1 28.167 59,4%
Heilsugæslustöð 7.131 1 7.132 15,0%
Vettvangur 6.124 10 6.134 12,9%
Hjúkrunarheimili 2.278 2.278 4,8%
Flug 1.201 863 114 2.178 4,6%
Lögheimili 924 924 1,9%
Annað 636 4 640 1,3%
Alls 46.460 863 130 47.453 100%
Hlutfall flutningsleiða 97,9% 1,8% 0,3% 100,0%

    Eins og fram kemur í töflunni er stærstur hluti sjúkraflutninga á sjúkrahús eða tæp 60% og koma heilsugæslustöðvar þar á eftir, en þangað fara 15% sjúkraflutninga. Sjúkrabifreiðar annast langstærstan hluta sjúkraflutninga eða um 98% og sjúkraflug með flugvélum og þyrlum nemur samanlagt um 2%. Í töflunni kemur fram að í 1.201 skipti skiluðu sjúkrabílar sjúklingi á flugvöll til að fara í sjúkraflug. Einnig kemur fram að sjúkraflug með þyrlu og flugvél sem skráð eru í gagnagrunn voru alls 977 árið 2017. Tekið skal fram að samlagning flugs í töflunni felur í sér talningu á sjúkraflugi og flutningi á flugvöll. Flutningur á vettvang er skráður t.d. ef mál er afgreitt á staðnum eða ef sjúklingur af farþegaskipi er fluttur aftur að skipshlið.

     2.      Hvaða verklagsreglur gilda um flutning sjúklinga með sjúkraflugi með tilliti til ástands sjúklinga og annarra þátta?
    Sjúkrahúsið á Akureyri sem er miðstöð sjúkraflugs á Íslandi undirbýr heilbrigðisþátt flestra sjúkrafluga hér á landi. Sjúkrahúsið hefur útbúið gátlista vegna undirbúnings sjúkraflugs og ítarlegar leiðbeiningar um undirbúning sjúkraflugs með þungaðar konur og fylgja þau skjöl sem fylgiskjöl með svarinu.
    Skjótt viðbragð og viðeigandi heilbrigðisþjónusta meðan á flugi stendur eru mikilvægustu þættir hvers sjúkraflugs og miða verklagsreglur og kröfur til þjónustuaðila að því að ná þessu fram.
    Sjúkraflug eru flokkuð í fjóra flokka eftir bráðleika. Þegar um alvarlegt lífsógnandi ástand er að ræða fellur flugið í forgangsflokka F1 eða F2. Í samningi við Mýflug um sjúkraflug með flugvélum er gerð krafa um að ef útkall fellur í tvo framangreinda flokka skuli flugvél vera tilbúin til flugs 35 mínútum eftir að staðfest beiðni berst um sjúkraflug. Rýmri kröfur eru um viðbragsðtíma vegna útkalla sem falla í F3 og F4. Í samningi við Landhelgisgæslu um sjúkraflug með þyrlu er gerð krafa um að þyrla sé tilbúin til flugs 60 mínútum eftir að staðfest beiðni berst um sjúkraflug en í raun er viðbragstíminn nær 30 mínútum.
    Heilbrigðisstarfsmaður sem biður um sjúkraflug gegnir lykilhlutverki varðandi heilbrigðisþátt hvers sjúkraflugs. Viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður, sem oftast er læknir, ákveður forgangsflokkun og hvort læknir fari með í flugið, sem oftast er vegna flutninga í forgangi F1 og F2. Menntaður sjúkraflutningamaður er alltaf um borð. Samskipti heilbrigðisstarfsmanns sem biður um sjúkraflug og fluglæknis er mikilvægur þáttur í undirbúningi sjúkraflugs. Þau miða að því að fluglæknir fái nauðsynlegar upplýsingar um ástand sjúklingsins til að tryggja sem best viðeigandi mönnun og útbúnað í hverju sjúkraflugi. Á grundvelli þessara samskipta er t.d. ákveðið hvort fleiri en einn lækni þurfi í viðkomandi flutning, hvort ljósmóðir þurfi að fylgja sjúklingi eða hvort taka þurfi með búnað umfram staðalbúnað.

     3.      Hver var meðalferðatími sjúklinga í sjúkraflugi árið 2017 og hvernig skiptist sá ferðatími milli ferðamáta? Svar óskast sundurliðað fyrir flutning til flugvélar, flutning með flugvél og loks fyrir flutning úr flugvél á lokaáfangastað.
    Í gögnum Neyðarlínu sem annast skráningu upplýsinga vegna sjúkraflutninga eru 865 sjúkraflutningar þar sem um er að ræða sjúkraflug milli annarra flutningsleiða. Ekki lágu fyrir nægilega traustar upplýsingar um nema 273 sjúkraflutninga af þeim 865 sem spurningin nær til vegna ófullnægjandi skráningar hjá sjúkraflutningsaðilum og miðar svarið því við þá flutninga. Í þessum 273 sjúkraflutningum var meðalflutningstími frá upphafsstofnun til áfangastofnunar 111 mínútur sem skiptast þannig að meðaltími í sjúkrabíl að flugvelli var 55 mínútur, meðalflugtími 41 mínúta og meðaltími í bíl frá flugvelli að áfangastað 15 mínútur. Stysti flutningstími var 42 mínútur og sá lengsti 323 mínútur en í því tilfelli þurfti að bíða lengi eftir sjúklingi á upphafsflugvelli þar sem illa gekk að gera ástand sjúklings nægilega stöðugt til flutnings.

Fylgiskjal I.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal II.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal III.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.