Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1353  —  646. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni um synjun Skipulagsstofnunar á tillögu sveitarstjórnar að aðalskipulagi.


     1.      Hversu oft frá árinu 2011 hefur Skipulagsstofnun synjað sveitarfélagi staðfestingar á tillögu að aðalskipulagi, sbr. 4. mgr. 32. gr. laga nr. 123/2010?
    Þegar skipulagslög nr. 123/2010 tóku gildi í ársbyrjun 2011 tók Skipulagsstofnun við því hlutverki sem umhverfis- og auðlindaráðherra fór áður með hvað varðar staðfestingu aðal- og svæðisskipulags. Stofnuninni ber hins vegar að vísa slíkum málum til umhverfis- og auðlindaráðherra ef hún telur að synja eða fresta beri staðfestingu á skipulagi í heild eða að hluta vegna form- og/eða efnisgalla.
    Að jafnaði hafa á undanförnum árum verið staðfestar af hálfu Skipulagsstofnunar nálægt 60 breytingar á aðalskipulagi á ári. Frá ársbyrjun 2011 hefur stofnunin í engum tilvikum vísað staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi til ráðherra. Frá ársbyrjun 2011 hafa verið staðfest rúmlega 40 heildstæð aðalskipulög, þ.e. sem fela í sér gerð aðalskipulags fyrir heilt sveitarfélag (nýtt skipulag eða heildarendurskoðun). Í aðeins einu tilfelli hefur Skipulagsstofnun vísað staðfestingarafgreiðslu til ráðherra. Engum svæðisskipulagsstaðfestingum hefur verið vísað til ráðherra á tímabilinu.
    Rétt er að vekja athygli á því að þegar heildstætt aðal- eða svæðisskipulag eða breyting á aðal- eða svæðisskipulagi berst Skipulagsstofnun til staðfestingar þarf stofnunin iðulega að senda erindi til baka til viðkomandi sveitarfélags/sveitarfélaga með ósk um frekari gögn, skýringar á málsmeðferð eða að gerðar séu tilteknar breytingar á skipulagsgögnum áður en unnt er að staðfesta skipulagið. Breytingar sem stofnunin fer fram á að gerðar séu á skipulagsgögnum geta varðað beinar leiðréttingar á misræmi eða rangfærslum í skipulagsgögnum eða samræmi skipulagsins við lög, reglugerðir eða stefnu stjórnvalda; einnig ef þörf er talin á að hafa orðalag skipulagsins skýrara til að tryggja markvissa framfylgd þess. Skýringar sem kallað er eftir um málsmeðferð skipulagsins geta t.d. varðað það að brugðist sé við framkomnum umsögnum stofnana og athugasemdum almennings með þeim hætti sem skipulagslög kveða á um. Þegar bætt hefur verið úr viðkomandi atriðum er skipulagið staðfest af hálfu stofnunarinnar.

     2.      Hvaða ástæður lágu að baki því að tillögu var vísað til ráðherra í hverju tilviki fyrir sig?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið hefur Skipulagsstofnun aðeins einu sinni vísað staðfestingu á afgreiðslu aðalskipulags til umhverfis- og auðlindaráðherra á grundvelli skipulagslaga, nr. 123/2010. Það var aðalskipulag Keflavíkurflugvallar 2013–2030. Í því tilviki var það niðurstaða Skipulagsstofnunar eftir athugun málsins að stofnuninni bæri að senda tillögu sína um afgreiðslu aðalskipulagsins til ráðherra. Í tillögu Skipulagsstofnunar var bent á formgalla sem sneru að loftgæða- og hljóðvistarmælingum, hindrunarfleti nýrra flugbrauta og umfangi uppbyggingar innan skipulagssvæðis Keflavíkurflugvallar.
    Skipulagsstofnun lagði til við ráðherra að aðalskipulag Keflavíkurflugvallar 2013–2030 yrði staðfest að öðru leyti en því að frestað yrði skipulagsákvörðun um nýja N/S flugbraut og NV/SA flugbraut og að skipulagsákvörðun um annan uppbyggingaráfanga aðalskipulagsins yrði frestað til næstu endurskoðunar aðalskipulagsins skv. 35. gr. skipulagslaga.

     3.      Voru tímafrestir skv. 4. mgr. 32. gr. laga nr. 123/2010 virtir í öllum tilfellum?
    Samkvæmt 4. mgr. 32. gr. skipulagslaga skal Skipulagsstofnun senda ráðherra innan fjögurra vikna frá því að henni barst tillaga að aðalskipulagi, tillögu um synjun á aðalskipulagi eða frestun á staðfestingu þess.
    Eins og fram kemur í svörum við 1. og 2. lið hefur eingöngu reynt á 4. mgr. 32. gr. skipulagslaga í máli er varðaði staðfestingu á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2013–2030. Í því máli reyndist Skipulagsstofnun ekki unnt að afgreiða skipulagið innan fjögurra vikna frestsins. Skipulagsstofnun fékk aðalskipulagið til staðfestingar með erindi skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar og Landhelgisgæslunnar, dags. 14. apríl 2016, og brást við því með erindi til viðkomandi aðila, dags. 24. júní 2016. Áður hafði stofnunin tilkynnt um að tafir yrðu á afgreiðslu málsins. Skipulagsgögn til staðfestingar bárust að nýju til stofnunarinnar með erindum 12. og 22. september 2016. Skipulagsstofnun vísaði aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2013–2030 til staðfestingar umhverfis- og auðlindaráðherra og utanríkisráðherra með bréfi dags. 31. janúar 2017, en hafði áður tilkynnt skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar um að tafir yrðu á afgreiðslu málsins.

     4.      Hverjar voru lyktir hvers þessara mála?
    Umhverfis- og auðlindaráðherra og utanríkisráðherra staðfestu aðalskipulag Keflavíkurflugvallar 2013–2030 óbreytt frá tillögu sveitarstjórnar 2. og 5. október 2017, sbr. auglýsingu nr. 935/2017 í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember 2017. Samhliða féll úr gildi aðalskipulag Keflavíkurflugvallar 2005–2025.