Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1366  —  610. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um landverði utan friðlýstra svæða og þjóðgarða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Eru landverðir utan friðlýstra svæða og þjóðgarða og ef svo er, hversu margar landvarðavikur voru á þeim svæðum árið 2017 og hversu margar eru áætlaðar árið 2018?

    Þrjár stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ráða til sín landverði, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður og Þingvallaþjóðgarður. Alla jafna heyrir starfsemi landvarða utan friðlýstra svæða og þjóðgarða til undantekninga.
    Árið 2017 störfuðu landverðir á vegum Umhverfisstofnunar á þremur svæðum utan friðlýstra svæða og þjóðgarða, alls í 62 vikur. Í Kerlingarfjöllum starfaði landvörður í um fjórar vikur; á Reykjanesi, utan Reykjanesfólkvangs en innan Reykjaness jarðvangs, starfaði landvörður í um 27 vikur; og í Fjaðrárgljúfri í Skaftárhreppi starfaði landvörður í 31 viku. Árið 2018 er gert ráð fyrir landvörslu á vegum Umhverfisstofnunar á sjö svæðum sem ekki eru friðlýst í alls 85 vikur. Landvarslan verður á eftirfarandi svæðum: í Kerlingarfjöllum í átta vikur, á Reykjanesi í 30 vikur, í Fjaðrárgljúfri í 25 vikur, á Norðurlandi vestra í sex vikur, á Látrabjargi í átta vikur og í Reykjadal í Ölfusi í sex vikur. Á Víknaslóðum á Austfjörðum (Borgarfirði eystri, Breiðavík, Húsavík og Loðmundarfirði) leggur stofnunin til tvær landvarðavikur en landvörður verður starfandi á vegum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og Ferðamálahóps Borgarfjarðar í alls fjórar vikur sumarið 2018. Um tilraunaverkefni er að ræða.
    Á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið gerður samningur við Fljótsdalshrepp um landvörslu við Hengifoss í Fljótsdal og sinna landverðir í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri, verkefninu sem nam samtals fjórum landvarðavikum árið 2017 og er sami tími áætlaður fyrir árið 2018. Auk þessa sinnir Vatnajökulsþjóðgarður landvörslu á nokkrum svæðum utan þjóðgarðsmarka, en aðeins á friðlýstum svæðum í samræmi við samning þjóðgarðsins og Umhverfisstofnunar. Þá hafa stofnanirnar tvær sameinað krafta sína með ráðningu landvarða í Hrauneyjum á suðurhálendinu, en starfsstöðin er ein af landvörslustöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs utan þjóðgarðsmarka og um hana fer stór hluti þeirra gesta sem sækir friðland að Fjallabaki heim á ári hverju. Í sumar, líkt og í fyrrasumar, er rekin upplýsingamiðstöð í Hrauneyjum en landverðir á starfsstöðinni eru líka á ferðinni á helstu aðkomuleiðum í Landmannalaugar, á Sprengisandi og á Tungnaáröræfum í eftirliti og fræðslu.
    Öll landvarsla hjá Þingvallaþjóðgarði er innan marka hans.