Ferill 669. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1371  —  669. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um hag barna við foreldramissi.


     1.      Hver er réttarstaða barna við missi foreldris, hver eru félagsleg réttindi þeirra og hverjir teljast nánustu aðstandendur?
    Svar við þessum tölul. fyrirspurnarinnar byggist að miklu leyti á framlagi frá dómsmálaráðuneyti. Við andlát foreldris barns reynir einna helst á barnalög, nr. 76/2003, barnaverndarlög, nr. 80/2002, erfðalög, nr. 8/1962, lög um ættleiðingar, nr. 130/1999, auk lögræðislaga, nr. 71/1997, og tekur svar þetta mið af þeim. Með hliðsjón af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnalögum og barnaverndarlögum skal það sem er barni fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.
    Í 30. gr. barnalaga er lögbundið hvernig fari um forsjá barns við andlát forsjárforeldris. Við andlát forsjárforeldris verður eðli málsins samkvæmt veruleg röskun á högum barns og við mótun reglna um forsjá í kjölfar slíks áfalls er brýnt að haga reglum þannig að sem best samræmist hagsmunum barns.
    Ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns við andlát annars þeirra fer eftirlifandi foreldri áfram með forsjá barnsins eftir andlát hins, sbr. 1. mgr. 30. gr. barnalaga. Þetta á við hvort sem foreldrar eru í hjúskap, skráðri sambúð eða fara saman með forsjá barns án þess að búa saman.
    Ef þannig háttar til að kynforeldri, sem farið hefur eitt með forsjá barns síns, hefur samið við stjúpforeldri barnsins um sameiginlega forsjá, sbr. 29. gr. a barnalaga, og kynforeldrið deyr, þá helst forsjá barnsins sjálfkrafa hjá stjúpforeldrinu eftir andlát kynforeldrisins, sbr. 2. mgr. 30. gr. barnalaga. Getur slíkt einungis átt við ef sýslumaður hefur staðfest sérstakan samning um forsjá stjúp- og sambúðarforeldris á grundvelli 29. gr. a barnalaga. Samningur öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns og leita skal umsagnar þess foreldris sem fer ekki með forsjá barns. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til breytinga á barnalögum, nr. 61/2012, kemur m.a. fram að því megi slá föstu að það tryggi best stöðugleika fyrir barn að stjúp- og sambúðarforeldri fari sjálfkrafa með forsjá eftir andlát kynforeldris. Árétta beri að ákvæðið tryggi að barn verði öruggt á heimili sínu við aðstæður sem væntanlega eru því gríðarlega þungbærar. Ef stjúp- eða sambúðarforeldri og forsjárlaust foreldri barns eru sammála um að hagsmunum barns sé best borgið með breytingu á forsjá, þá sé unnt að semja um það. Einnig sé unnt að bera málið undir dómstól og gera t.d. kröfu um bráðabirgðaforsjá ef hagsmunir barns krefjast þess.
    Við andlát foreldris, sem farið hefur eitt með forsjá barns, hverfur forsjá þess sjálfkrafa til eftirlifandi foreldris við andlát forsjárforeldrisins, sbr. 3. mgr. 30. gr. barnalaga.
    Við andlát forsjárforeldris má með samningi samkvæmt 32. gr. barnalaga eða dómi fela öðrum forsjá barns, að kröfu hans, en þeim sem forsjá annars fellur til skv. 1.–3. mgr. 30. gr. barnalaga, ef það er barni fyrir bestu. Þá getur forsjárforeldri eða forsjárforeldrar, með skriflegri og staðfestri yfirlýsingu, ákveðið hverjir skuli fara með forsjá barns þeirra eftir andlát þeirra. Ef forsjárforeldrar hafa ákveðið hver eða hverjir skuli að þeim látnum fara með forsjá barns þeirra skal fara eftir því sem þeir ákveða nema annað þyki barni fyrir bestu eða sú ákvörðun er andstæð lögum. Slík yfirlýsing skal gefin bréflega og skal hún jafnframt vera staðfest í samræmi við ákvæði 7. mgr. 30. gr. barnalaga.
    Ef barn verður forsjárlaust vegna andláts forsjárforeldris eða foreldra færist forsjá þess sjálfkrafa til barnaverndarnefndar, sbr. 4. mgr. 30. gr. barnalaga. Í þeim tilvikum gilda almennar reglur barnaverndarlaga um skyldur nefndarinnar gagnvart barninu; skylt er að vista barnið í barnaverndarúrræði, fóstri samkvæmt XII. kafla barnaverndarlaga eða í öðru úrræði skv. 84. gr. barnaverndarlaga, í samræmi við þær reglur sem almennt gilda um vinnslu mála þar sem barnaverndarnefnd fer með forsjá.
    Ef annað foreldra barns er látið eða bæði á barn rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið, sbr. 46. gr. a barnalaga. Undir þá sem geta talist nákomnir barni geta t.d. fallið stjúp- eða sambúðarforeldri sem verið hefur í nánum tengslum við barn meðan viðkomandi var í hjúskap eða sambúð með kynforeldri.
    Ef annað foreldri barns eða bæði eru látin getur reynt á lög um ættleiðingar. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um ættleiðingar skal leita umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns, ef unnt er, áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um ættleiðingar skal, ef annað foreldri er látið eða bæði, ef unnt er, leita umsagnar foreldra þess foreldris sem látið er, systkina þess foreldris sem látið er og systkina þess sem ættleiða á áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar, enda sé sá sem ættleiða á yngri en 18 ára. Þá er jafnframt heimilt að leita umsagnar annarra sem eru nákomnir barni, ef talin er þörf á, enda sé sá sem ættleiða á yngri en 18 ára.
    Þá reynir jafnframt á almennar reglur erfðaréttar við andlát foreldris barns auk þess sem lögræðislög geta komið til álita. Í 8. mgr. 51. gr. lögræðislaga kemur til að mynda fram að hafi foreldri ákveðið hver vera skuli að því látnu fjárhaldsmaður barns er það hefur forsjá fyrir skal skipa hann fjárhaldsmann, nema annað þyki hentara vegna hagsmuna barnsins eða mælt sé fyrir um fjárhaldið í lögum. Í athugasemdum í greinargerð með viðkomandi ákvæði í frumvarpi til núgildandi lögræðislaga kemur m.a. fram að í lögræðislögum sé einungis að finna reglur um þann þátt lögráða barna er felst í fjárhaldi þeirra. Reglur um hinn þátt lögráðanna er fela í sér rétt og reyndar einnig skyldur til að ráða persónulegum högum barns, þ.e. um forsjá barna, séu í barnalögum. Fram kemur að forsjá og fjárhald barns séu oftast á hendi sama eða sömu einstaklinga, en þetta tvennt kunni þó að verða skilið að. Þá sé jafnframt ljóst að yfirlýsingar foreldris um það hver skuli að því látnu taka við forsjá barns eða fjárhaldi þess hafi einungis gildi að því leyti sem lög mæla ekki fyrir um hvernig um þessi lögráð skuli fara og að því tilskildu að þær séu í samræmi við hagsmuni barns.

     2.      Hve margir foreldrar barna yngri en 18 ára hafa látið lífið sl. 20 ár og hvernig skiptast dánarorsakir hlutfallslega, þ.e. krabbamein, sjálfsvíg, fíknisjúkdómar, geðsjúkdómar, illvígir líkamlegir sjúkdómar og aðrir alvarlegir sjúkdómar, slys og skyndidauði? Svar óskast sundurliðað eftir kyni, aldri og hjúskaparstöðu.
     3.      Hversu mörg börn undir 18 ára aldri hafa misst foreldri sitt, annað eða bæði, sl. 20 ár, sundurgreint eftir aldri og kyni barnanna?
     4.      Hversu mörg börn undir 18 ára aldri hafa misst stjúpforeldri sitt sl. 20 ár, sundurgreint á sama hátt?
     5.      Í hve mörgum þessara tilvika var annað foreldri barns á lífi og hver var hjúskaparstaða þess og tengsl við barnið, stjúpforeldri, ættleiðingarforeldri, o.s.frv.?

    Upplýsingar eru ekki fyrirliggjandi svo að svara megi 2.–5. tölul. fyrirspurnarinnar. Að sögn Hagstofu Íslands felur það í sér talsverða vinnu að taka þessar upplýsingar saman, en þó sé það mögulegt. Yrði ráðuneytið að óska eftir sérvinnslu í þessu skyni, sem yrði að greiða fyrir, enda eru ráðuneytin gjaldskyldir notendur í þessu samhengi gagnvart Hagstofunni. Áætlaður kostnaður við að vinna svörin er um 500 þús. kr. Til skoðunar er hvort óskað verður eftir sérvinnslu Hagstofunnar.

     6.      Hve mörg börn njóta sérstaks barnalífeyris frá TR og hvers vegna, sundurliðað eftir aldri og kyni?
    Í töflu á næstu síðu kemur fram hve mörg börn njóta barnalífeyris sundurliðað eftir kyni og aldri. Í töflunni er barnalífeyrir greindur í eftirtalda flokka miðað við stöðu foreldris: andlát vegna slyss, ellilífeyrir, endurhæfingarlífeyrir, barn ófeðrað, örorka vegna slyss, vegna andláts, vegna refsivistar, örorkulífeyrir og viðbót við örorkustyrk vegna barna.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.