Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1374  —  558. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um samkeppnisstöðu íslenskra iðnfyrirtækja.


     1.      Hvaða áhrif mun afnám eða lækkun tolla 1. maí sl. af vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni hafa á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja? Óskað er eftir að reynt verði að flokka starfsemi fyrirtækja niður á helstu iðngreinar í svarinu.
    Til viðbótar við eldri tollasamning Íslands og Evrópusambandsins frá árinu 2007 var í umræddum tollasamningum samið um núllbindingu á toll á 345 tollskrárnúmerum, bæði fyrir óunnar og unnar landbúnaðarafurðir. Af þessum 345 tollskrárnúmerum falla tollar nú alfarið niður á yfir 100 tollskrárnúmerum sem áður báru toll. Auk þess er samið um lækkun tolla á 23 tollskrárnúmerum. Samkvæmt framansögðu má gera ráð fyrir því að afnám eða lækkun tolla hafi í för með sér aukna samkeppni fyrir innlend iðnfyrirtæki. Hins vegar ber að geta þess að gagnkvæmni ríkir að mestu milli samningsaðila hvað þetta varðar sem felur í sér að ESB afnemur einnig tolla á þessum vörutegundum. Samkvæmt því geta íslensk iðnfyrirtæki nú flutt út framleiðsluvörur sínar til Evrópusambandslanda án tolla, t.d. sælgæti, súkkulaði o.fl.
    Samningurinn tekur til landbúnaðarvara, bæði unninna og óunninna. Unnar landbúnaðarvörur eru oftast nær blandaðar öðrum landbúnaðarhráefnum og samsetning þeirra og íblöndunarefni mismikil eftir eðli og gerð. Þessi skilgreining er þó ekki alltaf augljós eða rökræn. Magntollur sem felldur var niður af unnum landbúnaðarvörum var aðallega á bilinu 5 til 100 kr./kg, þó dæmi sé um afnám magntolls upp á 142 kr./kg. Til að hægt sé að flokka starfsemi fyrirtækja niður á helstu iðngreinar þarf að liggja fyrir nákvæm skilgreining á þeim vörum sem um ræðir, slík greining er vandasöm þar sem samsetning varanna er mismunandi eftir því hvaða vörur eiga í hlut og því er erfitt að meta áhrifin almennt séð.

     2.      Hvaða áhrif mun aðgerðin hafa á innkaupsverð á mjólkurdufti til innlendra iðnfyrirtækja og hver verður væntanlegur verðmunur á því og innkaupsverði erlendra keppinauta í ljósi hárra verndartolla hérlendis?
         Í tollasamningnum við ESB var ekki samið um lækkun eða niðurfellingu tolla á undanrennu- eða mjólkurdufti. Íslensk iðnfyrirtæki hafa notað innlent mjólkurduft til framleiðslu sinnar og þurfa því að keppa með þær framleiðsluvörur sínar bæði á innlendum markaði og á Evrópusambandsmarkaði. Samkvæmt tölum frá Samtökum iðnaðarins er verðmismunur á innlendu og evrópsku mjólkurdufti um 214 kr./kg, án tolla og flutnings til landsins. Þá hefur ekki verið tekið tillit til mismunandi gæða vörunnar ef um það er að ræða.

     3.      Hyggjast stjórnvöld, og þá hvernig, leiðrétta þennan mismun á innkaupsverði mjólkurdufts gagnvart íslenskum iðnfyrirtækjum?
    Hinn 1. júlí 2016 lækkaði verðlagsnefnd búvara heildsöluverð á undanrennu- og mjólkurdufti um 20% til að mæta áhrifum nýs tollasamnings við ESB og lækkun heimsmarkaðsverðs á slíku dufti til iðnaðar. Þessi ákvörðun kom í framhaldi af vinnu starfshóps sem hafði m.a. það hlutverk að kanna áhrif tollasamnings við ESB, þar sem lagt var mat á hvernig einstakar búgreinar gætu tekist á við þær breytingar sem samningurinn hefur í för með sér. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari lækkun heildsöluverðs á undanrennu- og mjólkurdufti.

     4.      Með hvaða hætti, almennum og sértækum, hyggjast stjórnvöld gera íslenskum framleiðendum kleift að nálgast hráefni á verði sem er samkeppnishæft við það sem erlendir keppinautar njóta?
    Í skýrslu starfshópsins sem vitnað er til í svari við 3. tölul. kemur eftirfarandi fram: „Eftir frekari umræður varð niðurstaðan sú að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ætti frumkvæðið að því að koma á samtali milli Bændasamtaka Íslands, Mjólkursamsölunnar og Samtaka iðnaðarins um að finna leiðir til að jafna hráefniskostnað (undanrennu- og mjólkurduft, o.fl.) í samkeppnisiðnaði, s.s. vegna framleiðslu á súkkulaði og ís.“ Niðurstaðan af því samtali var síðan 20% lækkun á undanrennu- og mjólkurdufti, en ákvörðun um frekari verðbreytingar liggur ekki fyrir. Ekki hefur verið fjallað um leiðir til að lækka annað hráefni en hér um ræðir.