Ferill 572. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1375  —  572. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um krosseignatengsl í sjávarútvegi.


     1.      Hverjar eru fjárfestingar 15 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins á grundvelli aflamarks í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum með úthlutuðu aflamarki?
    Í neðangreindri töflu er listi yfir 15 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins á grundvelli aflamarks þessa fiskveiðiárs í þorskígildum talið:

1. HB Grandi hf. 48.153.055 kg
2. Samherji Ísland ehf. 27.947.520 kg
3. Síldarvinnslan hf. 26.461.645 kg
4. Þorbjörn hf. 20.784.824 kg
5. Vinnslustöðin 19.649.617 kg
6. Fisk-Seafood ehf. 18.658.520 kg
7. Skinney-Þinganes hf. 18.480.787 kg
8. Ísfélag Vestmannaeyja hf. 17.411.061 kg
9. Rammi hf. 16.068.756 kg
10. Vísir hf. 15.577.695 kg
11. Brim hf. 15.508.909 kg
12. Eskja hf. 12.807.580 kg
13. Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. 12.807.580 kg
14. Gjögur hf. 10.575.856 kg
15. Nesfiskur ehf. 10.500.173 kg

    Ekki liggja fyrir upplýsingar um þá fjármuni sem einstök sjávarútvegsfyrirtæki hafa lagt fram til fjárfestinga í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um eignarhluti sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru með úthlutað aflamark á yfirstandandi fiskveiðiári. Í fylgiskjali má sjá eignarhlut framangreindra félaga í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum. Upplýsingar í fylgiskjali eru byggðar á gögnum frá Fiskistofu og á ársreikningum félaganna fyrir árið 2017 og ná því ekki til viðskipta sem hafa orðið á eignarhlutum á árinu 2018.

     2.      Hvernig er háttað eftirliti með samanlagðri aflahlutdeild á grundvelli 13. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða?
    Fiskistofa kannar stöðu aflahlutdeildar í eigu íslenskra útgerðarfyrirtækja tvisvar á ári til að fylgjast með því hvort aflahlutdeild sé innan þeirra marka sem kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Sé eitthvert þeirra yfir lögbundnum mörkum tilkynnir Fiskistofa viðkomandi útgerðarfyrirtæki um stöðu aflahlutdeildar og veitir sex mánaða frest til að koma aflahlutdeild niður fyrir lögbundin mörk. Hafi aðili ekki veitt Fiskistofu upplýsingar um að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar skerðist aflahlutdeild fiskiskipa í viðkomandi útgerðarfyrirtæki hlutfallslega eftir tegundum um þær aflaheimildir sem eru umfram lögbundin mörk, eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 14. gr. laganna.
    Framsal aflahlutdeildar milli fiskiskipa er heimilt að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem nánar er kveðið á um í 6. mgr. 12. gr. laganna. Tilkynnt er um framsalið til Fiskistofu og tekur flutningurinn ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur samþykkt hann. Við slíkan flutning kannar Fiskistofa hvort flutningur aflahlutdeildarinnar sé innan leyfilegra marka og jafnframt hvort aflahlutdeild þess sem á í hlut fari yfir þau mörk sem 13. gr. laganna kveður á um. Séu þau innan marka er flutningurinn heimilaður, en fari aflahlutdeild í þeim tegundum sem getið er í 13. gr. yfir þau mörk sem þar eru ákveðin grípur Fiskistofa til þeirra aðgerða sem kveðið er á um í 2. mgr. 14. gr. og lýst var hér að ofan.
    Sú skylda hvílir á handhafa aflahlutdeilda skv. 1. mgr. 14. gr. laganna að tilkynna Fiskistofu þegar fyrirsjáanlegt er að aflahlutdeild fiskiskipa í hans eigu fari umfram þau mörk sem getið er í 13. gr. laganna, t.d. vegna flutnings aflahlutdeilda, samruna lögaðila sem eiga fiskiskip með aflahlutdeild, kaupa á eignarhlut í slíkum lögaðilum og kaupa, kaupleigu eða leigu á fiskiskipi með aflahlutdeild. Fiskistofa metur síðan upplýsingarnar og tilkynnir viðkomandi um aflahlutdeildarstöðuna. Sé hún yfir þeim mörkum sem getið er í 13. gr. er gripið til sömu úrræða og að framan er getið. Þegar slíkar tilkynningar eru gerðar fer fram rannsókn á stöðu aflahlutdeildar þeirra sem í hlut eiga.


Fylgiskjal.
Eignarhlutur Félag Eignarhlutur Félag
100% Útgerðarfélag Akureyringa ehf.
Samherji Ísland ehf. 90,50% Samherji hf. 100% Sæból fjárfestingafélag ehf.
44,64% Síldarvinnslan hf.
Síldarvinnslan hf. 100% Bergur-Huginn ehf.
38% Runólfur Hallfreðsson ehf.
Vinnslustöðin hf. 100% Útgerðarfélagið Glófaxi ehf.
48% Huginn ehf. 4,90% Eskja hf.
Skinney-Þinganes hf. 100% Útgerðarfélagið Vigur ehf.
0,07% Síldarvinnslan hf.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. 100% Fagranes útgerð ehf.
0,08% Loðnuvinnslan hf. Fáskrúðsfirði 100% Hjálmar ehf.
Brim hf. 100% Ögurvík ehf.
32,88% Vinnslustöðin hf.
Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. 5,15% Norðureyri ehf.