Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1377  —  671. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um DRG-kostnaðargreiningu á Landspítalanum.


     1.      Hver er ástæða þess að fjármögnun klínískrar þjónustu á Landspítalanum er enn ákveðin á föstum fjárlögum en er ekki orðin framleiðslutengd á grundvelli DRG-kostnaðargreiningar (e. diagnosis-related groups ) eins og stefnt var að með samningi Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala árið 2016?
    Nokkrar tafir hafa orðið á fullri innleiðingu á samningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Landspítala (LSH). Um mjög stórt og viðamikið verkefni er að ræða. Þannig gerði samningurinn ráð fyrir að LSH framleiddi 44.500 DRG-einingar árið 2017 og að verð á hverri einingu væri 1.056.200 kr. Upphæð samningsins nam því rúmum 47 milljörðum árið 2017 eða sem jafngildir 85,1% af framlagi ríkisins til rekstrar spítalans það ár.
    Árið 2017 var notað til að skuggakeyra samninginn. Spítalinn gerði SÍ grein fyrir framleiðslu sinni í samræmi við ákvæði samningsins. Þannig gátu samningsaðilar borið framleiðslu spítalans á DRG-einingum saman við fjárveitingar þótt slíkt hefði ekki bein áhrif á mánaðarleg framlög til spítalans.
    Ýmis tæknileg mál sem snúa að innleiðingu á lögum um opinber fjármál og að breytingum á framsetningu fjárlaga hafa einnig tafið málið. Ekki er búið að leysa þau öll. Því er líklegt að árið í ár verði einnig notað til að skuggakeyra samninginn og að stefnt verði að því að fjárhagsleg áhrif hans komi að fullu til framkvæmda frá og með 1. janúar 2019.

     2.      Hversu mörg stöðugildi, af um 4.100 alls á spítalanum, og hversu margar fagstéttir, af 15 alls, falla undir DRG-kostnaðargreiningu á Landspítalanum?
    DRG-samningurinn nær til um 85% af rekstrarframlögum ríkisins til spítalans. Því má segja að samningurinn geri ráð fyrir blandaðri fjármögnunarleið. Beinn kennslukostnaður, vísindastarf, fjárfestingarframlag, tækjakaup og viðhald sem og ákveðnir sérsamningar eru ekki hluti af DRG-samningnum. Af því sem ekki fellur undir DRG-samning er fjárfestingarframlag, tækjakaup og viðhald um helmingur og þar er um að ræða rekstrarkostnað að mestu.
    Af þessum sökum er erfitt að greina nákvæmlega þann fjölda stöðugilda sem fellur undir samninginn. Með mikilli einföldun má áætla að um 95% af stöðugildum á spítalanum falli undir samninginn og ná þau til allra fagstétta hans. Sá hluti stöðugilda sem hægt er að segja að falli ekki undir DRG-samning tengist að mestu beinni kennslu og umsýslu vísindastarfs.

     3.      Hvernig er kennsla og vísindastarf lækna á Landspítalanum reiknað inn í DRG-kostnaðargreininguna?
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. er kostnaður við beina kennslu og vísindastarf utan DRG-samnings. Innan samnings er óbeinn kostnaður af kennslu- og vísindastarfi sem leiðir af álagi vegna menntunar og þjálfunar nema, meiri sérhæfingu þeirrar þjónustu sem veitt er á spítalanum, veikari sjúklingum (meiri sjúkdómsbyrði), flóknari og víðtækari þjónustu sem veitt er á spítalanum, hærra tæknistigi og meiri gæðakröfum.