Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1379  —  538. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um heimilislækna á Íslandi og ráðningar heilsugæslulækna á landsbyggðinni.


     1.      Hvert er hlutfall heimilislækna af öllum læknum á Íslandi borið saman við aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD)?
    Rétt er að taka fram að alltaf þarf að hafa nokkurn fyrirvara á tölum um fjölda starfandi lækna. Útgefnar tölur embættis landlæknis um fjölda starfandi lækna byggjast á ákveðinni nálgun þar sem ekki er vitað nákvæmlega hvaða læknar eru starfandi hér á landi, hverjir starfa erlendis og hvort einhverjir menntaðir læknar starfa við annað en lækningar. Gengið er út frá því í útgefnum tölum um „fjölda starfandi“ að þeir læknar séu starfandi sem eru með almennt lækningaleyfi, 70 ára og yngri í árslok hvers árs og með lögheimili á Íslandi. Þrátt fyrir að þetta sé nálgun þá eru þetta engu að síður opinberar tölur sem m.a. eru sendar í alþjóðlega gagnagrunna.
    Einnig er vert að hafa í huga þegar tölur um fjölda starfandi lækna eftir tilteknum sérgreinum eru teknar saman að embætti landlæknis hefur sett sér það viðmið að ef læknir er með fleiri en eina skráða sérgrein þá er nýjasta sérgreinin valin og ef læknir er með tvær eða fleiri skráðar sérgreinar sem dagsettar eru sama dag þá er sú sérgrein valin sem talin er sértækari. Mjög mikilvægt er að tölur um fjölda starfandi lækna séu ekki settar fram án þeirra skýringa sem nefndar eru hér að framan.
    OECD birtir einungis tölur um heildarfjölda starfandi lækna á hverja 1.000 íbúa í riti sínu „Health at a Glance“. Það kom síðast út árið 2017. Þar er ekki að finna tölur um starfandi heimilislækna. Eins og sjá má í töflu 8.3 í ritinu 1 eru flestir læknar starfandi á hverja 1.000 íbúa í Grikklandi eða 6,3. Meðaltal OECD-ríkjanna er 3,4 en á Íslandi voru 3,8 læknar starfandi á hverja 1.000 íbúa árið 2015. Fæstir eru læknar á hverja 1.000 íbúa í Indónesíu eða 0,3.

     2.      Hver er fjöldi íbúa á hvern heimilislækni á Íslandi borið saman við Norðurlöndin?
    NOMESKO gefur árlega út ritið „Health Statistics for the Nordic Countries“. Það kom síðast út haustið 2017 og er þar m.a. að finna tölur um fjölda starfandi heimilislækna á Norðurlöndum árið 2015 og fjölda íbúa á hvern heimilislækni. Árið 2015 var fjöldi íbúa á hvern heimilislækni mestur á Íslandi eða 1.732. Fæstir íbúar voru á hvern heimilislækni í Noregi, eða 795. Samanburð við Norðurlönd má sjá í töflu 5.4.3 í fyrrgreindu riti. 2

     3.      Hver hefur þróunin verið í fjölda fastráðinna heimilislækna á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni frá árinu 2010? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Til að afla svars við þessum lið fyrirspurnarinnar og 4. og 5. tölul. sendi velferðarráðuneytið töflu til útfyllingar til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þrátt fyrir ítrekað erindi barst ekki svar frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Upplýsingar um þau atriði sem spurt er um í 3.–5. tölul. má finna í fylgiskjali.
    Eins og sést í töflu í fylgiskjali er þróunin í fjölda fastráðinna heilsugæslulækna misjöfn eftir heilbrigðisstofnunum og jafnvel einstökum starfsstöðvum heilbrigðisstofnananna. Fjöldi fastráðinna heilsugæslulækna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið nokkuð stöðugur frá 2010, þá voru 126 fastráðnir heilsugæslulæknar en eru 120 árið 2018. Heildarfjöldi fastráðinna heilsugæslulækna hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur farið úr 11 læknum árið 2010 í fimm árið 2018. Hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur fjöldi fastráðinna heilsugæslulækna verið stöðugur umrætt árabil. Samanburður á fjölda lækna hjá Heilsugæslunni á Akureyri (HAk) er aðeins mögulegur til ársins 2015 þegar HAk sameinaðist Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Setin stöðugildi fastráðinna heilsugæslulækna hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands voru 9,9 árið 2010 en 4,57 árið 2018. Auk þess hefur framkvæmdastjóri lækninga hjá stofnuninni, sem er sérfræðingur í heimilislækningum, sinnt 30% starfi í klíník frá árinu 2014. Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands voru 18 fastráðnir heimilislæknar árið 2010 en 14,5 árið 2018. Einn fastráðinn heimilislæknir var í Vestmannaeyjum fyrsta árið eftir að heilbrigðisstofnunin þar sameinaðist Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þar er einn fastráðinn heimilislæknir í ár. Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja voru 10,5 fastráðnir heilsugæslulæknar árið 2010 en eru 15,3 í ár.

     4.      Hver er fjöldi stöðugilda heilsugæslulækna á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu? Hversu margir læknar í þeim stöðugildum eru sérfræðingar í heimilislækningum? Svar óskast sundurliðað eftir heilbrigðisstofnunum í báðum tilvikum.
    Í fylgiskjali er sundurliðað svar við þessum lið fyrirspurnarinnar. Hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru stöðugildi heilsugæslulækna 115,6 árið 2010 en 117 árið 2017. Alls 98 sérfræðingar í heimilislækningum voru starfandi 2010 en voru 88 árið 2017. Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands voru stöðugildi heilsugæslulækna alls 15,3 árið 2010 en 14,5 árið 2018. Sérfræðingar í heimilislækningum voru 5,25 árið 2010 en eru 5 nú. Stöðugildi heilsugæslulækna hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands voru 17,7 árið 2010 en eru 17,5 í ár. Alls 11,4 stöðugildi voru setin af sérfræðingum í heimilislækningum en eru 9,3 í ár. Stöðugildi heilsugæslulækna á Heilsugæslunni á Akureyri voru 13 árið 2015 en eru nú 14,45. Sérfræðingar í heimilislækningum voru átta en eru nú níu. Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands voru 10,67 stöðugildi heilsugæslulækna setin árið 2010 en eru nú 7,22. Sérfræðingum í heimilislækningum hefur fækkað úr 6,62 í 3,53. Samtals 19 stöðugildi heilsugæslulækna voru hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands árið 2010 en hefur fjölgað í 22,05. Öll 19 stöðugildin árið 2010 voru setin af sérfræðingum í heimilislækningum en nú er sú tala 16,7. Stöðugildi heilsugæslulækna í Vestmannaeyjum hafa verið fjögur frá því að sameiningin á Suðurlandi átti sér stað og í þeim hafa þrír sérfræðingar í heimilislækningum setið. Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja voru 11,5 stöðugildi heilsugæslulækna árið 2010 en eru nú 15,3. Sérfræðingar í heimilislækningum sátu í 9,3 stöðugildum 2010 en í ár eru sérfræðingar í 7,4 stöðugildum.
    Sjúkratryggingar Íslands fyrir hönd velferðarráðuneytisins leituðu eftir sambærilegum upplýsingum frá þeim fjórum einkareknu heilsugæslustöðvum sem starfandi eru á höfuðborgarsvæðinu. Svar barst eingöngu frá Heilsugæslunni Höfða. Þar starfa tíu heilsugæslulæknar sem allir eru sérfræðingar í heimilislækningum.

     5.      Hversu margir heilsugæslulæknar á Íslandi eru fastráðnir og hversu margar stöður eru mannaðar með verktökulæknum, flokkað eftir heilbrigðisstofnunum?
    Í upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur ekki fram hvort og þá hve margir heilsugæslulæknar eru í verktöku, en fastráðnir læknar eru 126 í 115,6 stöðugildum. Hlutfall fastráðinna lækna og verktakalækna hjá heilbrigðisstofnununum er eftirfarandi:
    Heilbrigðisstofnun Vesturlands – 5/9,5.
    Heilbrigðisstofnun Norðurlands – 19,5/7,47.
    Heilbrigðisstofnun Austurlands – 4,57/3,8.
    Heilbrigðisstofnun Suðurlands – 16,5/8,55.
    Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja starfa fastráðnir læknar í 15,3 stöðugildum en þar starfar enginn læknir í verktöku.

     6.      Hvaða áhrif telur ráðherra það hafa haft á mönnun í fastar stöður heilsugæslulækna á landsbyggðinni að ráða verktakalækna til starfa?
    Ráðherra leggur áherslu á að forstjórar heilbrigðisstofnana leitist við að manna stöður heilsugæslulækna með fastráðnum læknum og, ef mögulegt er, sérfræðingum í heimilislækningum. Með slíkri mönnun má fullyrða að samfella í þjónustu verður meiri en ef tíðar breytingar eru á mönnun lækna. Nokkur aukning hefur orðið á fjölda þeirra lækna sem kjósa að starfa sem verktakar fremur en að fastráða sig. Að einhverju leyti stafar sú aukning af því að læknar vilja ekki binda sig til langframa í héruðum þar sem vaktabyrði er mikil. Með verktökusamningum semja læknar um sín laun við forstjóra viðkomandi heilbrigðisstofnunar og geta þá hugsanlega samið um betri starfskjör en ef þeir væru fastráðnir og tækju laun samkvæmt kjarasamningi ríkisins og Læknafélags Íslands.

     7.      Telur ráðherra að vikið hafi verið frá samningsbundnum launakjörum við ráðningar heilsugæslulækna á landsbyggðinni, og ef svo er, telur hann að slíkt sé æskilegt?
    Ráðherra er kunnugt um að heilsugæslulæknum á landsbyggðinni er í einhverjum tilfellum útvegað húsnæði á hagstæðum kjörum. Einnig að ferðakostnaður þeirra er greiddur í einhverjum tilfellum. Ráðherra telur að læknar eins og aðrar heilbrigðisstéttir eigi að njóta þeirra launa og starfskjara sem samið hefur verið um við viðkomandi stéttarfélag. Hins vegar kann að vera nauðsynlegt í einhverjum tilfellum að greiða læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki viðbótargreiðslur af einhverju tagi til að tryggja mönnun þannig að unnt sé að veita íbúum landsins örugga heilbrigðisþjónustu.

     8.      Tekur ráðherra undir það sjónarmið, sem fram hefur komið, að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafi ekki meiri og stundum minni kostnað af verktakalæknum en heilsugæslulæknum í föstu starfi?
    Heilsugæslulæknir sem er fastráðinn í starfi nýtur veikindaréttar, námsleyfis og annarra réttinda samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni. Læknir á verktakasamningi nýtur ekki sambærilegra réttinda. Því getur komið upp sú staða að ef fastráðinn læknir þarf á langtímaveikindaleyfi að halda geti verið kostnaðarminna fyrir heilbrigðisstofnanir að hafa lækni á verktakasamningi. Að mati ráðherra heyrir það þó til undantekninga.
Fylgiskjal.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Heilbrigðisstofnun Suðurlands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Heilbrigðisstofnun Norðurlands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Heilbrigðisstofnun Austurlands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



1     read.oecd-ilibrary.org/social-issues-migration-health/health-at-a-glance-2017_health_glance-2017-en#page153
2     norden.diva-portal.org/smash/get/diva2:1148509/FULLTEXT05.pdf