Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1381  —  217. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um herstöðvarrústir á Straumnesfjalli.


     1.      Getur ráðherra upplýst um eignarhald á rústum herstöðvarinnar á Straumnesfjalli í Hornstrandafriðlandi?
    Á Straumnesfjalli var frá árinu 1957 starfrækt ratsjárstöð á vegum varnarliðsins, en hún var yfirgefin árið 1961. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu yfirtók Sölunefnd varnarliðseigna allar eignir varnarliðsins á Straumnesfjalli í lok árs 1962. Sölunefnd varnarliðseigna sá um yfirborðshreinsun á svæðinu eins og kostur var og bauð til sölu ýmsan búnað og mannvirki sem eftir stóðu. Í kringum 1970 var leigusamningum við landeigendur sagt upp af ríkisins hálfu en samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun (áður Náttúruverndarráði) voru einhver hús, jafnvel öll, seld til einkaaðila sem nýtti eitthvað úr þeim. Þessu voru gerð skil í umfjöllun í Tímanum 9. september árið 1972.
    Samkvæmt minnisblaði til umhverfisráðherra frá umhverfismálanefnd Heiðarfjalls og Straumnesfjalls hinn 19. júlí 1991 voru eigendur Straumnesfjalls á þeim tíma einkaaðilar sem einnig voru eigendur jarðanna Látra og Rekavíkur. Þó segir starfsmaður varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í grein í Morgunblaðinu 25. júlí sama ár að íslensk stjórnvöld hafi yfirtekið þessar eignir á sínum tíma og þá hafi þau tekið á sig ábyrgðina á þeim. Lengst af frá því að varnarliðið yfirgaf Straumnesfjall hafi mannvirkin verið í vörslu íslenskra stjórnvalda. Í svari utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar þingmanns á 135. löggjafarþingi kemur fram að mannvirkin séu ekki á ábyrgð utanríkisráðuneytisins því að ráðuneytið hafi afhent þau einkaaðilum.
    Fasteignirnar á Straumnesfjalli eru ekki skráðar í fasteignaskrá og því er eignarhald þeirra ekki alveg ljóst.

     2.      Hvaða aðilar og í hvaða hlutföllum greiddu kostnað vegna ráðstafana sem gerðar voru til að fjarlægja lauslegt rusl og mengandi efni úr herstöðvarrústunum og umhverfi þeirra sumarið 1991?
    Hreinsun Straumnesfjalls árið 1991 kom til í kjölfar niðurstöðu umhverfismálanefndar Heiðarfjalls og Straumnesfjalls sem umhverfisráðherra skipaði 9. apríl 1990. Nefndinni var falið að gera tillögu til ráðuneytisins um hvort mögulegt væri með tilteknum aðgerðum að fylgjast með mengun umhverfis á Heiðarfjalli á Langanesi og Straumnesfjalli í Ísafjarðarsýslu og hugsanlega koma í veg fyrir frekari mengun. Eins var það hlutverk nefndarinnar að kanna hvort hreinsunaraðgerðir væru mögulegar og hvernig ráðuneytið gæti stuðlað að lausn þessara mála. Úttekt á hreinsun Straumnesfjalls var því hluti af starfi umræddrar nefndar. Nefndin gerði framkvæmda- og kostnaðaráætlun vegna hreinsunar í skilagrein sinni, sem dagsett er 19. febrúar 1991, og lagði þar til að Straumnesfjall yrði hreinsað strax sumarið 1991. Nefndin áætlaði að útgjöld vegna hreinsunarinnar næmu tæplega fjórum milljónum króna. Sama tillaga var sett fram í sameiginlegu minnisblaði skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu og umhverfismálanefndar Heiðarfjalls og Straumnesfjalls til utanríkisráðherra og umhverfisráðherra, sem dagsett er 27. nóvember 1990.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar hinn 22. febrúar 1991 var samþykkt tillaga umhverfisráðherra um að ráðstafa allt að fjórum milljónum króna af sameiginlegum lið ríkisstjórnarinnar til hreinsunar og frágangs á Straumnesfjalli. Utanríkisráðuneytið hafði yfirumsjón með hreinsun og frágangi í samvinnu við umhverfisráðuneytið og Náttúruverndarráð. Í greinargerð sem dagsett er 13. júní árið 1991, og unnin var af varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins fyrir fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, er áætlaður kostnaður 2.500.000 kr. og þess farið á leit að varnarmálaskrifstofunni verði greidd sú upphæð vegna hreinsunar, förgunar, uppihalds, fæðis og ferða þeirra sem kæmu að hreinsun á Straumnesfjalli sem fyrirhuguð var í júlí sama ár. Frekari upplýsingar um kostnað liggja ekki fyrir.
    Hreinsunin á Straumnesfjalli var unnin í samræmi við áherslur umhverfismálanefndar Heiðarfjalls og Straumnesfjalls. Björgunarsveitir á Vestfjörðum sáu um framkvæmd hreinsunarinnar. Bandaríkjamenn lögðu til þyrlur, áhöfn og eldsneyti til að flytja menn og tæki upp á Straumnesfjall og var aðkoma þeirra skilgreind sem æfing. Íslenskir aðalverktakar útveguðu vinnuvélar og tæki til hreinsunar og til að urða úrgang. Landeigendur tóku út verkið og voru sáttir við það.

     3.      Hefur verið gert samkomulag eða leitað eftir samkomulagi við bandarísk stjórnvöld um þátttöku í kostnaði eða annan atbeina vegna hreinsunar á Straumnesfjalli?
    Nei. Íslenska ríkið yfirtók allar eignir bandarískra stjórnvalda á Straumnesfjalli í árslok 1962 og þar með umráð þeirra. Líkt og fram kemur í svari við 2. tölul. lögðu Bandaríkjamenn til þyrlur og mannskap vegna hreinsunarinnar árið 1991 og var sú þátttaka skilgreind sem æfing.

     4.      Hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort jarðvegs- eða grunnvatnsmengun hlaust af herstöðinni sem starfrækt var á Straumnesfjalli?
    Slíkar rannsóknir hafa ekki farið fram á vegum hins opinbera. Í hreinsuninni sumarið 1991 var allt lauslegt drasl á fjallinu annaðhvort urðað, flutt á brott eða brennt eftir því sem við átti. Öll spilliefni voru hreinsuð af fjallinu og var þar sérstaklega horft til blýs, rafgeyma og þess háttar úrgangs.

     5.      Hvernig telur ráðherra að bregðast eigi við því að hús sem enn standa uppi á Straumnesfjalli eru hrörleg og geta skapað hættu fyrir ferðamenn, hver telur ráðherra að eigi að standa straum af kostnaði við mögulegar aðgerðir og kemur til álita að nota til þess fé sem féll til ríkissjóðs vegna sölu eigna á fyrrum varnarsvæðum við Keflavíkurflugvöll?
    Þegar ráðist var í hreinsun á Straumnesfjalli sumarið 1991 voru húsin ekki fjarlægð sökum mikils kostnaðar, en eins og fyrr segir tóku landeigendur verkið út á sínum tíma og voru sáttir við það. Það er sérstakt athugunarefni hvort umrædd mannvirki kunni að skapa hættu fyrir ferðamenn og hver eigi að bera kostnað af mögulegum aðgerðum.
    Eitthvað er eftir af timbri á svæðinu og telur Umhverfisstofnun að það sé ekki mikil fokhætta af því, þar sem það er inni í byggingunum og oftar en ekki bundið í snjó sem safnast saman þar inni. Starfsmenn Umhverfisstofnunar hafa ekki orðið varir við brak utan stöðvarsvæðisins í ferðum sínum um fjallið. Þrátt fyrir að þær byggingar sem enn eru uppistandandi séu steinsteyptar hafa þær látið mikið á sjá á undanförnum árum, jafnvel svo að munur sést milli ára. Bæði þök og gaflar hafa hrunið í einstaka húsum og sperrur eru farnar að bogna í öðrum. Því er ljóst að þessar byggingar eru orðnar mjög varasamar. Almennt rýra byggingarnar ekki verndargildi svæðisins að mati Umhverfisstofnunar, enda eru þær langt úr alfaraleið. Umhverfisstofnun hefur ekki beint gestum upp á fjallið, og til að mynda er vegurinn upp á fjallið ekki hluti af þeim göngustígum sem stofnunin hefur á kortum sínum. Þrátt fyrir það er alltaf talsverður fjöldi ferðamanna sem leggur leið sína upp á fjallið til að skoða stöðvarrústirnar. Umhverfisstofnun telur, að því er varðar öryggisþáttinn, að nauðsynlegt sé að koma upp skilti við aðkomuna að byggingunum sem varar gesti svæðisins við þeirri hættu sem af byggingunum kann að stafa. Undir það tekur ráðherra. Eins gæti komið til greina að afmarka byggingarnar með girðingu, ekki síst til að ítreka hættuna. Óháð því hvernig eignarhaldi svæðisins er háttað er hlutverk Umhverfisstofnunar aðallega fólgið í því að upplýsa gesti svæðisins um hættuna sem af byggingunum kann að stafa.
    Í ljósi sögu mannvirkja á Straumnesfjalli í Hornstrandafriðlandi telur ráðherra ástæðu til þess að kostnaður og þörf á nauðsynlegum aðgerðum til þess að stemma stigu við slysahættu og mengun á svæðinu verði endurmetin, nú tæpum þrjátíu árum eftir að það var síðast gert. Ráðherra hyggst fela Umhverfisstofnun, sem hefur umsjón með friðlandinu, það verkefni í samvinnu við landeigendur. Í framhaldi af niðurstöðu þeirrar vinnu verði skoðað hvort og hvernig aðgerðir verði fjármagnaðar.