Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1387  —  625. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um kennslubækur í framhaldsskólum.


     1.      Í hvaða námsgreinum í framhaldsskólum eru notaðar kennslubækur á erlendum tungumálum? Svar óskast sundurliðað eftir framhaldsskólum, námsgreinum og kennslubókum.
    Ráðuneytið gefur út aðalnámskrá framhaldsskóla þar sem m.a. er fjallað um þá lykilhæfni sem unnið skal að í námi á framhaldsskólastigi. Þar er ekki kveðið á um val á námsefni, einungis hvaða hæfni skuli unnið að. Framhaldsskólar hafa sjálfstæði til að ákvarða uppbyggingu og innihald námsbrautarlýsinga og tilheyrandi áfangalýsingar og leggja fyrir ráðuneyti til staðfestingar. Framhaldsskólakennarar velja námsefni sem hæfir námsbrautarlýsingum og þeirri hæfni sem unnið skal að í hverjum áfanga fyrir sig. Námsefnið getur tekið breytingum milli ára. Hingað til hefur gögnum ekki verið safnað um það í hvaða námsgreinum í framhaldsskólum námsgögn á erlendum tungumálum eru notuð.

     2.      Hvert er hlutfall kennslubóka á erlendum málum í framhaldsskólum á Íslandi í samanburði við hlutfall kennslubóka á öðru máli en þjóðtungum á Norðurlöndum?
    Gögnum er ekki safnað um hlutfall námsgagna á erlendum málum í framhaldsskólum á Íslandi. Einnig er vísað til svars við 1. tölul.

     3.      Hverjir taka ákvarðanir um val á kennslubókum í framhaldsskólum? Hvaða sjónarmið telur ráðherra að móti val um kennslubækur í framhaldsskólum landsins?
    Framhaldsskólakennarar velja sjálfir námsefni sem hæfir námsbrautarlýsingum og þeirri hæfni sem unnið skal að, sbr. svar við 1. tölul. Valið fer fram á grundvelli sérþekkingar og faglegs mats kennara samkvæmt kafla 1.3 um fagmennsku kennara í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2012 með síðari breytingum og stefnu viðkomandi skóla.
    Ráðuneytið treystir fagmennsku kennara og skólastjórnenda þegar kemur að vali á námsgögnum og telur ekki ástæðu til að breyta þessari stefnu og vinnufyrirkomulagi. Þess má geta að hver framhaldsskóli fer í ytra mat á fimm ára fresti og skilar skýrslu um niðurstöður innra mats árlega.

     4.      Telur ráðherra æskilegt að við kennslu í framhaldsskólum séu notaðar kennslubækur á erlendum málum?
    Ráðuneytið telur æskilegt að vernda og efla íslenska tungu og að sem flest námsgögn í framhaldsskólum séu á íslensku. Þó getur legið faglegur rökstuðningur fyrir því að nota námsgögn á erlendum tungumálum. Í fámennum námsgreinum getur reynst kostnaðarsamt að tryggja aðgang að námsgögnum á íslensku.
    Í ráðuneytinu er unnið að tillögu til þingsályktunar um íslensku sem þjóðtungu Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Í tillögunni er byggt á íslenskri málstefnu, skýrslu starfshóps um bókmenningu á Íslandi og menntastefnu ráðuneytisins. Stefnt er að því að leggja þingsályktunartillöguna fram á Alþingi haustið 2018.

     5.      Telur ráðherra þörf á því í þágu eflingar íslenskrar tungu að stuðla að auknu framboði á kennslubókum á íslensku? Ef svo er, til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa í þessu sambandi?
    Ráðuneytið telur mikilvægt að stuðla að auknu framboði á námsgögnum á íslensku.
    Þróunarsjóður námsgagna starfar samkvæmt lögum um námsgögn, nr. 71/2007, og reglugerð um þróunarsjóð námsgagna, nr. 1268/2007. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla með það að markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla. Forgangsatriði þróunarsjóðs námsgagna fyrir árið 2018 eru þrjú:
     *      Námsefni fyrir framhaldsskóla.
     *      Námsgögn fyrir innflytjendur vegna tungumálakennslu.
     *      Forritun fyrir byrjendur.
    Ráðuneytið vinnur í víðtæku samstarfi við hagaðila að stefnumótun um námsgögn á öllum skólastigum.