Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1391  —  640. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um ábyrgðarmenn námslána, niðurfellingu ábyrgðar og erlenda stúdenta.


     1.      Styður ráðherra lagabreytingu í þá veru að skuldbindingar ábyrgðarmanna á námslánum sem tekin voru fyrir 27. júlí 2009, þegar ákvæði um ábyrgðarmenn námslána var fellt brott, falli niður við 67 ára aldur?
    Ráðherra er almennt sammála því að skoða þurfi hvernig ábyrgð á námslánum er háttað, og hefur nú þegar óskað eftir því að Summa Rekstrarfélag hf. greini fyrir ráðuneytið hver yrði áætlaður kostnaður fyrir ríkissjóð ef ábyrgð ábyrgðarmanna félli niður við andlát þeirra, sem og hver yrði áætlaður kostnaður fyrir ríkissjóð ef ábyrgð ábyrgðarmanna félli niður við 67 ára aldur þeirra. Gert er ráð fyrir því að þær niðurstöður liggi fyrir i haust. Ráðherra hefur einnig lagt til við verkefnastjórn um endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með áorðnum breytingum, að skoða hvernig ábyrgð á námslánum skuli vera og hvort tilefni sé til þess að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanna á þeim lánum sem tekin voru fyrir árið 2009.

     2.      Hefur frá upphafi verið möguleiki fyrir erlenda stúdenta að fá lán hjá sjóðnum? Ef ekki, hvenær opnaðist sá möguleiki?
    Frá árinu 1961 hefur verið heimild til handa erlendum stúdentum að fá námslán hjá íslenska ríkinu en samkvæmt 6. gr. þágildandi laga um lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 52/1961, gátu stúdentar frá Norðurlöndunum, sem voru heimilisfastir á Íslandi og stunduðu nám við Háskóla Íslands, notið sömu réttinda til námslána með sama hætti og íslenskir stúdentar.
    Með lögum um námslán og námsstyrki, nr. 57/1976, var gerð breyting á heimild erlendra stúdenta en þar kom fram í 13. gr. að ráðherra væri heimilt að ákveða með reglugerð að námsmenn frá Norðurlöndum, sem væru heimilisfastir á Íslandi og stunduðu nám hérlendis, skyldu eiga rétt til námsaðstoðar samkvæmt lögunum með sama hætti og íslenskir námsmenn enda nytu þeir ekki aðstoðar frá heimalandi sínu. Einnig var heimilt að láta ákvæði þessara laga taka til einstakra annarra erlendra námsmanna sem var eins háttað um.
    Það var síðan með lögum nr. 67/1997, um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar sem því var bætt við að ríkisborgari ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, sem verið hefði launþegi á Evrópska efnahagssvæðinu í a.m.k. fimm ár, ætti rétt á aðstoð til starfstengds náms hefði hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár. Sama gilti um maka hans og börn þeirra sem væru yngri en 21 árs eða á framfæri þeirra hér á landi. Skilyrði til lánveitingar frá sjóðnum væri að viðkomandi hefði átt lögheimili á Íslandi í eitt ár áður en nám hæfist. Íslenskur ríkisborgari héldi þó að jafnaði lánsrétti sínum í tvö ár eftir að hann flytti lögheimili sitt til annars lands.
    Með lögum nr. 89/2008, um breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum, var komið á því réttarástandi sem gildir í dag.
    Með úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2018–2019 var einstaklingum, sem njóta alþjóðlegrar verndar hér á landi eða hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, veittur réttur til námslána að því tilskildu að þeir væru komnir til landsins og að staðfesting Útlendingastofnunar á réttarstöðu þeirra eða dvalarleyfi lægi fyrir, ásamt því að þeir hefðu uppfyllt önnur almenn skilyrði um rétt til námslána.

     3.      Hversu margir erlendir stúdentar fengu námslán á árunum 1990–2009?
    Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna fengu alls 576 erlendir námsmenn námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna á árunum 1990–2009.

     4.      Voru gerðar undanþágur frá því að ábyrgðarmenn væru á lánum erlendra stúdenta á árunum 1990–2009?
    Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna liggja umbeðnar upplýsingar ekki fyrir.

     5.      Var skilyrt að ábyrgðarmenn væru íslenskir á þessu tímabili?
    Í 27. gr. reglugerðar frá árinu 1982, sem sett var með stoð í lögum nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, kemur fram að þeir sem fái lán úr lánasjóðnum undirriti skuldabréf til viðurkenningar á teknum lánum. Skulu þeir þá leggja fram viðurkenningu eins manns sem tekur að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt verðtryggingu þess. Sjóðstjórn ákveður í reglum lánasjóðsins hvaða skilyrðum ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Ábyrgð þeirra getur fallið niður eftir að fyrsta greiðsla hefur verið innt af hendi, enda setji lánþegi þá aðra tryggingu fyrir lánum sem sjóðstjórn metur fullnægjandi.
    Samkvæmt 7. mgr. 6. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, er það stjórn sjóðsins sem ákveður hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Í úthlutunarreglum sem byggðar hafa verið á gildandi lögum frá árinu 1992 til dagsins í dag hefur verið skilyrði um að ábyrgðarmenn skuli að jafnaði vera íslenskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er almennt litið til þess að ábyrgðarmenn séu íslenskir ríkisborgarar. Lánasjóðurinn hefur hins vegar veitt undanþágu frá þessu ef erlendur ábyrgðarmaður á fasteign á Íslandi.