Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1392  —  509. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um opinber störf utan höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Hversu mörg störf eru á vegum ráðuneytisins og stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins? Óskað er eftir sundurliðun eftir stofnunum og landshlutum.
    Störf á vegum ráðuneytisins og undirstofnana þess á landinu öllu samsvara 4.282 stöðugildum. Af þeim eru 3.313 á höfuðborgarsvæðinu, 139 á Vesturlandi, 19 á Vestfjörðum, 476 á Norðurlandi, 67 á Austurlandi, 179 á Suðurlandi og 90 á Reykjanesi. Hér er einvörðungu um að ræða stöðugildi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess en þessu til viðbótar leggur ráðuneytið fé í margs konar starfsemi, eins og til safna og menningarmiðstöðva, fræðslumiðstöðva og rannsókna- og þekkingarsetra sem skapar fjölda annarra starfa á landsbyggðinni.

     2.      Telur ráðherra að unnt sé að láta vinna fleiri störf á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins?
    Markmið stjórnvalda með byggðaáætlun 2018–2023 er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Þar er m.a. lagt til að ráðuneyti og stofnanir skilgreini störf sem geta verið án sérstakrar staðsetningar og er miðað við að fyrir árslok 2021 verði 5% auglýstra starfa án staðsetningar. Stórstígar tækniframfarir og uppbygging innviða fjarskipta hafa opnað viss tækifæri í þessu samhengi sem ráðuneytið mun huga að.

     3.      Hyggst ráðherra færa störf út á land á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess, sbr. markmið byggðaáætlunar og áform ríkisstjórnarinnar í samstarfssáttmála um að stefna skuli að því að auglýsa störf án staðsetningar?
    Ráðuneytið hefur ekki að svo stöddu uppi nein sérstök áform um tilfærslu á stofnunum eða störfum út á land. Ráðuneytið lítur jafnan til þess hvort hægt sé að dreifa verkefnum á þess vegum sem víðast um landið.