Ferill 552. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1396  —  552. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?
     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?


    Utanríkisráðuneytið er til húsa að Rauðarárstíg 25 og 27. Húsnæðið að Rauðarárstig 25 er í eigu Fasteigna ríkissjóðs en Fasteignir ríkissjóðs er stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og hefur það hlutverk að hafa umsjón með og viðhalda fasteignum í eigu ríkisins. Fasteignir ríkissjóðs gera reglulega úttektir á húsnæði í eigu ríkisins og þar á meðal er úttekt á aðgengi og hvort húsnæði uppfylli kröfur sem gerðar eru til opinberra bygginga. Miðað við upplýsingar sem Fasteignir ríkissjóðs gáfu hefur verið lögð áhersla á að opinberar byggingar sem eru sérstaklega ætlaðar almenningi hafi forgang hvað varðar úrbætur á aðgengismálum.
    Aðgengi fyrir fatlaða inn í húsið er erfitt og salernisaðstöðu hefur verið ábótavant. Nokkrar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu og eru fyrirhugaðar framkvæmdir á 1. hæð haustið 2018. Hluti af þeim framkvæmdum er að bæta aðgengi fatlaðra að salernisaðstöðu. Þrátt fyrir að aðstaða við inngang sé ekki góð eiga einstaklingar í hjólastól að komast inn í húsið og með lyftu upp á hæðir.
    Endurbætur standa yfir á inngangi að leiguhúsnæði að Rauðarárstíg 27 og er gert ráð fyrir sjálfvirkri hurðaopnun sem stýrt er úr móttöku. Í húsinu er lyfta og salerni sem eru aðgengileg hjólastólum.
    Aðgengisstefna um opinbera vefi var samþykkt í ríkisstjórn í maí 2012. Unnið hefur verið eftir þeirri stefnu samkvæmt svörum frá Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins, en félagið sér um rekstur vefja stjórnarráðsins. Í könnun á opinberum vefjum sl. haust þar sem aðgengi var metið á grundvelli stefnunnar fékk vefur Stjórnarráðsins, stjornarradid.is, fullt hús stiga. Á vef Stjórnarráðsins er að finna mikið magn upplýsinga um málaflokk ráðuneytisins og boðið er upp á vefþulu svo hlusta megi á þær upplýsingar sem þar er að finna.
    Ráðherra leggur áherslu á að aðgengi hreyfihamlaðra sé tryggt og að litið sé til að mynda til þingsályktunar nr. 16/146, um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021, sem samþykkt var á 146. löggjafarþingi, þegar kemur að aðgengi fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi og að upplýsingum. Áfram verður unnið að því að bæta aðgengi í samvinnu við Fasteignir ríkissjóðs og húseiganda að Rauðarárstíg 27 í samræmi við þá almennu stefnu í málaflokknum sem þar kemur fram og ráðuneytum og stofnunum er ætlað að hafa til hliðsjónar varðandi aðgengismál fatlaðra.