Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1397  —  605. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um mótmæli gegn hvalveiðum og viðskiptahagsmuni.


     1.      Hve mörg ríki hafa mótmælt hvalveiðum við Ísland frá árinu 2006 og hve mörgum sinnum, formlega sem óformlega?
    Í skýrslu þáverandi utanríkisráðherra til Alþingis um áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og annarra ríkja á 145. löggjafarþingi kemur fram að viðbrögðin við atvinnuhvalveiðum sem hófust haustið 2006 voru heldur minni en viðbrögðin við vísindaveiðunum árið 2003. Bretar höfðu frumkvæði að því að koma á framfæri mótmælum 25 ríkja, auk framkvæmdastjórnar ESB, með orðsendingu, en henni var ekki sérstaklega fylgt eftir. Tölvustýrð fjölskeytahrina reið yfir Stjórnarráðið fyrst eftir að tilkynnt var um atvinnuveiðarnar árið 2006, en ekki virðast margir einstaklingar hafa verið á bak við hana heldur var fjölskeytahugbúnaði beitt með sama hætti og þegar vísindaveiðarnar hófust.
    Árið 2009 lýstu sendiherrar sjö ríkja á Íslandi, undir forystu Bandaríkjanna, andstöðu við tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins um hvalveiðikvóta til næstu fimm ára þar á eftir. Þá sendu forystumenn umhverfissamtaka stjórnvöldum mótmælabréf. Árið 2013 var ný reglugerð sett um hvalveiðar á tímabilinu 2014–2018. Í september 2014 var stjórnvöldum afhent sameiginlegt erindi sendifulltrúa Evrópusambandsins, Ítalíu, Bandaríkjanna, Ástralíu, Nýja-Sjálands, Brasilíu, Ísraels og Mexíkós þar sem hvalveiðum og sölu hvalaafurða Íslendinga var formlega mótmælt.
    Hinn 6. júlí sl., í kjölfar ákvörðunar Hvals hf. um að hefja veiðar að nýju, var stjórnvöldum afhent sameiginlegt erindi ríkja Evrópusambandsins, Argentínu, Ástralíu, Brasilíu, Síles, Kostaríku, Dóminíska lýðveldisins, Ekvadors, Ísraels, Mexíkós, Mónakós, Panama, Nýja-Sjálands og Bandaríkjanna þar sem komið er á framfæri mótmælum við veiðunum, einkum á langreyði. Auk þess höfðu í ágústbyrjun borist rétt rúmlega tíu þúsund tölvuskeyti frá einstaklingum vegna ákvörðunarinnar, sem er umtalsvert minna en árið 2006. Þá ber að hafa í huga að hluti þessara skeyta barst eftir að blendingshvalur veiddist við Ísland sem tengdist ekki ákvörðun um veiðarnar en vakti nokkur viðbrögð.

     2.      Er ráðherra kunnugt um hvort fyrir dyrum standi mótmæli ýmissa helstu viðskiptaríkja vegna yfirlýsingar Hvals hf. um að hefja að nýju, eftir tveggja ára hlé, veiðar á langreyðum í meira mæli en dæmi eru um áður á þessari öld?
    Utanríkisráðherra er ekki sérstaklega kunnugt um að mótmæli helstu viðskiptaríkja standi fyrir dyrum umfram það sem orðið er.

     3.      Hefur ráðuneytið lagt í vinnu til að fá aflétt hinu svokallaða Pelly Amendment-ákvæði sem felur í sér heimild Bandaríkjanna til að beita Ísland viðskiptaþvingunum vegna hvalveiða, og í hverju hefur sú vinna falist? Hvernig er staðan nú þegar Hvalur hf. hefur lýst yfir að fyrirtækið hyggist standa að veiðum á um 200 langreyðum í sumar?
    Pelly-viðaukinn í bandarískum lögum skyldar innanríkis- og/eða viðskiptaráðherra Bandaríkjanna til að tilkynna forseta Bandaríkjanna ef talið er að ríki gangi gegn verndunarákvæðum bandarískrar löggjafar með tilliti til sjávarspendýra. Viðaukanum hefur í þrígang verið beitt gagnvart Íslandi vegna hvalveiða okkar á síðustu fjórtán árum – árið 2004, 2011 og loks árið 2014.
    Árið 2014 beindust viðbrögð þáverandi forseta Bandaríkjanna að því að draga úr opinberum samskiptum við Ísland. Ekki verður þó séð, eins og segir í ofangreindri skýrslu, að raunveruleg áhrif ákvarðananna gagnvart Íslandi hafi verið teljandi, hvort sem litið er til viðskiptalegra hagsmuna, diplómatískra samskipta ríkjanna eða þróunar á vettvangi þeirra alþjóðasáttmála sem til grundvallar liggja.
    Ákvörðun forseta Bandaríkjanna frá árinu 2014 er enn þá í gildi, en miðað við hófleg viðbrögð Bandaríkjastjórnar í tíð Baracks Obama og samtöl við núverandi ráðamenn er ólíklegt að bandarísk stjórnvöld muni herða á aðgerðum sínum. Unnið hefur verið að því af hálfu íslenskra stjórnvalda að aflétta Pelly-ákvæðinu, m.a. í samtölum við bandaríska ráðamenn.

     4.      Telur ráðherra, í ljósi afgerandi andstöðu Bandaríkjanna við veiðar á langreyðum, að ákvörðun Hvals hf. geti haft áhrif á starf í Norðurheimskautsráðinu sem Ísland tekur senn við formennsku í og þar sem fyrir liggja til umfjöllunar ýmis brýn hagsmunamál fyrir landið?
    Í engu hafa íslensk stjórnvöld orðið þess áskynja að hvalveiðarnar muni hafa áhrif á formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og raunar stunda nokkur önnur ríki Norðurskautsráðsins veiðar á hvölum.

     5.      Hefur ráðherra lagt mat á það hver áhrifin af ákvörðun Hvals hf. kunna að vera á málaleitanir ráðherra um fríverslunarsamninga við Bandaríkin og Bretlandi sem eru yfirlýstir andstæðingar stórhvalveiða í viðskiptaskyni?
    Íslensk stjórnvöld hafa á umliðnum misserum átt í tíðum samskiptum við Bandaríkin og Bretland um þróun og eflingu viðskiptasambands, m.a. leitað eftir gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin og leitað leiða til að tryggja að viðskiptakjör gagnvart Bretlandi verði a.m.k. jafngóð og hingað til í kjölfar viðskilnaðar við ESB. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ákvörðun Hvals hf. hafi haft áhrif á þá málaleitan.

     6.      Styður ráðherra að hvalveiðistefna Íslendinga verði endurmetin?
    Fyrir Íslendinga sem þjóð svo háðri sjávarútvegi og auðlindum hafsins verður ekki samið um rétt Íslands til hvalveiða. Sá réttur er óumsemjanlegur. Alþjóðalög og sáttmála ber að virða og ekki er unnt að véfengja rétt Íslands til að nýta lifandi sjávarauðlindir á borð við hval með ábyrgum og sjálfbærum hætti – líkt og raunin er.
    Líkt og fram kemur í fyrrnefndri skýrslu hafa hvalveiðar ekki haft teljandi áhrif á hagsmuni Íslands eða samskipti við önnur ríki þótt þær valdi einstaka núningi.
    Fyrir liggur að fyrirliggjandi reglugerð og kvótaúthlutun til hvalveiða rennur sitt skeið á enda síðar á þessu ári. Því var ákveðið á fundi ríkisstjórnar 11. maí sl. að óska eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin meti þjóðhagsleg áhrif hvalveiða, auk þess sem Hafrannsóknastofnun meti fæðuþörf hvala og vægi hennar í lífríki sjávar hér við land. Niðurstöður þeirrar vinnu, auk annarra þátta, munu nýtast við frekari ákvarðanir er lúta að stefnu Íslands í hvalveiðum.