Ferill 578. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1398  —  578. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um mengunarhættu vegna saltburðar og hættulegra efna í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Hafa hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir samþykkt það magn iðnaðarsalts sem dreift hefur verið á Suðurlandsveg í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins á árunum 2012–2017, sbr. svar við fyrirspurn á þingskjali 764? Eru efri mörk fyrir leyfðu magni af salti sem er dreift í nálægð við vatnsverndarsvæði? Eru gerðar gæðakröfur til saltsins með tilliti til hreinleika? Liggja fyrir rannsóknir um áhrif af notkun iðnaðarsalts til hálkuvarna á vatnsból höfuðborgarsvæðisins eftir gæðaflokkum saltsins?
    Samþykkt nr. 555/2015, um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar, gildir um verndarsvæði vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu. Samþykktin er sett á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Markmið samþykktarinnar er að tryggja verndun grunnvatns vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins þannig að gæði neysluvatns á vatnstökustað uppfylli ávallt kröfur sem gerðar eru í gildandi löggjöf.
    Vatnsverndarsvæðinu er skipt í þrjá flokka eftir fjarlægð frá vatnsbólinu, sem miðast við aðrennslistíma. Brunnsvæði er næst vatnsbólinu og er lágmarksfjarlægð frá vatnstöku að ytri mörkum brunnsvæðis 50 metrar og síðan 200 metra geisli frá miðju vatnsbóls í aðrennslisstefnu grunnvatns. Ef útmörk 50 daga aðrennslistíma lenda innan 200 metra geislans marka þau lágmarksfjarlægð brunnsvæðismarka. Grannsvæði tekur við af brunnsvæði á aðrennslissvæði vatnsbóls og liggur eftir aðrennslissvæði að reiknuðum útmörkum 400 daga aðrennslistíma grunnvatns að vatnsbóli. Við ákvörðun grannsvæðismarka er einnig tekið tillit til viðkvæmni svæða vegna sprungna, dýpis á grunnvatn, yfirborðsgerðar, lektar og misleitni. Fjarsvæði tekur við af grannsvæði og nær frá mörkum grannsvæðis allt til enda aðrennslissvæðis vatnsbóls við grunnvatnsskil. Undantekning eru mörk verndarsvæðisins til austurs í átt að Hellisheiði þar sem skilgreint fjarsvæði nær aðeins að ytri mörkum höfuðborgarsvæðisins og Sveitarfélagsins Ölfuss. Skilgreind eru öryggissvæði utan aðrennslissvæða grunnvatns til vatnsbóla, annars vegar vegna grunnvatns og hins vegar vegna yfirborðsvatns.
    Mengunarvarnir og öryggisreglur á verndarsvæðum taka mið af því hvort um er að ræða brunnsvæði, grannsvæði, fjarsvæði eða öryggissvæði. Þannig er brunnsvæði algerlega friðað fyrir óviðkomandi umferð, framkvæmdum og starfsemi annarri en þeirri sem nauðsynleg er vegna vatnsveitunnar. Á grannsvæði eru framkvæmdir og starfsemi sem ógnað geta öryggi vatnsöflunar bönnuð. Á fjarsvæðum skulu landnot falla að forsendum vatnsverndar. Á öryggissvæðum skal m.a. aflað starfsleyfis fyrir vegaframkvæmdum.
    Notkun hálkuhamlandi eða rykbindandi efna á grannsvæðum er háð samþykki heilbrigðisnefndar. Slík ákvæði eiga hins vegar ekki við um Suðurlandsveg, sem liggur að hluta til á öryggissvæði og að hluta til á fjarsvæði.
    Efri mörk fyrir saltnotkun hafa ekki verið sett. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er haldið uppi þjónustu allan sólarhringinn á þjóðveginum milli Reykjavíkur og Hveragerðis og miðast hálkuvarnir við þarfir vegna umferðaröryggis. Þess er gætt að nota ekki meira salt en þörf er talin á. Bláfjallaleið er ekki mokuð reglulega en er rudd samkvæmt beiðni skíðasvæðisins. Hálkuvarnir eru eingöngu samkvæmt beiðni skíðasvæðisins og þá er notaður sandur ef þarf á veginn og bílastæðin við skíðasvæðið.
    Salt til hálkuvarna er keypt fyrir Vegagerðina eftir útboði Ríkiskaupa. Í útboðinu kemur fram kröfulýsing varðandi gæði saltsins, m.a. korna- og efnasamsetningu og vatnsinnihald. Saltið skal vera laust við alla aðskotahluti, köggla, fitu og lykt og lögð skal fram viðurkennd vörulýsing framleiðanda, þar sem fram koma upplýsingar um efnasamsetningu, framleiðslustaðla, kornastærð (kornastærðardreifingu), hreinleika, vatnsinnihald, uppleysanleika í vatni og upprunaland. Fylgst er með efnainnihaldi neysluvatns frá vatnsverndarsvæðinu með reglubundinni efnagreiningu. Niðurstöður þessara mælinga hafa verið þær að efnainnihald vatnsins hefur reynst langt undir þeim mörkum sem skilgreind eru í reglugerð nr. 536/2001, um neysluvatn.

     2.      Hvaða þýðingu hefur það á dreifingu salts út í umhverfið þegar það leysist upp í vatni, umfram það sem fram kemur í tilgreindu svari á þingskjali 764 um að 90% af salti lendi innan við 20 metra frá vegkantinum? Skiptir það máli fyrir vatn í grunnvatnsæðum á svæðinu hve mikið magn af iðnaðarsalti er borið á vegi?
    Almennt gildir að selta í grunnvatni er mest næst ströndum landsins og minnst inni á hálendinu. Þetta stafar af áhrifum sjávar, annars vegar vegna særoks og hins vegar vegna salts sem berst til jarðar með rigningu. Vegna veðurlags berst meira af salti (natríumklóríði) inn yfir landið á veturna. Klóríðstyrkur í grunnvatni hefur verið kortlagður og er hann yfir 10 mg/l næst ströndinni en lægri en 2 mg/l inni á miðhálendinu.
    Í árlegri umhverfisskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur eru birtar niðurstöður efnagreiningar á köldu vatni í Reykjavík. Í niðurstöðum áranna 2014–2017 var meðalstyrkur klóríðs 9,7 mg/l (8,6–10,9 mg/l), sem er styrkur sem búast má við miðað við fjarlægð vatnsverndarsvæðisins frá sjó. Þessi styrkur nemur 3,9% af leyfilegu hámarksgildi klóríðs í neysluvatni (250 mg/l). Í mælingum sem gerðar voru frá því í mars 2014 þar til í mars 2015, með það að markmiði að rannsaka árstíðabundnar sveiflur, kom í ljós að klóríðinnihald vatns var stöðugt í sýnum sem tekin voru á vatnsverndarsvæðinu að Jaðri, við Myllulæk, í Vatnsendakrikum og í Kaldárbotnum (Vaiva Cypaite, 2015). Af þessum skýrslum má ráða að saltburður á Suðurlandsveg skiptir ekki máli varðandi saltinnihald í drykkjarvatni frá vatnsverndarsvæðinu.

     3.      Hyggst ráðherra afla upplýsinga um hvar sýni voru tekin og hversu mikið mæligildi fóru yfir hámarksgildi fyrir klóríð í þeim tilvikum sem það kom fyrir, sbr. niðurstöður í skýrslu Matvælastofnunar sem vísað er til í áðurnefndu svari ráðherra á þingskjali 764? Hvernig telur ráðherra að þessar athuganir gagnist neytendum til að verjast óæskilega miklu salti í neysluvatni, ef umræddar upplýsingar liggja ekki fyrir?
    Markmið með reglugerð nr. 536/2001, um neysluvatn, er að vernda heilsu manna með því að tryggja að neysluvatn sé heilnæmt og hreint. Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Matvælastofnunar, annast eftirlit með ákvæðum reglugerðarinnar. Matvælastofnun heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Skýrsla Matvælastofnunar, sem vitnað er til í fyrirspurninni, er yfirlitsskýrsla um gæði neysluvatns á Íslandi á árabilinu 2002–2012. Skýrslan veitir m.a. yfirsýn yfir niðurstöður heildarúttektar á vatnsgæðum hjá íslenskum vatnsveitum á tímabilinu. Umhverfis- og auðlindaráðherra sér ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við hvernig sú tafla skýrslunnar er útfærð.

     4.      Hvernig er hagað eftirliti með gæðum neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu og hver er skipting verka og ábyrgðar á milli einstakra stofnana og annarra aðila sem hlut eiga að máli? Hvaða staðlar eru lagðir til grundvallar?
    Neysluvatn íbúa höfuðborgarinnar er grunnvatn og þarfnast ekki meðhöndlunar áður en þess er neytt, en er þó ávallt undir ströngu gæðaeftirliti. Vatnsból höfuðborgarbúa eru í Heiðmörk á sérstöku vatnsverndarsvæði. Heiðmörk er eitt af aðalútivistarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu og því er eftirlit með svæðinu mikilvægt til að samþætta útivist og vatnsvernd.
    Samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu, sem gefin var út árið 1997, var mikilvægt skref í verndun neysluvatns höfuðborgarbúa. Árið 2015 var gefin út ný samþykkt um verndarsvæði vatnsbólanna og nýtt vatnsverndarkort birt samhliða, sem er hluti af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Verndun neysluvatns höfuðborgarbúa er sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og fer sérstök framkvæmdastjórn heilbrigðiseftirlitssvæða á höfuðborgarsvæðinu með málefni vatnsverndarsvæðisins.
    Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu fara með eftirlit með neysluvatni, hver á sínu svæði, og skal neysluvatn ávallt uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 536/2001, um neysluvatn. Heilbrigðiseftirlitið sér um reglubundna sýnatöku ásamt vatnsveitufyrirtækjunum Veitum ohf., Vatnsveitu Kópavogs og Vatnsveitu Hafnarfjarðar. Þá er í gildi reglugerð nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns, og sömuleiðis reglugerð nr. 797/1999, um varnir gegn mengun grunnvatns, sem heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, ber að sjá um að sé framfylgt.
    Við eftirlit með neysluvatni gilda þau mörk sem fram koma í reglugerð nr. 536/2001, um neysluvatn.

     5.      Hversu oft frá aldamótum hafa opinberir aðilar gefið út viðvaranir til almennings um að gæðum neysluvatns sé áfátt? Hver ber ábyrgð á að slíkar viðvaranir séu gefnar út ef tilefni er til og að það sé gert tímanlega? Hvaða viðmið gilda um hvenær slíkar tilkynningar eru gefnar út?
    Frá aldamótum hafa tvívegis verið gefnar út tilkynningar til almennings vegna gæða neysluvatns frá vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins; um miðjan janúar og í byrjun febrúar 2018. Um var að ræða gerlamengun sem orsakaðist af óvenjulegum aðstæðum, þ.e. miklum vatnavöxtum í kjölfar frostakafla. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf út tilkynningu 15. janúar 2018 um jarðvegsgerla í neysluvatni. Daginn eftir ályktaði samstarfsnefnd um sóttvarnir að niðurstöður mælinga á vatninu gæfu ekki tilefni til að ætla að hætta væri á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu á vatni. Hinn 5. febrúar 2018 var gefin út tilkynning um að þótt hluti vatnssýna sem Veitur ohf. tóku úr borholum 2. febrúar uppfylltu ekki kröfur um gerlafjölda væri það niðurstaða Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Matvælastofnunar og sóttvarnalæknis að neysluvatnið væri öruggt og að almenningur þyrfti ekki að grípa til neinna sérstakra aðgerða vegna þess.
    Vatnsveitur eru matvælafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli. Ef við sýnatöku vatnsveitu kemur í ljós að neysluvatn er ekki öruggt til neyslu samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 536/2001 ber viðkomandi vatnsveita samkvæmt framangreindum lögum ábyrgð á að upplýsa neytendur um það ásamt hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd að höfðu samráði við Matvælastofnun og sóttvarnalækni.
    Í 14. gr. reglugerðar nr. 536/2001 kemur fram hver viðbrögð skuli vera við menguðu neysluvatni. Rannsóknaþættir eru flokkaðir í A-, B- og C-flokk eftir því til hvaða aðgerða ber að grípa ef gildi mælast hærri en hámarksgildi viðkomandi þátta.

Flokkur A Gripið skal til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta til að endurheimta vatnsgæðin. Heilbrigðisnefnd skal í samráði við Matvælastofnun banna dreifingu eða notkun neysluvatnsins, nema eftir nauðsynlegar aðgerðir til verndar heilsu manna. Heilbrigðisnefnd skal tafarlaust veita neytendum upplýsingar og ráðgjöf.
Flokkur B Gripið skal til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta til að endurheimta vatnsgæðin. Skulu aðgerðir ráðast af því hve mikið greining er yfir hámarksgildi og þeirri hættu sem heilsu manna er búin. Taki heilbrigðisnefnd í samráði við Matvælastofnun þá ákvörðun að banna dreifingu neysluvatnsins eða takmarka notkun skal það gert með hliðsjón af þeirri hættu sem það kann að skapa. Í slíkum tilvikum skulu neytendum tafarlaust veittar upplýsingar og nauðsynleg ráðgjöf.
Flokkur C Heilbrigðisnefnd skal í samráði við Matvælastofnun meta hvort heilsu manna er hætta búin. Heilbrigðisnefnd ber að grípa til aðgerða til að endurheimta vatnsgæðin. Neytendum skal tilkynnt um aðgerðir nema um óverulegt frávik sé að ræða. Heilbrigðisnefnd skal tilkynna viðkomandi héraðslækni eða sóttvarnalækni jafnskjótt og hún hefur orðið vör við hugsanlega smithættu, sbr. ákvæði 11. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.

     6.      Hvernig er fylgst með mengunarhættu vegna hugsanlegs olíuleka frá flutningatækjum, vinnutækjum og öðrum tækjum sem notuð eru í grennd við eða ofan vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins?
    Reglugerð nr. 884/2017, um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi, hefur það m.a. að markmiði að skýra ábyrgð dreifingaraðila og eigenda efna sem falla undir reglugerðina þegar mengunaróhöpp verða og að tryggja að gripið sé til viðunandi aðgerða. Um flutning á olíu sem og öðrum hættulegum efnum á vegum gildir reglugerð um flutning á hættulegum farmi á vegum, sem innleiðir ADR-reglur Sameinuðu þjóðanna. Í þeim reglum og í reglugerðinni eru m.a. ákvæði um reglubundið eftirlit og úttektir á olíuflutningatækjum. Vinnueftirlit ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðarinnar að því er varðar flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófanir og viðurkenningar sem krafist er í ADR-reglunum. Lögreglan hefur eftirlit með því að farið sé eftir reglugerð um flutning á hættulegum farmi á vegum við sjálfan flutninginn á hættulegum farmi eins og hann er skilgreindur í reglugerðinni. Samgöngustofa hefur eftirlit með því að ökutæki sem flytja hættulegan farm séu viðurkennd til slíkra flutninga samkvæmt ADR-reglunum. Slökkviliðsstjóri hefur stjórn á vettvangi í mengunaróhöppum og ber ábyrgð á því að heilbrigðiseftirliti sé tilkynnt án tafar um mengunaróhöpp.
    Samkvæmt lögum nr. 55/2012, um umhverfisábyrgð, skal rekstraraðili þegar í stað tilkynna Umhverfisstofnun um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem rekja má til starfsemi hans og upplýsa um alla þætti sem máli skipta.
    Heilbrigðisnefndum er heimilt að takmarka eða banna olíu-, efna- og úrgangsflutninga innan verndarsvæða vatnsbóla þar sem hætta er á að slíkt geti spillt vatninu, sbr. ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns.
    Mikilvægt er að innra eftirlit dreifingaraðila sé virkt og í V. kafla framangreindrar reglugerðar er sérstaklega fjallað um flutningsaðila. Kveðið er á um að í innra eftirliti dreifingaraðila olíu skuli m.a. koma fram skilgreining á umfangi þjónustusvæðis, upplýsingar um mengunarvarnabúnað í olíuflutningabifreiðum og sömuleiðis það hvaða aðgang dreifingaraðili hafi að búnaði ef mengunaróhapp verður. Dreifingaraðili skal hafa neyðarstjórn eða neyðarteymi innan fyrirtækisins, sem sé ávallt unnt að virkja, til að hafa yfirumsjón með viðbrögðum fyrirtækisins verði mengunarslys við dreifingu. Þá er kveðið á um það í reglugerðinni að dreifingaraðili skuli hafa viðbragðsáætlun um aðgerðir komi til mengunaróhapps. Hún skal a.m.k. innihalda ákvæði um tilkynningarskyldu við óhöpp, um bjargir, viðbrögð og köllunarskrá og einnig skal hún uppfylla ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda og um viðbrögð við bráðamengun. Áætlunin skal kynnt eftirlitsaðila, hlutaðeigandi slökkviliði og hafnaryfirvöldum og vatnsveitu þar sem við á. Áætlunin skal vera aðgengileg og kynnt bílstjórum og öðrum starfsmönnum er starfa við dreifingu eldsneytis. Kveðið skal á um að bifreiðastjórum skuli settar starfsreglur um akstur, akstursleiðir og annað er varðar framkvæmd olíuáfyllinga. Þeir skulu þekkja viðbragðsáætlanir og fá reglulega fræðslu um viðbrögð við óhöppum eða olíuslysum við flutning á olíu og við áfyllingar geyma svo og reglulega þjálfun í notkun tækja og öryggisbúnaðar.
    Í 2. mgr. 56. gr. reglugerðarinnar er sérstaklega kveðið á um að dreifingaraðili skuli setja fram skipulag á akstri olíuflutningabifreiða um vatnsverndarsvæði, svo sem um fjölda ferða og magn olíu í hverri ferð, sem hljóta skal samþykki heilbrigðisnefndar og fá fylgd eftir því sem við á frá viðkomandi vatnsveitu. Á vatnsverndarsvæðum skulu dreifingaraðilar gæta þess að hafa ekki meira magn af olíu meðferðis en afhenda má innan svæðisins.
    Í 40. gr. reglugerðarinnar kemur fram að í starfsleyfi rekstraraðila olíugeyma þar sem olía er afgreidd á farartæki annarra lögaðila en rekstraraðila olíugeymis skal gera sömu kröfur og gerðar eru í starfsleyfi bensínstöðva. Starfsleyfi skal því aðeins veitt að staðsetning olíugeymis sé í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.
    Samkvæmt 43. gr. reglugerðarinnar gilda um lausageyma almenn ákvæði reglugerðarinnar um umbúnað og rekstur neyslugeyma. Nýting lausageyma er eftirlitsskyld og getur heilbrigðisnefnd bannað notkun lausageymis ef hætta er talin á mengun vegna staðsetningar eða ástands geymisins.
    Samkvæmt 58. gr. reglugerðarinnar er óheimilt að afgreiða olíu frá olíuflutningabifreið beint á ökutæki, en heilbrigðisnefnd er heimilt að veita undanþágu frá þessu vegna tímabundins atvinnureksturs eða einstakrar framkvæmdar. Þó er heimilt að afgreiða olíur beint á vinnuvélar sem ætlaðar eru til sérstakra verka sem ekki eru starfsleyfisskyld.
    Samkvæmt reglugerð nr. 550/2018, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, veitir heilbrigðisnefnd starfsleyfi fyrir starfsemi sem snertir vélknúin farartæki. Þar á meðal eru verktakar með þungavinnuvélar og kappaksturs-, æfinga- og kennslubrautir.

     7.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeim upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að engar rannsóknir hafi verið gerðar á áhrifum á gæði neysluvatns af gúmmíkurli frá hjólbörðum bifreiða og af öðrum mengandi efnum sem fylgja umferð bifreiða í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins? Hvaða skýringar eru á því að ekki eru gerðar viðeigandi rannsóknir á vatnsgæðum í ljósi fyrrgreindrar mengunarhættu?
    Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er stofnuninni ekki kunnugt um rannsóknir sem hafa verið gerðar hér á landi á mengun vegna gúmmíkurls frá hjólbörðum bifreiða og á öðrum mengandi efnum sem fylgja umferð bifreiða með tilliti til nálægðar við vatnsverndarsvæði. Þá hefur stofnunin aðeins verið með til umfjöllunar gúmmíkurl frá gervigrasvöllum og gaf út tilmæli þar að lútandi. Í tilmælunum, sem finna má á heimasíðu Umhverfisstofnunar, 1 er vísað til nokkurra skýrslna og greina þar sem einkum er fjallað um dekkjakurl á leik- og íþróttavöllum.
    Í efnamælingum sem gerðar eru reglulega til vöktunar á gæðum neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu eru mæld efni sem þekkt eru sem mengunarvaldar frá ökutækjum. Með mælingunum má greina ef neysluvatn mengast vegna umferðar bifreiða og því er ekki þörf á sérstakri rannsókn á neysluvatninu af þeim orsökum. Niðurstöður þessara mælinga hafa verið þær að efnainnihald vatnsins hefur reynst langt undir þeim mörkum sem skilgreind eru í reglugerð nr. 536/2001, um neysluvatn. Ráðherra mun leita eftir áliti Umhverfisstofnunar á því hvort þörf sé á að rannsaka sérstaklega áhrif á gæði neysluvatns af sliti frá hjólbörðum bifreiða og af öðrum þeim mengandi efnum sem fylgja umferð bifreiða í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins.
1     www.ust.is/einstaklingar/frettir/frett/2016/07/12/Tilmaeli-Umhverfisstofnunar-um-dekkjakurl-sem-fylliefni-a-gervigrasvollum-/