Ferill 679. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1401  —  679. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur starfshópur ráðuneytisins um eflingu trausts í stjórnmálum og stjórnsýslu unnið að málum er varða miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara? Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp um þessi mál á Alþingi?

    Starfshópi um eflingu trausts í stjórnmálum og stjórnsýslu er m.a. ætlað að fjalla um það hvaða þættir hafa áhrif á traust á stjórnmálum og stjórnsýslu og kanna hvaða breytingar séu nauðsynlegar á lögum og reglum til að auka gagnsæi og varnir gegn spillingu, stuðla að heilindum í störfum í almannaþágu og takast á við hagsmunaárekstra í tengslum stjórnsýslu og atvinnulífs. Hópurinn mun setja niðurstöður sínar fram í skýrslu til forsætisráðherra en vinnsla hennar er á lokastigi. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni 3. september sl. og er hún aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.
    Samhliða vinnu starfshópsins hefur starfað sérstök nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Verkefni nefndarinnar í fyrri áfanga eru m.a. að fara yfir lagafrumvörp sem unnin voru í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis og taka til skoðunar fyrirliggjandi tillögur er lúta að tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og skyldu þeirra til að greina frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem þeir verða áskynja um í starfi. Samkvæmt upplýsingum frá nefndinni verður eftirfarandi frumvörpum skilað til forsætisráðherra í fyrri áfanga starfsins, fyrir 1. október nk. Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi ráðherrar flytji frumvörpin að loknu opnu samráði um þau en þó þannig að þau verði lögð fram samhliða á Alþingi.

     Frumvarp til laga um bætur fyrir ærumeiðingar.
    Tilgangur frumvarpsins er að endurskoða ákvæði almennra hegningarlaga um ærumeiðingar með hliðsjón af dómaframkvæmd hérlendis og hjá Mannréttindadómstól Evrópu og flytja æruvernd yfir á svið einkaréttar. Frumvarp um efnið var lagt fram á 147. löggjafarþingi 2017 (132. mál) en var ekki rætt á þinginu. Nefndin hefur unnið drög að frumvarpi um efnið sem eru byggð á grunni eldra frumvarpsins en gerðar hafa verið vissar efnislegar breytingar auk þess sem bætt hefur verið verulega við umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu.

     Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum (hatursáróður).
    Með frumvarpinu er lagt til að skilyrði þess að mönnum verði gert að sæta refsingu fyrir hatursáróður verði í samræmi við ríkjandi sjónarmið um tjáningarfrelsi, m.a. með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Frumvarp um efnið var lagt fram á 147. löggjafarþingi 2017 (123. mál) en var ekki rætt á þinginu.

     Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (ábyrgð hýsingaraðila).
    Markmið frumvarpsins er að takmarka ábyrgð hýsingaraðila á gögnum sem hann hýsir. Frumvarp um efnið var lagt fram á 147. löggjafarþingi 2017 (135. mál) en var ekki rætt á þinginu.

     Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti og lögum um meðferð sakamála (afnám gagnageymdar o.fl.).
    Tilgangur frumvarpsins er að afnema ákvæði laga um lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda. Frumvarp um efnið var lagt fram á 147. löggjafarþingi 2017 (134. mál) en var ekki rætt á þinginu.

     Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum o.fl. (þagnarskylda).
    Markmið frumvarpsins er að kveða nánar á um inntak tjáningarfrelsis og þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Þá hefur frumvarpið að geyma nýmæli um takmarkanir og brottfall þagnarskyldu sem og skýrt bann við því að starfsmenn stjórnvalda misnoti aðstöðu sína til að fá aðgang að upplýsingum sem þagnarskylda ríkir um. Til stóð að leggja frumvarpið fram á 143. löggjafarþingi 2013–2014. Nefndin hefur rætt hvort mælt verði með því að leggja frumvarpið fram, eftir atvikum með breytingum, og hefur m.a. leitað fanga hjá höfundi þess, Páli Hreinssyni, dr. juris.
    Í síðari áfanga nefndarstarfsins er nefndinni ætlað að fara yfir gildandi upplýsingalög í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi og framkvæmdar laganna og meta hvort þörf sé á lagabreytingum og meta jafnframt hverjar aðrar lagabreytingar kunni að vera æskilegar á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Samkvæmt upplýsingum frá nefndinni mun hún m.a. taka til skoðunar lagaumhverfi hvað vernd uppljóstrara varðar en nefndinni er ætlað að skila tillögum sínum í síðari áfanganum fyrir 1. mars 2019. Nefndin hefur þegar hafið samráð við forsætisnefnd Alþingis vegna frumvarps sem lagt var fram á síðasta þingi um breytingu á lögum um umboðsmann Alþingis sem felur í sér takmarkaða vernd uppljóstrara í stjórnsýslunni.