Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1402  —  557. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um samræmd próf.


     1.      Hver var árlegur beinn kostnaður frá og með árinu 2010 af því að leggja fyrir samræmd próf í grunnskólum, sundurliðað eftir því hvort prófin voru á pappír eða rafræn?
    Ráðherra skipaði í apríl sl. starfshóp til að vinna tillögu að framtíðarstefnu um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Hópnum er m.a. ætlað að skoða lagaramma um samræmt námsmat hér á landi og þróun þess frá 2008. Jafnframt skal hópurinn greina með hvaða hætti staðið er að samræmdu námsmati í skólakerfum nágrannalanda. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögu til ráðuneytisins fyrir árslok 2018.
    Árlegur kostnaður við framkvæmd samræmdra könnunarprófa árin 2010–2017 var eftirfarandi:
2010 65.316.912 pappír
2011 65.576.807 pappír
2012 69.729.865 pappír
2013 56.154.547 pappír
2014 68.956.743 pappír
2015 76.581.874 pappír
2016 88.111.053 rafrænt
2017 87.723.494 rafrænt

     2.      Hver var að mati ráðherra óbeinn kostnaður og hvernig skiptist hann?
    Með óbeinum kostnaði er líklega átt við kostnað sveitarfélaga vegna fyrirlagnar samræmdra könnunarprófa í grunnskólum. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um óbeinan kostnað sveitarfélaganna og ekki liggur fyrir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í hverju slíkur kostnaður felst. Ljóst er að framkvæmd samræmdra könnunarprófa útheimtir þónokkra umsýslu í hverjum skóla í hvert sinn sem slík próf eru haldin og upplýsingar um óbeinan kostnað gætu legið fyrir hjá einstökum sveitarfélögum eða grunnskólum. Vegna rafrænnar fyrirlagnar þurftu ýmsir skólar að laga nettengingar og endurnýja tölvubúnað sem einnig nýtist almennt í skólastarfi.

     3.      Hver er væntur kostnaður af endurfyrirlögn prófanna nú í ár?
    Fyrstu þrjá mánuði ársins er kostnaður orðinn 19,5 millj. kr. og er endurfyrirlögn þar á meðal. Vænta má þess að kostnaður í ár verði svipaður og árið 2017 eða um 88 millj. kr. þar sem hugbúnaðarkostnaður vegna fyrirlagnar 2018 var kostnaðarfærður á árinu 2017 en á móti kemur kostnaður vegna endurfyrirlagnar sem er áætlaður um 10 millj. kr. og felst að mestu í aðkeyptri sérfræðiþjónustu og vinnu starfsmanna.

     4.      Hver var árlegur kostnaður við innleiðingu rafrænna prófa? Óskað er eftir sundurliðun helstu kostnaðarþátta á þeim árum þegar innleiðingarkostnaður féll til.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir kostnað við innleiðingu rafrænna prófa árin 2016 og 2017, sundurliðað í helstu rekstrarþætti:
    2016:
    Launakostnaður 73.879.480
    Hugbúnaðarkostnaður 10.413.140
    Annar kostnaður 3.818.433
    2017:
    Launakostnaður 70.636.217
    Hugbúnaðarkostnaður 13.381.798
    Annar kostnaður 3.705.479

     5.      Telur ráðherra að prófin mæli þá þætti sem lögð er áhersla á í starfi grunnskóla í landinu og á hvaða rökum byggist sú skoðun? Ef ekki, hvaða þætti telur ráðherra að leggja beri áherslu á í prófunum?
    Í 39. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, er kveðið á um að samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði skulu lögð fyrir alla nemendur í 4. og 7. bekk grunnskóla. Nemendur á unglingastigi, þ.e. í 8.–10. bekk, skulu þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Önnur próf skal halda samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólum kemur skýrt fram í reglugerð nr. 173/2017, um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, og er hann að:
     a.      athuga eftir því sem kostur er að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
     b.      vera leiðbeinandi í námi einstakra nemenda,
     c.      veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,
     d.      veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild stendur í þeim námsgreinum og námsþáttum sem prófað er úr.
    Þá skulu niðurstöður prófa nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt.
    Þar sem skólastarf snýst um fleira en hæfniviðmið og námsþætti framangreindra námsgreina telur ráðherra ljóst að samræmdu könnunarprófin mæla að hluta þá þætti sem áhersla er lögð á í starfi grunnskóla, enda er tilgangur þeirra ekki að mæla allt skólastarf.