Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1403  —  596. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um styrki til verkefna og rekstrar á málefnasviði ráðherra.


     1.      Hvernig eru styrkir til verkefna á málefnasviði ráðherra auglýstir lausir til umsóknar?
    Sjóðir á málefnasviðum mennta- og menningarmálaráðuneytis skipta tugum, flestir lögbundnir en nokkrir starfræktir á grundvelli almennrar heimildar í 42. gr. laga um opinber fjármál. Reglan er sú að styrkir úr sjóðum eru auglýstir í einu eða fleiri dagblöðum og á vefsíðum þeirra stofnana sem fara með umsýslu sjóðanna. Til að samræma vinnubrögð sjóða hefur ráðuneytið gefið út Handbók um sjóði og styrkveitingar og Leiðbeiningar um úthlutanir styrkja úr opinberum sjóðum. Árlegir styrkir af safnliðum ráðuneytisins eru auglýstir í dagblöðum og á vef Stjórnarráðsins. Rekstrarstyrkir til félagasamtaka sem veittir hafa verið í langan tíma, oftast að frumkvæði Alþingis, eru ekki auglýstir en fjárveitingar til þessara aðila voru áður tilgreindar í fjárlögum. Þær styrkveitingar eru nú til endurskoðunar innan ráðuneytisins vegna ákvæða í nýlegum lögum um opinber fjármál. Styrkir af ráðstöfunarfé ráðherra eru ekki auglýstir.

     2.      Hvernig eru umsóknar metnar, hverjir sjá um að meta þær, til hvaða þátta er horft við ákvörðun styrkveitingar og hvernig eru þeir þættir ákvarðaðir?
    Meginreglan er sú að stjórn sjóðs eða sérstök úthlutunarnefnd á vegum stjórnar annast mat á umsóknum. Stjórn sjóðs tekur í flestum tilvikum ákvarðanir um úthlutun styrkja en í nokkrum tilvikum gera sjóðstjórnir tillögu til ráðherra um úthlutun. Mat á umsóknum byggist á stefnu viðkomandi sjóðs, lögbundnum markmiðum eða áherslum sem sjóðstjórn eða þar til bær aðili, eins og Vísinda- og tækniráð í tilvikum Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs, ákveður. Ef um er að ræða styrki sem ráðuneytið veitir beint þá er meginreglan sú að starfshópur innan ráðuneytisins gerir tillögu til ráðherra um úthlutun og byggir hópurinn matið m.a. á gæðum umsóknarinnar og væntanlegum ávinningi (sjá einnig svar við 3. tölul.).

     3.      Hvernig velur ráðherra á milli verkefna sem uppfylla allar kröfur?
    Styrkveitingar af safnliðum ráðuneytisins fara samkvæmt reglum um slíkar styrkveitingar og eru undirbúnar af starfshópi sem gerir tillögu til ráðherra um úthlutun að fenginni umsögn starfsfólks viðkomandi fagskrifstofu. Í úthlutunarreglum kemur fram að mat á umsóknum skuli taka mið af eftirtöldu eftir því sem við á:
     1.      gildi og mikilvægi verkefnis fyrir starfsemi viðkomandi málaflokks,
     2.      gildi og mikilvægi fyrir kynningu og markaðssetningu viðkomandi málaflokks,
     3.      að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að,
     4.      starfsferli og faglegum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakanda,
     5.      fjárhagsgrundvelli verkefnisins eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki til sama verkefnis.

     4.      Hversu margar umsóknir bárust, hversu margar umsóknir töldust uppfylla allar kröfur og hversu mörg verkefni hlutu styrk, ár hvert frá árinu 2012?
    Í töflu 1 má sjá upplýsingar um fjölda umsókna um styrki af safnliðum ráðuneytisins, fjölda umsókna sem uppfylltu allar kröfur og fjölda styrkja sem veittir voru. Ekki liggja sambærilegar upplýsingar fyrir um alla sjóði á málefnasviðum ráðuneytisins en hægt er að nálgast ýmsar gagnlegar upplýsingar um sjóðina á heimasíðum þeirra.

Tafla 1.

Fjöldi umsókna og styrkja af safnliðum ráðuneytisins.

2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Fjöldi umsókna 340 150 125 107 102 45 97
Uppfylla allar kröfur 172 85 51 63 60 37 74
Fjöldi styrkveitinga 66 47 20 35 29 20 37

     5.      Hver var heildarupphæð úthlutunar og hvar á landinu voru styrkhafar, ár hvert frá árinu 2012?
    Í töflu 2 má sjá heildarfjárhæð rekstrarstyrkja sem veittir voru á grundvelli umsókna til ráðuneytisins á árunum 2012–2018 og landfræðilega dreifingu styrkþega í töflu 3. Í þessu sambandi er vert að benda á að hluti af því fé sem ráðuneytið hafði til umráða til slíkra verkefna fyrir 2012 fluttist yfir á menningarsamninga vegna verkefna á landsbyggðinni eða í menningarsjóði sem runnu inn í uppbyggingasjóði landshluta.

Tafla 2.

Heildarupphæð styrkja 2012–2018.

2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
121.950.000 92.550.000 46.600.000 66.850.000 44.150.000 41.300.000 56.300.000

Tafla 3.

Skipting styrkþega 2012–2018 eftir landsvæðum.

Landshlutar 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Höfuðborgarsvæðið 56 39 19 29 25 14 28
Vesturland 5 3 2 1 1
Vestfirðir 1 1 1 1 1
Norðurland vestra 1 1 1 1 1
Norðurland eystra – Eyþing 1 1 1 1 1
Austurland 1 1 1 1 1
Suðurland 1 1 1 1 3
Suðurnes 1 2
Erlendis 1
    
     6.      Veitir ráðuneytið rekstrarstyrki til félagasamtaka sem starfa á málefnasviði ráðherra? Ef svo er, hvernig eru þeir ákvarðaðir, til hvaða þátta er horft við ákvörðun styrkveitingar, hvernig eru þeir þættir ákvarðaðir og hvar á landinu voru þau félagasamtök sem fengu styrki, ár hvert frá árinu 2012?
    Ráðherra veitir ýmsum félagasamtökum, einkum heildarsamtökum, rekstrarstyrki að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ákvarðanir um stærstu rekstrarsamninga sem í gildi eru voru flestar teknar af Alþingi en nýlegri rekstrarsamningar taka mið af þeim matsviðmiðum sem reifuð eru í svari við 4. tölul. fyrirspurnarinnar. Öll þessi samtök voru skráð á höfuðborgarsvæðinu en ekki liggja fyrir upplýsingar um að hvaða marki starfsemi þeirra fer fram á landsbyggðinni. Í töflu 4 má sjá fjölda rekstrarstyrkja sem veittir voru á grundvelli auglýsinga á tímabilinu 2012–2018.

Tafla 4.

Fjöldi rekstrarstyrkja á tímabilinu 2012–2018.

2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
21 19 16 16 17 17 12