Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1404  —  550. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um aðgengi fatlaðs fólks.


     1.      Hvernig tryggir ráðherra fullnægjandi aðgengi fyrir fatlað fólk að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra, sem og að upplýsingum og gögnum?
    Aðgengi fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra er tryggt með lögum, reglugerðum og alþjóðlegum skuldbindingum sem stjórnvöld hafa innleitt. Þau lög sem hér um ræðir eru einkum ákvæði laga um mannvirki, nr. 160/2010, um svonefnda algilda hönnun en eftirlit með framkvæmd þeirra laga er í höndum sveitarfélaga. Auk þess hafa bæði Alþingi og ríkisstjórn mótað stefnu um aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum í samræmi við þingsályktun nr. 16/146 um nýja stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021. Einnig fullgiltu stjórnvöld samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 20. september 2016 þar sem m.a. eru ákvæði um skyldu aðildarríkja til að gera viðeigandi ráðstafanir til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.m.t aðgengi að manngerðu umhverfi.
    Hlutverk ráðherra felst einkum í því að vinna með undirstofnunum ráðuneytisins að því að starfsemi þeirra sé í samræmi við gildandi lög og stefnu stjórnvalda á hverjum tíma, þ.m.t. í húsnæðis- og aðgengismálum. Almennt eru aðgengismál í samræmi við gildandi reglur þegar um er að ræða nýtt eða nýlegt húsnæði en þar sem lög eru að jafnaði ekki afturvirk þá getur aðgengismálum verið áfátt hvað eldra húsnæði varðar. Hér gegna Ríkiseignir lykilhlutverki og hefur ráðuneytið átt gott samstarf við stofnunina þegar kemur að endurbótum og breytingum á eldra húsnæði. Í þeim tilvikum getur ráðherra þurft að beita sér fyrir sérstökum fjárveitingum til að breyta aðgengi að húsum með því að bæta við lyftum eða með öðrum hætti. Í nokkrum tilvikum hamla verndunarsjónarmið gamalla húsa því að farið hafi verið út í æskilegar breytingar á skólahúsnæði. Þetta á t.d. við um hús Menntaskólans í Reykjavík. Tekið skal fram að engum nemanda er synjað um skólavist í framhaldsskóla af þeim sökum.
    Hvað aðgang að upplýsingum varðar var aðgengisstefna um opinbera vefi samþykkt í ríkisstjórn árið 2012 en markmið stefnunnar er að tryggja aðgang blindra, sjónskertra og annarra sem þurfa að nota hjálpartæki við öflun upplýsinga. Rekstrarfélag Stjórnarráðsins, sem heldur utan um sameiginlegan vef Stjórnarráðsins, hefur unnið samkvæmt þeirri stefnu. Á vefnum er að finna mikið magn upplýsinga um ráðuneytið og þjónustu þess sem hægt er að hlusta á með hjálp vefþulu.

     2.      Er í gildi stefna eða aðgerðaáætlun í ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði ráðherra um aðgengi fatlaðs fólks?
    Ráðuneytið mun vinna að þeirri aðgerðaáætlun sem samþykkt var á 146. löggjafarþingi í málefnum fatlaðra en þar er fjallað sérstaklega um aðgengi fatlaðra en einnig mun ráðuneytið taka þessi mál upp á reglubundnum fundum sínum með forstöðumönnum stofnana. Jafnframt hefur verið ákveðið að skipa vinnuhóp til að gera tillögur til ráðherra um tækifæri fatlaðs fólks að loknu framhaldsskólanámi.