Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 9  —  9. mál.
Frumvarp til laga


um mannanöfn.

Flm.: Þorsteinn Víglundsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson,
Björn Leví Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


I. KAFLI
Fullt nafn og nafngjöf.
1. gr.

    Allir hafa rétt til nafns. Fullt nafn einstaklings er eiginnafn hans eða eiginnöfn og kenninafn eða kenninöfn. Hver einstaklingur skal bera bæði eiginnafn og kenninafn.
    Kenna skal barn til foreldris eða foreldra þess. Með kenningu til foreldra í lögum þessum er einnig átt við kenningu til foreldra barns sem getið er við tæknifrjóvgun samkvæmt ákvæði 2. mgr. 6. gr. barnalaga.
    Kenninöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum kemur nafn foreldris eða foreldra í eignarfalli, að viðbættu son, dóttir, barn eða bur.
    Heimilt er að nota ættarnafn sem kenninafn og er í þeim tilvikum ekki skylt að kenna barn til foreldris eða foreldra.

2. gr.


    Skylt er að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess.
    Barn öðlast nafn með tilkynningu um nafngjöf til Þjóðskrár Íslands. Foreldrar bera ábyrgð á tilkynningu óháð því hvort barni sé gefið nafn við athöfn hjá skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða ekki.

II. KAFLI


Nafnbreytingar.


3. gr.


    Heimilt er hverjum einstaklingi að breyta nafni sínu.
    Nafnbreyting ólögráða einstaklings er háð því skilyrði að séu forsjármenn þess tveir standi þeir báðir að beiðni um nafnbreytinguna.
    Sé barn undir 18 ára aldri ættleitt, eftir að því var gefið nafn, má gefa því nafn eða nöfn í ættleiðingarbréfi í stað hinna fyrri eða til viðbótar nafni eða nöfnum sem það hefur áður hlotið.
    Breyting á nafni barns undir 18 ára aldri skal háð samþykki þess hafi það náð aldri og þroska til að taka afstöðu til slíkrar breytingar.

4. gr.


    Allar nafnbreytingar samkvæmt lögum þessum skulu tilkynntar Þjóðskrá Íslands.
    Breyting á eiginnafni eða kenninafni samkvæmt lögum þessum tekur ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð í þjóðskrá.

III. KAFLI


Ýmis ákvæði.


5. gr.


    Á öllum opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skulu nöfn einstaklinga rituð eins og þau eru skráð í þjóðskrá á hverjum tíma.
    Í skiptum við opinbera aðila, við samningsgerð, skriflega og munnlega, svo og í öllum lögskiptum, skulu menn tjá nafn sitt eins og það er ritað í þjóðskrá á hverjum tíma.

6. gr.


    Sé barni ekki gefið nafn innan þess tíma sem um getur í 1. mgr. 2. gr. skal Þjóðskrá Íslands vekja athygli forsjármanna barnsins á þessu ákvæði laga þessara og skora á þá að gefa barninu nafn án tafar. Sinni forsjármenn ekki þessari áskorun innan eins mánaðar og tilgreini ekki gildar ástæður fyrir drætti á nafngjöf er Þjóðskrá Íslands heimilt, að undangenginni ítrekaðri skriflegri áskorun, að leggja dagsektir allt að 2.000 kr. á forsjármenn barns og falla þær á þar til barni er gefið nafn. Hámarksfjárhæð dagsekta miðast við vísitölu neysluverðs í janúar 2019 og breytist í samræmi við breytingar hennar. Dagsektir renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra.
    Að öðru leyti varða brot gegn lögum þessum sektum nema þyngri viðurlög liggi við eftir öðrum lögum.

7. gr.


    Ráðherra fer með mál er varða mannanöfn og er honum heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd þessara laga.

8. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2019.
    Jafnframt falla þá úr gildi lög um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum.

Breyting á öðrum lögum.


9. gr.


    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Barnalög nr. 76/2003: Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                   Heimilt er að skrá kyn barns í þjóðskrá sem karlkyn, kvenkyn eða annað/órætt.
     2.      Lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962:
                  a.      Orðin „nafngjöf við skírn eða nafngjöf án skírnar“ í 1. mgr. 7. gr. laganna falla brott.
                  b.      Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Breytingar á skráningu kyns skulu háðar sömu takmörkunum og breytingar á skráningum nafna samkvæmt lögum um mannanöfn.

Greinargerð.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta var áður flutt á 148. löggjafarþingi (83. mál) en náði ekki fram að ganga. Málið er nú endurflutt að teknu tilliti til þeirra umsagna sem allsherjar- og menntamálanefnd aflaði.
    Markmiðið með frumvarpi þessu er m.a. að tryggja rétt einstaklinga til að bera það nafn eða þau nöfn sem þeir kjósa og tryggja að lög um mannanöfn takmarki ekki persónufrelsi fólks eða frelsi fólks til að skilgreina sig. Sem fyrr segir var sambærilegt frumvarp lagt fyrir Alþingi á 148. þingi. Áður hafði frumvarp um breytingar á gildandi mannanafna-lögum verið lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015 (389. mál). Þótt það frumvarp hafi verið efnislega svipað þessu gekk það í vissum atriðum skemur. Með frumvarpi þessu er t.d. lagt til að ekki verði gerður greinarmunur á eiginnöfnum og millinöfnum og skylda til að kynbinda kenninöfn barna við foreldra er felld brott. Það sem þetta frumvarp á sammerkt með frumvarpinu sem lagt var fram á 144. löggjafarþingi er t.d. brottfelling ákvæða um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn, að nöfn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og að nafn megi ekki vera nafnbera til ama. Þá er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana felld brott. Greinargerðin með frumvarpi þessu er byggð á greinargerð síðustu frumvarpa um breytingar á mannanafnalögum eftir því sem við á.
    Vegna þess hve víðtækar breytingar á gildandi mannanafnalögum felast í frumvarpinu þykir rétt að leggja fram frumvarp um ný heildarlög í stað breytinga á gildandi lögum.

II. Rétturinn til nafns.
    Réttur til nafns nýtur verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, um friðhelgi einkalífs. Jafnframt er viðurkennt í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að rétturinn til nafns falli undir 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Nafn er nátengt sjálfsmynd og sjálfsvitund fólks og varðar fyrst og fremst einkahagi og persónurétt. Í þeim lögum um mannanöfn sem lagt er til að breyta eru víðtækar takmarkanir á þessum rétti sem ekki verða rökstuddar með vísan til almannahagsmuna eða annarra hagsmuna sem réttlætanlegt er að byggja á í nútímasamfélagi.
    Lög um mannanöfn hafa gilt á Íslandi frá árinu 1914. Áttu þau m.a. að standa vörð um íslensk mannanöfn og mannanafnahefð, takmarka fjölda nafna sem fólk gat heitið og vernda ættarnöfn með því að innheimta gjald af þeim sem hugðust taka upp ný ættarnöfn eftir sam-þykkt laganna. Árið 1925 var lögunum breytt í þá veru að ný ættarnöfn voru bönnuð og gátu einungis þeir borið ættarnöfn sem hingað til höfðu gert það og niðjar þeirra. Lengi vel fram eftir 20. öldinni var ákvæðum laganna um ættarnöfn illa framfylgt og einhver ættarnöfn bættust í flóruna án þess þó að heimild væri fyrir þeim í lögum. Ný lög um mannanöfn tóku gildi árið 1991, en þar voru gerðar þær breytingar að gömul ættarnöfn "lögleg" og "ólögleg" voru fest í sessi og bann við upptöku nýrra ættarnafna staðfest. Árið 1996 var lögunum breytt á þá leið að erlendir ríkisborgarar sem fá íslenskt ríkisfang fá að halda nafni sínu, en fram að því var þeim gert að taka upp íslenskt nafn.
    Samkvæmt lögum um mannanöfn eru kenninöfn tvenns konar, föður eða móðurnöfn og ættarnöfn. Ákvæði þeirra laga sem lagt er til að breyta með frumvarpi þessu, og snýr að kenninöfnum, mismuna þegnum landsins eftir ætt og uppruna en samkvæmt þeim er óheimilt að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi. Í 5. mgr. 8. gr. gildandi laga segir að menn, sem bera ættarnöfn við gildistöku laganna, megi bera þau áfram, svo og niðjar þeirra í karllegg og kvenlegg. Ljóst má vera að ákvæði laganna um ættarnöfn standa vörð um rétt tiltekins hóps Íslendinga til að bera ættarnöfn byggð á erfðarétti og verndunarsjónarmiðum sem voru í hávegum höfð í samfélagi sem á lítið skylt við það alþjóðavædda og upplýsta fjölmenningarsamfélag sem við búum í nú á dögum. Verndunarsjónarmiðin sem búa að baki því að tiltekinn hópur Íslendinga hefur leyfi til að bera ættarnafn vegna erfða felur í sér ójafnræði milli þeirra sem hafa þessi réttindi og þeirra sem hafa þau ekki. Hagsmunir almennings af því að búa í frjálsu samfélagi, þar sem jafnræði er tryggt, er mun ríkari en hagsmunir niðja þeirra fáu sem fengu í krafti forréttinda eða fjárhagslegrar stöðu sinnar að halda eða velja sér ættarnöfn á síðustu öld.

III. Íslensk nafnahefð og málkerfi íslenskrar tungu.
    Íslensk nafnahefð og íslenskt málkerfi er varið með neikvæðum íþyngjandi formerkjum í núgildandi lögum. Með því að fella brott ákvæði þess efnis að nöfn stangist ekki á við íslenskt málkerfi er opnað á möguleikann á því að tungumálið og nöfn þar á meðal fái að taka breytingum og þróast. Vissulega er íslensk nafnahefð fyrirbæri sem á sér rætur í menningu okkar. Menningu okkar sækjum við alls staðar að og þannig á íslensk nafnahefð rætur í danskri, franskri og enskri menningu. Andi þessara tillagna að breytingum á lögum um mannanöfn er frjálslyndur og leggur áherslu á að fólki sé treyst til að viðhalda menningu og siðum sem hafa merkingu fyrir það sem hluta af stærri heild. Viljinn til þess að standa vörð um hefðir og venjur verður ekki þvingaður upp á fólk með boðum og bönnum. Íslensk tunga og þar af leiðandi nafnahefð dafnar þegar þeim sem hana nota er treyst til að fara með hana án afskipta og íþyngjandi laga sem neyða fólk til þess að sækja rétt sinn fyrir dómstólum til þess eins að fá að heita það sem það vill heita.

IV. Réttindi barna.
    Réttur foreldra til að ráða nafni barns síns er mikill og óumdeildur en réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum er að sama skapi takmarkaður. Lög um mannanöfn hafa sætt gagnrýni, þá sér í lagi hvað varðar mannanafnanefnd og úrskurði hennar. Dæmi eru um að nöfnum hafi verið hafnað þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir.
    Foreldrum á almennt að treysta til að velja börnum sínum nöfn sem verða þeim ekki til ama. Komi upp tilfelli þar sem vafi leikur á því hvort nafn barns geti orðið því til ama má leiða að því líkur að vandi viðkomandi barns sé meiri en svo að ákvæði laga um mannanöfn, og þar af leiðandi mannanafnanefnd, eigi að leiðbeina foreldrum í foreldrahlutverkinu. Í barnalögum, nr. 76/2003, segir í 1. mgr. 1. gr. að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt sé að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Einnig segir í 2. mgr. sömu greinar að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Þeir aðilar sem hafa umsjón með vernd barna eiga þannig að hafa næga heimild í lögum til þess að grípa til viðeigandi ráðstafana og aðstoða foreldra í sínu foreldrahlutverki komi upp aðstæður þar sem barn hefur hlotið nafn sem sannarlega má teljast því til ama. Í mannanafnaskrá, sem haldið er úti af mannanafnanefnd, má glögglega sjá að úrskurðir sem vísa til þess að nafn geti orðið nafnbera til ama eru örfáir. Lög um jafnsjálfsögð mannréttindi eins og réttinn til að bera nafn eiga að vera einföld og fela í sér róttækt traust til foreldra og getu þeirra til að velja barni sínu nafn sem verður því ekki til ama.

V. Réttindi transfólks.
    Lög um mannanöfn eru mjög takmarkandi fyrir transfólk, bæði varðandi kynbindingu nafna og rétt einstaklinga til að breyta nafni sínu. Hlutverk löggjafans er ekki að skilgreina hvað eru kvenmannsnöfn eða karlmannsnöfn. Með því er löggjafinn að takmarka frelsi einstaklingsins til að skilgreina sig og sitt kyn og gera tilraun til þess að hólfa margbreytilegan raunveruleika niður í form sem hentar ekki mannverunni sem um ræðir hverju sinni. Í þessu endurspeglast mikilvægi þess að löggjöfin taki mið af kröfum samfélagsins. Hér, líkt og annars staðar, eru ríkari hagsmunir fólgnir í því að einstaklingur fái að heita nafni sínu en í því að viðhalda gildandi lögum um mannanöfn.

Um einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að fullt nafn einstaklings sé eiginnafn eða eiginnöfn og kenninafn eða kenninöfn. Með því eru millinöfn felld úr gildandi lögum. Þau millinöfn sem nú eru í notkun geta hvort heldur sem er verið skráð sem eiginnöfn eða ættarnöfn, eftir því hvað nafnberinn kýs. Jafnframt er horfið frá þeim takmörkunum um eiginnöfn sem kveðið er á um í II. kafla gildandi laga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um kenningu til foreldra. Í því kemur fram að undir þau falli einnig kenning til foreldra barns sem getið er við tæknifrjóvgun. Sá hluti ákvæðisins er efnislega samhljóða 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. gildandi laga.
    Ákvæði 3. mgr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 8. gr. gildandi laga, að því viðbættu að kenninafn getur tekið viðbótina barn eða bur. Bur er ókyngreint hugtak af sama stofni og „að bera“ og „barn“. Hugtakið er fornt í málinu og var upprunalega í karlkyni en merkti þá sonur. Orðið fellur að beygingu hvorugkynsnafnorða (bur, bur, buri, burs). Hugtakið var lagt til af Samtökunum '78 árið 2015 sem annar valkostur í stað viðbótanna son og dóttir. Viðbótin barn getur gegnt sama hlutverki og þykir ekki ástæða til að takmarka val fólks við aðeins annað af þessu tvennu.
    Í 4. mgr. er því slegið föstu að ættarnöfn geti komið í stað kenninafna eða staðið við hlið þeim. Ekki eru settar takmarkanir við því hver ættarnöfn séu eða hvernig þau skuli mynduð.

Um 2. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er óbreytt frá ákvæði 1. mgr. 2. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að barn öðlist aðeins nafn með tilkynningu til Þjóðskrár Íslands. Sú breyting er gerð frá gildandi lögum að foreldrum barns beri að tilkynna nafngjöf til Þjóðskrár Íslands í stað þess að tilkynning sé á ábyrgð forstöðumanns skráðs trú- eða lífsskoðunarfélags eða einstaklings sem starfar í umboði forstöðumanns slíks félags.

Um 3. gr.


    Mikilvægt er að hverjum einstaklingi sé frjálst að breyta nafni sínu og takmarkanir á því séu felldar úr lögum. Sú afstaða og breyting frá gildandi lögum er lögfest í 1. mgr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að við nafnbreytingu ólögráða einstaklings, sem á tvo forsjármenn, skuli þeir báðir standa að beiðni um breytingu nafnsins. Þetta ákvæði er efnislega samhljóða 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. gildandi laga. Síðari málsliðir málsgreinarinnar, um samþykki foreldris sem hafði forsjá við fyrri nafngjöf en hefur ekki forsjá lengur, eru felldir brott.
    3. mgr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 13. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að breyting á nafni barns undir 18 ára aldri sé háð samþykki þess hafi það náð aldri og þroska til að taka afstöðu til slíkra breytinga. Gildir þetta jafnt um eiginnafn og kenninafn barns. Samkvæmt gildandi lögum er nafnbreyting barns háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri. Rétt þykir að færa þau mörk neðar til að tryggja að börn undir 12 ára aldri fái tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um mögulega breytingu á nöfnum þeirra í samræmi við 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Um 4. gr.


    Í ákvæðum þessarar greinar er kveðið á um að nafnbreytingar skuli tilkynntar Þjóðskrá Íslands og að þær taki ekki gildi fyrr en þær hafi verið færðar í skrá. Þannig verður nafnbreyting að teljast gengin í gegn eftir að beiðni um slíkt hefur sannanlega borist Þjóðskrá Íslands og að liðnum hæfilegum afgreiðslutíma. Um tilkynningu til beiðanda gilda að skráningu lokinni ákvæði stjórnsýslulaga.

Um 5. gr.


    Greinin er nær óbreytt 19. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 25. gr. gildandi laga, að undanskilinni upphæð dagsekta sem hefur verið uppfærð miðað við vísitölu og námunduð að næsta þúsundi fyrir neðan. Ákvæðið þarfnast því ekki skýringa.

Um 7. og 8. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Lagðar eru til breytingar á barnalögum annars vegar og lögum um þjóðskrá og almannaskráningu hins vegar sem felast í því að heimilt verði að skrá kyn sem karlkyn, kvenkyn eða annað/órætt og að aðrar takmarkanir skuli ekki settar á breytingar á kynskráningu en gilda um nafnbreytingu. Eru þessar breytingar nauðsynlegar til að bregðast við því að nöfn séu ekki lengur kyntengd. Þá fellur brott sektarákvæði laga um þjóðskrá og almannaskráningu vegna vanrækslu presta eða forstöðumanna skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga eða einstaklinga sem starfa í umboði þeirra á gerð lögboðinnar skýrslu um nafngjöf.