Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 11  —  11. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (heilbrigðisþjónusta í hagnaðarskyni).

Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson,
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.


1. gr.


    Við 6. mgr. 40. gr. laganna bætist: og að ekki sé um að ræða rekstur í hagnaðarskyni.

2. gr.


    Við 3. mgr. 43. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Veitendum er óheimilt að reikna arð og arðgreiðslur inn í kostnaðarmat.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. um rekstur í hagnaðarskyni og ákvæði 2. gr. um arð og arðgreiðslur skulu þeir samningar sem eru í gildi við samþykkt laga þessara halda sér út samningstímann, þó ekki lengur en til 5 ára.


Greinargerð.

    Markmið þessa frumvarps er að tryggja að ákvæði um heimild ráðherra til að semja aðeins við veitendur heilbrigðisþjónustu sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni sé skýrt. Af texta gildandi laga má ráða að ráðherra hafi þegar þessa heimild en það er þó ekki tekið skýrt fram. Engu að síður hafa þegar verið gerðir samningar um rekstur einkarekinna heilsugæslustöðva þar sem slíku ákvæði var beitt. Því telja flutningsmenn mikilvægt að tekin verði af tvímæli í lögum um að þessi heimild sé fyrir hendi fyrir ráðherra.
    Mikil umræða hefur farið fram um heilbrigðisþjónustu og arðgreiðslur undanfarin misseri og er frumvarpið afurð þeirrar umræðu. Flutningsmenn telja ekki að nota eigi takmarkaða fjármuni ríkisins til að greiða arð út úr fyrirtækjum sem veita heilbrigðisþjónustu. Fordæmi fyrir þessu þekkjast víða um lönd, þ.e. að svokölluð „ekki hagnaðardrifin fyrirtæki“ (e. non-profit) séu rekin og í raun eru heilbrigðisþjónustufyrirtæki félagasamtaka á Íslandi oftast rekin á þessum grunni. Fyrirtækin geta veitt fjölbreytta þjónustu, allt frá stórum aðgerðum til reglubundins eftirlits með heilsu. Með samningum við þjónustuveitendur sem byggja á þessu formi er tryggt að fjármunir ríkisins nýtist betur en ella til að veita þá þjónustu sem lagt er upp með að kaupa.
    Íslenska heilbrigðiskerfið er stórt og umfangsmikið á íslenskan mælikvarða og veltir miklum fjármunum. Hins vegar er ljóst að á „markaði“ sem þessum er verulegur markaðsbrestur, þ.e. staða seljenda og kaupenda þjónustu er ójafn, seljendum í hag. Því má telja óeðlilegt að samningar um þjónustukaup byggist að þessu leyti á markaðslegum forsendum eins og væntum arði eða hagnaði söluaðilans.
    Þar sem þegar eru í gildi fjölmargir samningar um þjónustu þar sem slíku ákvæði hefur ekki verið beitt verður að teljast hóflegt að veita ráðuneytinu og veitendum umþóttunartíma eins og gert er ráð fyrir í gildistökugrein. Ætla má að stór hluti þeirra þjónustuaðila sem þegar hefur gert samninga, til að mynda sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn, séu í raun ekki í „arðsemis-starfsemi“ (e. for-profit) heldur sé starfsemin rekin til að tryggja viðkomandi atvinnu og starfsvettvang, auk þeirra aðstoðarmanna sem við kunna að eiga.
    Í frumvarpinu er það ekki gert að fortakslausri skyldu ráðherra að beita ákvæðinu, en ætla verður að með tíð og tíma yrði því beitt í ríkara mæli en þegar hefur verið gert enda tvímæli tekin af um heimild. Til lengri tíma litið má einnig benda á að til að gæta jafnræðis milli þjónustuveitenda er mikilvægt að ákvæðinu sé alltaf beitt þegar samið er um sambærilega þjónustu, t.d. eins og þegar hefur verið gert í heilsugæslu. Jafnframt kann að vera að í upphafi geti verið varhugavert að gera að fortakslausri skyldu að setja inn slík ákvæði, enda kunna að koma upp þarfir vegna þjónustusamninga þar sem ekki er um aðra veitendur að ræða en þá sem reknir eru í hagnaðarskyni, og þörf fyrir þjónustu það brýn að ekki sé hægt að setja slík skilyrði.