Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 25  —  25. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson.

I. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.
1. gr.

    1. mgr. 28. gr. a laganna orðast svo:
    Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman en fara sameiginlega með forsjá hafa þeir val um að skrá lögheimili barnsins hjá báðum foreldrum og hafa þá jafna heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Kjósi foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá að skrá lögheimili barns aðeins hjá öðru þeirra hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka framangreindar ákvarðanir. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó í öllum tilvikum leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.

2. gr.

    2. og 3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna orðast svo: Foreldrar skulu ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili eða hvort barnið skuli eiga lögheimili hjá báðum. Sýslumaður skal tilkynna Þjóðskrá Íslands hvar barnið eigi lögheimili.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
     a.      Foreldrar geta samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Í samningi um sameiginlega forsjá skal greina hvar barn skuli eiga lögheimili. Heimilt er að hafa lögheimili barns hjá öðru foreldri eða báðum. Skal þá litið svo á að barnið hafi fasta búsetu þar sem það hefur lögheimili hvort heldur sem það er hjá öðru foreldri eða báðum.
     b.      Á eftir orðunum „frá öðru foreldri til hins“ í 2. mgr. kemur: lögheimili sé skráð hjá báðum foreldrum eða skráning lögheimilis hjá báðum foreldrum falli niður og lögheimili sé skráð hjá öðru þeirra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ef dómari dæmir sameiginlega forsjá ber jafnframt að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili eða hvort lögheimili barns skuli vera hjá báðum foreldrum. Í máli um lögheimili barns kveður dómari á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili eða hvort lögheimili barns skuli vera hjá báðum foreldrum.
     b.      Á eftir orðunum „forsjá skuli vera sameiginleg“ í 4. mgr. kemur: eða lögheimili skráð hjá báðum foreldrum.
     c.      Á eftir orðunum „forsjáin hafi áður verið sameiginleg“ í 4. mgr. kemur: hvernig skráningu lögheimilis hafi áður verið háttað.

5. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. laganna bætist: nema foreldrar ákveði að fara sameiginlega með forsjá barns og það eigi lögheimili hjá báðum.

6. gr.

    Við 1. mgr. 56. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi barn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum fellur niður réttur til kröfu meðlags.

II. KAFLI
Breyting á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018.
7. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: nema með þeim undantekningum sem getið er í 6. gr.

8. gr.

    Við 1. mgr. 6. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fari foreldrar sameiginlega með forsjá barns hafa þeir val um hvort barnið hafi lögheimili hjá öðru þeirra eða báðum.

III. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.
9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 68. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi barn tvöfalt lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili og skipta heimilisfesti hjá báðum forsjárforeldrum yfir tekjuárið, þá teljast báðir forsjárforeldrar framfærendur barnsins og skal reikna helming barnabóta til hvors forsjárforeldris.
     b.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi barn tvöfalt lögheimili skulu tekjur annars forsjárforeldris ekki koma til skerðingar á þeim tekjutengdu barnabótum sem greiðast með barni til hins foreldrisins.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.
10. gr.

    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi börn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum, sem að öðru leyti uppfylla skilyrði laga þessara, er heimilt að greiða helming mæðra- og feðralauna til hvors þeirra.

11. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Séu framfærendur barna tveir, hvor með sitt lögheimili, og lögheimili barna skráð hjá báðum, er heimilt að greiða helming umönnunargreiðslna til hvors þeirra.

V. KAFLI
Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.
12. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi barn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi skal það hafa rétt til þjónustu eða aðstoðar í báðum sveitarfélögum ef skilyrði laga þessara eru að öðru leyti uppfyllt.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.
13. gr.

    Við 4. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skráning lögheimilis barns hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi takmarkar ekki rétt þess til þjónustu á grundvelli laga þessara.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.
14. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi barn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi skulu foreldrar taka ákvörðun um í hvoru sveitarfélagi barnið skuli njóta skólavistar og tilkynna það sveitarstjórnum beggja sveitarfélaga. Ákvörðun gildir þar til önnur slík ákvörðun hefur verið tekin af báðum foreldrum.

VIII. KAFLI
Gildistaka.
15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Markmið með frumvarpi þessu er annars vegar að tryggja rétt forsjárforeldra, sem búa ekki saman, til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barns síns í sameiningu og hins vegar að gæta réttar barna til að njóta fullrar þátttöku og íhlutunar beggja foreldra í daglegu lífi sínu.
    Ljóst er að aðstöðumunur foreldra með sameiginlega forsjá er enn þó nokkur, þótt hlutir hafi færst til betri vegar á undanförnum árum. Í barnalögum, nr. 76/2003, er tekið fram að lögheimilisforeldri hafi „heimild til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf“, sbr. 28. gr. a laganna. Þrátt fyrir að foreldrar hafi sameiginlega forsjá og skuli leitast við að hafa samráð um þessi mál er þessi aðstöðumunur til þess fallinn að skapa ósátt og skerða rétt barns til fullrar íhlutunar beggja foreldra í lífi sínu. Enn fremur á lögheimilisforeldri rétt á margvíslegum fjárstuðningi umfram foreldri sem ekki deilir lögheimili með barni sínu.
    Á árunum 2006–2010 upplifðu árlega 550–600 börn lögskilnað foreldra sinna. Engar upplýsingar liggja fyrir um að þessar tölur hafi lækkað. Þá áætlar Hagstofa Íslands að tæplega 36% hjónabanda endi með skilnaði. Sé litið til þess að sameiginleg forsjá sé meginregla að íslenskum lögum, sbr. 31. gr. barnalaga, og að almennt sé leitast við að jafna rétt forsjárforeldra, skýtur skökku við að öðru foreldri séu veitt talsverð réttindi umfram hitt á grundvelli skráningar lögheimilis barna. Að mati flutningsmanna er frumvarp þetta til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á fjölda barna sem eiga foreldra sem kjósa að ala þau upp saman en á hvort á sínu heimilinu.
    Þegar foreldrar hafa tekið ákvörðun um að fara sameiginlega með forsjá barns í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita, en hvort á sínu heimilinu, á löggjafinn ekki að gefa öðru foreldrinu ríkari rétt en hinu til ákvarðanatöku um hagi barnsins. Löggjafinn á ekki að hamla því að foreldrar í þessari stöðu geti alið börnin sín upp með jafnmiklum lagalegum réttindum og foreldrar í sambúð eða hjónabandi.
    Lög þessi munu ekki gilda afturvirkt eða valda sjálfkrafa breytingu á lögheimili barna þótt foreldrar þeirra fari sameiginlega með forsjá. Vilji foreldrar sem þegar fara sameiginlega með forsjá barns skrá lögheimili þess hjá báðum foreldrum þarf að koma til sérstök ákvörðun um það. Enn fremur verða foreldrar sem skilja eða slíta sambúð í kjölfar gildistöku frumvarps þessa að taka afstöðu til þess hvort lögheimili barns verði skráð hjá öðru þeirra eða báðum enda fari foreldrar með sameiginlega forsjá.
    Við skráningu lögheimilis barns hjá báðum foreldrum mun réttur til barnabóta skiptast til helminga milli forsjárforeldra og skerðast barnabætur í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn hvers foreldris. Samkvæmt frumvarpinu er skylda til ákvörðunar meðlagsgreiðslna ekki til staðar þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að skrá lögheimili þess hjá báðum. Heimildir til kröfu meðlags falla að sama skapi niður ef lögheimili barns er skráð hjá báðum foreldrum. Er það í samræmi við þá breytingu laganna að báðir foreldrar teljist í þessum tilvikum framfærendur barns.
    Ljóst er að hag barna er fyrir bestu að foreldrar sem kjósa að ala þau upp á tveimur heimilum í sátt búi við sömu lagalegu skilyrði, báðir forsjárforeldrar hafi sama rétt og þurfi að taka ákvarðanir saman með hag barnsins í fyrirrúmi.
    Verði frumvarp þetta að lögum er nauðsynlegt að skoða áhrif þeirra á önnur lög, svo sem lög um leikskóla, lög um meðferð einkamála og lög um meðferð sakamála.