Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 27  —  27. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um dag nýrra kjósenda.


Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Olga Margrét Cilia, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sara Elísa Þórðardóttir, Smári McCarthy, Steinunn Þóra Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að opna dyr Alþingis á vordögum ár hvert fyrir þeim sem öðlast kosningarrétt viðkomandi ár og skipuleggja dagskrá þar sem boðið er upp á fræðslu um lýðræðislega þátttöku. Forseti haldi utan um skipulag og framkvæmd dagsins ásamt sérfræðingi sem ráðinn verði sérstaklega tímabundið til verkefnisins. Við skipulagningu verði haft samráð við dómsmálaráðherra, menntamálayfirvöld og samtök ungs fólks og innflytjenda.
    Dagur nýrra kjósenda verði fyrst skipulagður vorið 2019.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram til að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og innflytjenda sem öðlast hafa íslenskt ríkisfang og þar með kosningarrétt með því að bjóða nýja kjósendur velkomna í hóp þeirra sem njóta kosningarréttar. Verði tillagan samþykkt mun hverjum árgangi nýrra kjósenda verða boðið til Alþingis það ár sem þeir öðlast kosningarrétt. Stjórnmálaflokkar, sérfræðingar og félagasamtök verði með kynningar á lýðræðisferlinu og svari þeim spurningum sem helst brenna á gestum.

Auka þarf traust til stjórnmála.
    Undanfarin ár hefur dvínandi kosningaþátttaka ungs fólks verið talin til marks um að hinn hefðbundni stjórnmálavettvangur höfði ekki nægilega vel til ungs fólks. Hins vegar sýnir Íslenska kosningarannsóknin, sem mælt hefur viðhorf fólks til stjórnmála frá árinu 1983, að ungt fólk hefur ekki minni áhuga á stjórnmálum en aðrir aldurshópar. Auk þess benda niðurstöðurnar til þess að ekki hafi dregið úr áhuga yngstu kjósendanna á stjórnmálum frá því að rannsóknin hóf göngu sína. Þess ber þó að geta að það unga fólk sem ekki nýtir kosningarrétt sinn telur gjarnan til þá ástæðu að það beri lítið traust til hefðbundinna stjórnmálaflokka og stjórnmálafólks.
    Þeir hópar sem hér um ræðir voru meðal þeirra sem Reykjavíkurborg beindi sjónum sínum að fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018, í samræmi við tillögur starfshóps um aukna kosningaþátttöku. 1 Lagði starfshópurinn m.a. til að borgin mundi standa fyrir kynningarátaki fyrir nýja kjósendur á lýðræðislegri þátttöku og hagnýtum upplýsingum um kosningarnar og stjórnmálaflokkana í samstarfi við grunnskóla og aðra innan borgarinnar sem hafa aðgang að hópnum. Þá var sendur persónulegur bréfpóstur frá Reykjavíkurborg til allra Reykvíkinga sem höfðu kosningarrétt í fyrsta sinn í borgarstjórnarkosningum vorið 2018, auk þess sem þeim voru send SMS-skilaboð á kjördegi. Allt miðaði þetta að auknu sambandi við nýja kjósendur, með áherslu á að þeir væru velkomnir.
    Viðburður af því tagi sem hér er lagt til að Alþingi standi fyrir er ein af þeim aðgerðum sem hinn hefðbundni stjórnmálavettvangur getur hrint í framkvæmd til að koma á beinu og milliliðalausu samtali við nýja kjósendur. Á því samtali mætti byggja aukið traust, auk þess sem kjörnir fulltrúar sem taka þátt í viðburðinum mundu komast í tæri við nýja samfélagsstrauma og -stefnur frá einstaklingum sem nálgast það að koma að kjörborðinu í fyrsta sinn.
    Mikilvægi þess að hlúð sé að nýjum kjósendum felst m.a. í því að rannsóknir hafa sýnt að þeir einstaklingar sem kjósa í fyrstu einum til tvennum kosningunum sem þau hafa rétt til eru töluvert líklegri til að kjósa í framtíðinni og að staðaldri heldur en þeir sem ekki taka þátt í þessum fyrstu kosningum. Með því að eiga alvöru samtal við þennan hóp á hverju ári, en ekki einungis þegar kosningar eru í nánd, gætu stjórnmálamenn axlað aukna ábyrgð á því að sýna nýjum kjósendum fram á gildi þess að hafa áhrif á hefðbundin stjórnmál.

Vönduð framkvæmd.
    Árlegur dagur nýrra kjósenda yrði nokkuð viðamikið verkefni, en flutningsmenn telja mikilvægt að vandað sé til verka. Hópurinn sem um ræðir er stór og fjölbreyttur og því nauðsynlegt að skipuleggja kynningarefni og annað sem að deginum snýr þannig að það höfði til og henti sem flestum. Í því skyni þyrfti að hafa víðtækt samráð, til að mynda við sérfræðinga dómsmálaráðuneytisins en mál er varða kosningar heyra undir dómsmálaráðherra, menntamálayfirvöld og samtök ungmenna og innflytjenda þótt jafnvel færi best á því að slíkir aðilar ættu beina aðkomu að skipulagningu dagsins. Einnig er mikilvægt að kynningarefni, t.d. bæklingar og veggspjöld, séu á fleiri tungumálum en íslensku fyrir innflytjendur sem hafa öðlast kosningarrétt í kosningum til Alþingis.
    Við skipulagningu dags nýrra kjósenda telja flutningsmenn mikilvægt að halda nokkrum framkvæmdaþáttum til haga:
          Samráð sé haft við samtök ungs fólks, eins og til að mynda Landssamband ungmennafélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema sem standa að lýðræðisátakinu #ÉgKýs.
          Unnið sé náið með sérfræðingum í málefnum innflytjenda, eins og til að mynda innflytjendaráði, og þess gætt að kynningarefni sé aðgengilegt á fleiri tungumálum en íslensku.
          Undirbúningur sé unninn af sérfræðingi sem ráðinn verði sérstaklega tímabundið til verkefnisins.
          Menntamálayfirvöld verði höfð með í ráðum, annars vegar til þess að tryggja framhaldsskólanemum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins svigrúm til að mæta á dag nýrra kjósenda, hins vegar svo að hægt sé að koma upp fjarfundatengingum við framhaldsskóla á landsbyggðinni sem mætti bæði nýta í þágu 18 ára einstaklinga og nýrra ríkisborgara. Upptökur af kynningum dagsins verði jafnframt aðgengilegar í framhaldinu og þannig tryggt að fræðslan nýtist sem flestum.
          Sendur verði persónulegur bréfpóstur til þeirra sem boðið er á daginn.
    Undanfarinn áratug hafa á bilinu 4.500–5.000 bæst í hóp kjósenda ár hvert vegna aldurs, en 300–600 manns vegna þess að þeir hafa öðlast ríkisfang. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndriti hafa sveiflur í stærð hópsins ekki verið miklar á milli ára. 2

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Erfitt er að spá fyrir um hversu margir af þeim sem fengju boðsbréf mundu mæta á dag nýrra kjósenda, en til samanburðar má nefna að síðast þegar Alþingishúsið var opið almenningi árið 2015 til að minnast 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna heimsóttu um 1.500 gestir Alþingi. Ýmis önnur dæmi eru um afar viðamikla dagskrá innan veggja þingsins þannig að full ástæða er til að vera bjartsýnn á að vel geti tekist til við framkvæmdina.

1     „Skýrsla starfshóps um leiðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningum 2018,“ 18. jan. 2018. reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/lokaskyrsla_-_starfshopur_um_aukna_kosningathatttoku_2018.pdf
2     Fjöldi 18 ára einstaklinga miðar við 1. janúar ár hvert í tölum Hagstofunnar. Fjöldi nýrra ríkisborgara, þ.e. einstaklinga 18 ára og eldri sem var veitt íslenskt ríkisfang, er fenginn úr svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á þingskjali 1367 á 148. löggjafarþingi.