Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 31  —  31. mál.
Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fána á byggingum).

Flm.: Birgir Þórarinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason.


1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Tjúgufáninn skal dreginn á stöng alla daga ársins á Alþingishúsinu, Stjórnarráðshúsinu og byggingu Hæstaréttar Íslands kl. 8 að morgni og vera við hún til kl. 21 að kvöldi. Fáni forseta Íslands skal dreginn á stöng við embættisbústað hans og við skrifstofu hans í Reykjavík á sama tíma og vera jafnlengi við hún. Þessa fána skal lýsa upp í skammdeginu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. desember 2018.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 148. löggjafarþingi (459. mál) en var ekki afgreitt og er nú endurflutt óbreytt.
    Með frumvarpinu er lagt til að flaggað verði alla daga ársins frá kl. 8 að morgni til kl. 21 að kvöldi á byggingum hinna þriggja arma ríkisvaldsins auk bygginga embættis forseta Íslands, þ.e. við forsetasetrið á Bessastöðum og skrifstofu forseta á Sóleyjargötu. Auk þess er lagt til að fáninn verði lýstur upp í skammdeginu.
    Flutningsmenn leggja til að þessi breyting taki gildi á fullveldisafmælinu 1. desember 2018 þegar 100 ár verða liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki en fáninn varð þjóðfáni þann dag. Til marks um það var klofinn fáni dreginn að hún á fánastöng Stjórnarráðshússins á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918 er sambandslögin gengu í gildi.