Ferill 45. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 45  —  45. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum (brottfall kröfu um ríkisborgararétt).

Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorsteinn Víglundsson.


1. gr.


    4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 146. löggjafarþingi (289. mál) og 148. löggjafarþingi (35. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði brott sú almenna krafa laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að ríkisstarfsmenn þurfi að hafa íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt frá öðru EES- eða EFTA-ríki eða Færeyjum.
    Ákvæði 6. gr. laganna fjallar um almenn skilyrði til að fá skipun eða ráðningu í opinbert starf hjá ríkinu. Er með þessu frumvarpi lagt til að 4. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar falli brott, en samkvæmt honum má aðeins ráða ríkisborgara annarra ríkja en framangreindra „ef sérstaklega stendur á“. Ákvæðið skiptir útlendingum á Íslandi í tvo hópa þar sem annar hópurinn hefur sömu tækifæri og Íslendingar til að starfa hjá ríkinu en hinn ekki. Rétt er að vekja athygli á að takmörkun 4. tölul. nær einnig til ríkisborgara frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi eða dvalarleyfi sem ella mundi veita þeim heimild til að vinna viðkomandi starf. Að mati flutningsmanna frumvarpsins er reglan barn síns tíma og óþarflega íþyngjandi.
    Ísland sker sig úr meðal norrænna ríkja hvað ákvæðið varðar. Hvorki í Svíþjóð, Danmörku, Noregi né Finnlandi er lengur að finna ákvæði sem þessi. Alls staðar eru störf hjá ríkinu aðgengileg þeim sem hafa tilskilin atvinnuleyfi.
    Eðli málsins samkvæmt er víða gerð krafa um tungumálakunnáttu o.fl. þess háttar til að gegna tilteknum störfum og hróflar þetta frumvarp ekki við því að sett séu slík málefnaleg skilyrði við veitingu starfa hjá ríkinu. Þá er ekki lagt til að gerðar verði breytingar á þeirri kröfu 20. gr. stjórnarskrárinnar að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar, en til embættismanna heyra m.a. dómarar og lögreglumenn, sbr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.