Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 58  —  58. mál.
Fyrirspurn


til forseta Alþingis um aðdraganda að ávarpi forseta danska þingsins á hátíðarþingfundi á Þingvöllum.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Hver ber ábyrgð á þeim hluta alþjóðastarfs Alþingis að bjóða fulltrúum erlendra ríkja til Íslands fyrir hönd þingsins?
     2.      Hvenær var forseta danska þingsins formlega boðið að flytja ávarp á hátíðarþingfundi á Þingvöllum 18. júlí 2018? Hver tók þá ákvörðun og hvenær, og hvernig var ákvörðunarferlinu háttað? Óskað er eftir afriti af öllum samskiptum milli skrifstofu Alþingis og danska þingsins auk annarra upplýsinga sem varpað geta ljósi á þessa ákvörðun, undirbúning hennar og framkvæmd.
     3.      Hvenær og með hvaða hætti voru fulltrúar í forsætisnefnd og formenn þingflokka upplýstir um að fyrirhugað væri að bjóða forseta danska þingsins á hátíðarþingfundinn í krafti embættis síns? Hvenær og með hvaða hætti voru þeir upplýstir um það þegar honum hafði verið boðið?
     4.      Leit forseti Alþingis svo á að birting tilkynningar um málið á vef Alþingis 20. apríl 2018 fullnægði upplýsingaskyldu hans gagnvart forsætisnefnd og þingflokksformönnum? Ef ekki, hvernig ber að hátta upplýsingagjöf svo að hún teljist fullnægjandi þegar fulltrúum erlendra ríkja er boðið til Íslands á vegum Alþingis? Óskað er eftir afriti af dagskrá funda, dagskrárskjölum og af þeim liðum fundargerða forsætisnefndar og funda forseta Alþingis með þingflokksformönnum sem varpað geta ljósi á málið.
     5.      Hvaða ástæður hefðu nægt til að forseti Alþingis hefði afturkallað boð sitt til forseta danska þingsins á hátíðarþingfundinn á Þingvöllum og hversu langan fyrirvara hefði þurft að hafa til að sómi hlytist af?


Skriflegt svar óskast.