Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 68  —  68. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs (rafrænar þinglýsingar).

Frá dómsmálaráðherra.                                  I. KAFLI

Breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um þinglýsingu með rafrænni færslu fer eins og greinir í 1. mgr. eftir því sem við á.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig er heimilt að þinglýsa með rafrænni færslu.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Rafræn þinglýsingarfærsla skal staðfest með fullgildri rafrænni undirskrift.
                  Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þinglýsinga með rafrænni færslu, m.a. um rafrænt öryggi, vottun, tímastimplanir, auðkenni, innsigli og önnur atriði sem varða framkvæmd og kröfur til þinglýsinga með rafrænni færslu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                   Skilyrði a–f-liðar 2. mgr. gilda um beiðni um þinglýsingu með rafrænni færslu.
                   Móttaka beiðni um rafræna þinglýsingu skal staðfest með rafrænum hætti.
     b.      Við 2. málsl. 3. mgr. bætist: og -tíma.

4. gr.

    Á eftir orðinu „þinglýsingarbeiðanda“ í 2. málsl. 5. mgr. 7. gr. laganna kemur: eða þinglýsing með rafrænni færslu staðfest.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Þinglýsing fer fram með þeim hætti að meginatriði skjals eru færð í þinglýsingabók, auk tímastimplunar dagbókarfærslu. Við þinglýsingu er stöðu skjals breytt úr „dagbókarfært“ í „þinglýst“.
     b.      Við 2. mgr. bætist: eða staðfest er að þinglýsing hafi farið fram með rafrænni færslu.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: og er þá heimilt að gera það með rafrænni færslu.
     b.      Í stað orðanna „Verður þá“ í 2. málsl. kemur: Ef um handhafabréf er að ræða verður.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Aflýsing skjals í þinglýsingabók fer þannig fram að stöðu skjals er breytt úr „þinglýst“ í „aflýst“. Upplýsingar um aflýst skjöl og yfirlýsingu rétthafa skulu varðveittar í ferilskrá viðkomandi eignar í þinglýsingabók.
     b.      1. og 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Hafi skjal verið afhent með áritaðri yfirlýsingu rétthafa um að því megi aflýsa skal rita vottorð um aflýsinguna á það eintak skjalsins og geta þess hvenær hún fór fram og hvar hennar sé getið. Þinglýsingarstjóri vistar hið áritaða eintak um aflýsingu í þinglýsingabók.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Skjal sem er afhent til þinglýsingar fær tímastimplun kl. 21 þann dag sem það telst afhent. Skjöl sem berast eftir skrifstofutíma teljast afhent næsta virka dag.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Rafræn þinglýsingarfærsla í dagbók er tímastimpluð þegar hún berst og telst afhent til þinglýsingar á þeirri stundu.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 15. gr. laganna:
     a.      Orðin „eða fær stöðuna „þinglýst“ í tölvu“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „þeim degi“ í 1. málsl. kemur: þeirri tímasetningu.
     c.      Í stað orðanna „þeim degi, sem tilgreindur“ í 2. málsl. kemur: þeirri tímasetningu, sem tilgreind.
     d.      Í stað orðsins „samdægurs“ í 3. málsl. kemur: samtímis.
     e.      4. málsl. fellur brott.

10. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fullgild rafræn undirskrift á beiðni um þinglýsingu rafrænnar færslu staðfestir dagsetningu og undirskrift. Fjárræði útgefanda skal sannreynt í skrá yfir lögræðissvipta menn.

11. gr.

    Orðið „ekki“ í 1. málsl. 30. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 39. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: eða þinglýst sé staðfestingu þinglýsts rétthafa um aflýsingu skjals.
     b.      2. málsl. fellur brott.

13. gr.

    Í stað orðanna „Ákvæði 5. og 6. gr. laga nr. 66/1963“ í 2. málsl. 41. gr. laganna kemur: Ákvæði 4. og 5. gr. siglingalaga, nr. 34/1985.

14. gr.

    Orðin „ef í kaupstað er eða þinghá, þar sem þinglýsingarstjóri sá, er fjalla á um þinglýsinguna, hefur skrifstofu, ella innan fjögurra vikna“ í 1. málsl. 1. mgr. 48. gr. laganna falla brott.

15. gr.

    Við 53. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra ákveður í reglugerð hvaða tegundum skjala má þinglýsa með rafrænni færslu, hvaða upplýsingar teljist meginatriði skjala og á hvaða tegundir eigna skv. IV.–VII. kafla þinglýsa megi með rafrænni færslu.

16. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Leiðrétta skal skráningu kröfuhafa samkvæmt veðbréfum öðrum en handhafabréfum í þinglýsingabók. Ef kröfuhafi er ríkissjóður, opinber stofnun, banki, sparisjóður, lífeyrissjóður, tryggingafélag eða verðbréfasjóður má leiðrétta skráningu kröfuhafa án þess að frumriti eða ljósriti veðbréfs sé framvísað til sönnunar á framsali. Í öðrum tilvikum þarf að framvísa árituðu frumriti eða endurriti veðbréfs í samræmi við 12. og 39. gr. þinglýsingalaga. Stefnt skal að því að leiðréttingu skráningar kröfuhafa verði lokið innan árs frá gildistöku laga þessara.

II. KAFLI

Breyting á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu,

nr. 30/2002, með síðari breytingum.

17. gr.

    Orðin ,,þinglýsingar og“ í 3. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.

18. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ekki skal greiða þinglýsingargjald fyrir leiðréttingu á skráningu kröfuhafa vegna rafrænna þinglýsinga.

19. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2019 nema ákvæði 16. og 18. gr. sem taka þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Hinn 31. ágúst 2015 skipaði þáverandi innanríkisráðherra vinnuhóp til að fara yfir lög og reglugerðir sem gilda um þinglýsingar og rafræn viðskipti og undirritanir og gera tillögur að lagabreytingum sem nauðsynlegar eru til að koma á rafrænum þinglýsingum hér á landi. Sýslumannafélag Íslands, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Þjóðskrá Íslands áttu fulltrúa í vinnuhópnum og samdi hann frumvarp þetta. Hinn 10. mars 2017 skipaði dómsmálaráðherra stýrihóp um rafrænar þinglýsingar sem hafði m.a. það hlutverk að hafa umsjón með gerð frumvarps um breytingar á þinglýsingalögum svo koma mætti á rafrænum þinglýsingum og innleiðingu tölvukerfis fyrir rafrænar þinglýsingar. Til grundvallar vinnu stýrihópsins lá það frumvarp sem unnið var af áður greindum starfshópi. Í stýrihópnum áttu sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytisins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins sem og fulltrúar Þjóðskrár Íslands, Samtaka fjármálafyrirtækja og Sýslumannafélags Íslands. Áður hafði hópur sem í sátu fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og Þjóðskrá Íslands lagt mat á fýsileika þess að gera þinglýsingar rafrænar. Skilaði hópurinn af sér skýrslu sem bar heitið Þinglýsing rafrænna skjala sem kom út í desember 2010. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að þinglýsa með rafrænni færslu sem verði jafngild þinglýsingu skjals. Fyrst um sinn verður þinglýsing með rafrænni færslu takmörkuð við ákveðna tegund skjala og tiltekna þinglýsingarbeiðendur. Er gert ráð fyrir að í reglugerð verði skilgreint hvaða skjölum má þinglýsa með rafrænni færslu. Eftir því sem meiri reynsla kemst á hið rafræna ferli verður unnt að fjölga þeim tegundum skjala sem þinglýst verður á rafrænan hátt.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Eins og rakið er í kafla 1 hér að framan hefur lengi verið vilji til að taka upp þinglýsingu með rafrænum hætti. Er því áður lýst að settur var á fót hópur sem lagði mat á fýsileika rafrænna þinglýsinga og skilaði af sér skýrslu í árslok 2010. Þá samþykkti ríkisstjórn Íslands hinn 4. nóvember 2011 að hefja undirbúning rafrænna þinglýsinga sem fyrst.
    Með rafrænum þinglýsingum er stefnt að aukinni sjálfvirkni við þinglýsingar. Standa vonir til að aukin sjálfvirkni hafi í för með sér hagræði fyrir alla þá sem koma að þinglýsingum og byggja rétt sinn á þinglýsingu, hvort sem það eru embætti sýslumanna, kröfuhafar, svo sem fjármálastofnanir, eða aðrir. Eins og áður er vikið að er með þessu frumvarpi gert mögulegt að þinglýsa rafrænt en þó er gert ráð fyrir að fyrst um sinn verði rafræn þinglýsing bundin við tiltekin skjöl. Samkvæmt frumvarpinu skal ákveða í reglugerð hvaða tegundum skjala má þinglýsa rafrænt. Með breytingu á reglugerðinni verður því unnt að fjölga tegundum skjala sem þinglýsa má rafrænt eftir því sem verkefninu vindur fram.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagður grundvöllur að rafrænum og þar með sjálfvirkum þinglýsingum. Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir að fyrst um sinn verði hin rafræna þinglýsing bundin við veðskjöl, t.d. skuldabréf og skjöl sem þeim tengjast, svo sem skilmálabreytingar, veðbandslausnir, veðflutninga og veðleyfi. Hér er þó ekki um tæmandi upptalningu að ræða.
    Með rafrænum þinglýsingum verður hætt að þinglýsa skjali í heild sinni. Þess í stað verður réttindum og skyldum samkvæmt skjalinu þinglýst en skjalið sjálft ekki sent til þinglýsingarstjóra. Í raun er þá þinglýst þeim atriðum sem nú eru skráð í tölvukerfi þinglýsinga af þinglýsingarstjóra en þinglýsingarbeiðandi færir þau sjálfur inn í þinglýsingarkerfið sem þinglýsir sjálfvirkt ef færslan uppfyllir skilyrði þinglýsingar. Ef ekki er beiðnin annaðhvort endursend eða hún fer til meðferðar hjá þinglýsingarstjóra. Afrit af hinu þinglýsta skjali verður ekki lengur geymt hjá þinglýsingarstjóra. Frumrit skjalsins verður varðveitt hjá kröfuhafa ef um skuldaskjal er að ræða. Um afrit af lánssamningum sem falla undir lög um neytendalán gilda ákvæði þeirra laga. Í reglugerð verður kveðið á um hvaða upplýsingar skuli koma fram í rafrænni þinglýsingarbeiðni og skal beiðnin send til þinglýsingarstjóra rafrænt með vefþjónustu sem þinglýsingarbeiðendur tengjast. Gert er ráð fyrir að notuð verði vefþjónusta og þeir sem heimild hafa til að tengjast vefþjónustunni geri sérstakan þjónustusamning um notkun hennar.
    Vinnuhópurinn tók til athugunar samspil þinglýsinga með rafrænni færslu og svo þinglýsingar á skjali en báðar leiðir verða heimilar samhliða. Þannig var kannaður sá möguleiki að hafa ákvæði um forgangsáhrif óbreytt. Þá mundu rafrænar þinglýsingar sem bærust á skrifstofutíma teljast mótteknar þann dag sem þær bárust en þær sem bærust eftir skrifstofutíma, sbr. 2. mgr. 14. gr. þinglýsingalaga, teljast mótteknar næsta dag. Með þessu móti yrði ekki unnt að afgreiða rafræna þinglýsingu sem bærist eftir lok skrifstofu þinglýsingastjóra samstundis á sama hátt og rafræna þinglýsingu sem barst sama dag fyrir lokun skrifstofunnar. Til að ná fram því markmiði að rafrænar þinglýsingar gangi hratt fyrir sig þurfa forgangsáhrif þinglýsinga að miðast við tímastimplun við móttöku þinglýsingarbeiðni í þinglýsingarkerfið. Því er lagt til að rafrænar þinglýsingar fái forgang fram yfir þinglýsingar á pappírsskjölum og að forgangur aðfarargerða og kyrrsetningargerða gagnvart öðrum skjölum verði afnuminn.
    Tekið var til athugunar hvort ástæða væri til að gera breytingar á bótaákvæðum VIII. kafla þinglýsingalaga. Niðurstaðan var sú að þess væri ekki þörf þar sem gildandi ákvæði og almennar reglur skaðabótaréttar væru nægilegar. Tölvukerfi hefur verið notað um árabil við þinglýsingar. Meginbreytingin í þessu frumvarpi er sú að þinglýsingarbeiðendur senda beiðnir rafrænt og þinglýsing verður sjálfvirk þar sem það er unnt.

4. Rafrænar þinglýsingar á Norðurlöndum.
    Rafrænar þinglýsingar eru ekki nýjar af nálinni og hafa t.d. önnur Norðurlönd ýmist tekið upp slíkar aðferðir við þinglýsingar eða eru að vinna að breytingum í þá átt. Í Danmörku, þar sem þinglýsingar teljast til dómsathafna, hefur verið gengið lengst í þessum efnum. Þar voru þinglýsingar í fasteignabók gerðar rafrænar í september 2009 og frá 2011 hefur einnig verið hægt að framkvæma þinglýsingar í öðrum málaflokkum rafrænt. Árið 2009 voru þinglýsingar jafnframt gerðar miðlægar og færðar á einn stað í landinu, Hobro á Jótlandi. Árið 2017 fóru 82% allra þinglýsinga í Danmörku sjálfvirkt í gegnum þinglýsingarkerfið án aðkomu starfsmanna þinglýsingardómstólsins en það ár bárust dómstólnum samtals 1.676.132 þinglýsingarbeiðnir. Meðalmálsmeðferðartími rafrænna þinglýsingarbeiðna það ár var um hálfur dagur og voru 99% beiðna afgreiddar innan 10 daga. Nánari upplýsingar um þinglýsingar í Danmörku má sjá á vef þinglýsingardómstólsins: www.tinglysning.dk .
    Í Noregi hafa allar þinglýsingar verið á einum stað í Hønefoss frá 2009 en flutningur þangað hófst 2004. Árin 2007–2017 stóð yfir í Noregi tilraunaverkefni um rafrænar þinglýsingar þar sem lagt var upp með tvöfalt kerfi, þ.e. þinglýsingar voru bæði sendar inn rafrænt og á pappír. Nú stefna Norðmenn að sömu aðferð og Danir, þ.e. alveg rafrænum og sjálfvirkum þinglýsingum, og síðustu ár var mikil vinna lögð í breytingar á lögum samhliða vinnu við tæknilega þætti rafrænna þinglýsinga. Framangreindu tilraunaverkefni lauk árið 2017 og í apríl það ár var opnað fyrir rafrænar þinglýsingar. Nánari upplýsingar um þinglýsingar í Noregi má sjá á vefnum: www.kartverket.no.
    Í Svíþjóð og Finnlandi er einnig unnið að undirbúningi rafrænna þinglýsinga og fara þær nú þegar fram með þeim hætti að einhverju marki þótt verkefnið sé ekki komið jafn langt á veg og hjá Dönum og Norðmönnum.

5. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í frumvarpinu felast engin álitaefni er varða samræmi við stjórnarskrá eða mannréttindaskuldbindingar.

6. Samráð.
    Drög að frumvarpinu voru tvisvar sinnum kynnt til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins þáverandi, annars vegar í nóvember 2015 og hins vegar í nóvember 2016, auk þess sem sérstaklega var óskað umsagna sýslumannsembætta, Lögmannafélags Íslands, Samtaka fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóðs og Þjóðskrár Íslands. Umsagnir bárust ráðuneytinu frá Neytendastofu, Þjóðskrá Íslands, Sýslumannafélagi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráði Íslands, Icelandair Group hf., Lögmannafélagi Íslands, sýslumanninum á Vesturlandi, sýslumanninum á Norðurlandi vestra, sýslumanninum á Austurlandi, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sýslumanninum á Suðurlandi og sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Þá hefur verið haft náið samráð við Þjóðskrá Íslands við samningu frumvarpsins. Athugasemdir við frumvarpsdrögin voru mismiklar að umfangi og var komið til móts við sumar þeirra. Veigamestu breytingar sem gerðar hafa verið frá þeim drögum sem kynnt voru til umsagnar felast í að fallið hefur verið frá þeim áformum að fela einum aðila allar þinglýsingar og gera landið þar með að einu þinglýsingarumdæmi. Vikið er að ástæðum þess í 3. kafla.

7. Mat á áhrifum.
    Innleiðing rafrænna þinglýsinga er mikilvægt skref í uppbyggingu innviða samfélagsins og upptöku stafrænnar tækni í stjórnsýslu og viðskiptum. Gera verður ráð fyrir nokkrum upphafskostnaði við slíka breytingu ef vel á að takast til við innleiðinguna en reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir að til lengri tíma litið er þjóðhagslegur ávinningur umtalsverður.
    Fyrir liggja tvær greiningarskýrslur, önnur frá árinu 2010 um þinglýsingu rafrænna skjala unnin af dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu og hin frá árinu 2017 þar sem fram fór greining á núverandi skipulagi sýslumannsembættanna, rekstri og samlegðartækifærum. Að greiningunni stóð sýslumannaráð með stuðningi innanríkisráðuneytisins og var ráðgjafafyrirtækið Intellecta fengið til að stýra verkefninu. Það er sammerkt í niðurstöðum þessara skýrsla að umtalsverður samfélagslegur ávinningur felist í upptöku rafrænna þinglýsinga sem aðallega snýr að einstaklingum sem viðskipti eiga við sýslumannsembættin, fjármálastofnunum og fasteignasölum. Erfitt er hins vegar að meta með áreiðanlegum hætti hver sú hagræðing kann að verða en hún takmarkast m.a. af smæð embættanna í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir, auk þess sem lágmarksmannafli með nauðsynlega sérþekkingu þarf að vera til staðar hjá embættunum. Þá verða ekki allar þinglýsingar rafrænar strax heldur verður því stýrt með ákvæðum í reglugerð hvaða skjöl geta farið í gegnum rafræna þinglýsingu. Þannig mun taka nokkurn tíma að meta þá hagræðingu sem frumvarpið mun hafa í för með sér.
    Árið 2017 störfuðu um 34 starfsmenn við þinglýsingar, staðfestingar og skráningar hjá sýslumannsembættunum, þar af 19 á höfuðborgarsvæðinu. Við undirbúning frumvarpsins var tekið til athugunar hvort rétt væri að gera landið að einu þinglýsingarumdæmi og að einu sýslumannsembætti yrði falin framkvæmd þinglýsinga en ýmis rök mæla með því. Samskipti þinglýsingarbeiðenda og þinglýsingarstjóra munu með tilkomu rafrænna þinglýsinga að mestu verða tölvusamskipti og því hefur staðsetning þinglýsingarstjóra ekki verulega þýðingu. Þá má gera ráð fyrir að innan fárra ára verði meiri hluti þinglýsinga með rafrænum færslum og má færa fyrir því rök að þá verði til hagræðingar og stuðli að betra samræmi að allar þinglýsingar séu á sömu hendi. Eftir nánari athugun var þó ákveðið að fara ekki þá leið að svo stöddu enda felur hún í sér verulegar breytingar á starfsemi sýslumannsembætta sem þarfnast betri undirbúnings. Mikilvægt er að ráðast sem fyrst í að heimila þinglýsingu með rafrænum hætti á ákveðnum löggerningum auk þess sem mikilvægt er að nýta þá þekkingu sem er til hjá viðkomandi sýslumannsembættum um eignir sem staðsettar eru í umdæmi þeirra. Ljóst er þó að þegar til framtíðar er litið mæla mikilvæg rök með því að þinglýsingar verði færðar á einn stað.
    Tímabundinn kostnaður við innleiðingu frumvarpsins verði það óbreytt að lögum er áætlaður 50 millj. kr. og er af tvennum toga. Annars vegar þarf að ljúka nauðsynlegri tæknivinnu upplýsingakerfis sem Þjóðskrá hefur unnið að síðustu misserin, koma upp þjónustugátt og hanna útlit á vefum og er kostnaður við verkþættina áætlaður 29 millj. kr. Hins vegar kostnaður við verkstjórn sem áætlaður er 21 millj. kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tímabundinn kostnaður ríkissjóðs umfram gildandi fjárlög 2018 muni aukast um 50 millj. kr. árið 2019 en gert er ráð fyrir að þessum kostnaði verði fundinn staður innan heildarútgjaldaramma ríkissjóðs samkvæmt fjármálaáætlun 2019–2023.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að ný málsgrein bætist við 4. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að um þinglýsingu með rafrænni færslu fari eftir 1. mgr. ákvæðisins eftir því sem við á. Í því felst að beiðni um þinglýsingu með rafrænni færslu skal beint til í þinglýsingarstjóra í því umdæmi þar sem þinglýsing á að fara fram eins og á við um skjöl sem þinglýsa á. Í því tilfelli sem um þinglýsingu með rafrænni færslu er að ræða er ekkert skjal afhent þinglýsingarstjóra heldur er beiðni um þinglýsingu með rafrænni færslu með þeim upplýsingum sem þar á að greina send rafrænt til þinglýsingarstjóra í umdæmi því þar sem þinglýsing á að fara fram.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði heimild til að þinglýsa réttindum og skyldum sem kveðið er á um í löggerningum með rafrænni færslu. Tækni á sviði rafrænna samskipta er í sífelldri þróun og því þykir ekki rétt að fastsetja í lög hvaða tegund rafrænnar undirskriftar skuli notuð eða hvaða staðal skuli miða við heldur verði fjallað um þessi atriði í reglugerð.
    Útfæra þarf undirritunina með þeim hætti að hægt sé að nota hana sjálfa til að ganga úr skugga um að rafræn skilríki hafi verið gild við undirritun. Þetta er t.d. hægt að gera með því að koma fyrir staðfestum tíma í skilríkjunum og með því að bæta við staðfestu (undirrituðu) svari frá OCSP-netþjóni (e. Online Certificate Status Protocol). Þannig er hægt að sjá í undirrituninni sjálfri hvenær hún var framkvæmd og hvort skilríkin voru gild við undirritun. Auk þessa er mögulegt að nota innsigli með háu öryggisstigi til að tryggja áreiðanleika gagnanna.
    Í ljósi þess að mikilsverð réttindi eru undir þarf rafrænt þinglýsingarkerfi að uppfylla hæsta öryggisstig þeirra staðla sem miðað er við. Í löggjöf Evrópusambandsins er horft til staðlanna STORK og ISO 29115 þegar lágmarksöryggiskröfur eru ákvarðaðar. Tilvísun til laga um rafrænar undirskriftir hefur þann tilgang að tryggja að miðað sé við öryggisstig sem þar koma fram og í síðari löggjöf um sama efni. Hér á landi hafa lög nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir, gilt um undirskriftir með rafrænni færslu og fullgildar rafrænar undirskriftir en þeirri löggjöf var ætlað að innleiða tilskipun Evrópusambandsins nr. 1999/93/EB um rafrænar undirskriftir. Þessari löggjöf hefur verið breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum og um niðurfellingu á tilskipun 1999/93/EB sem tók gildi árið 2016 innan Evrópusambandsins. Reglugerðin sem hefur víðtækara gildissvið en fyrri tilskipun og fjallar um rafræn auðkenni, innsigli, tímastimplanir o.s.frv. hefur verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 frá 9. febrúar 2018. Litið var til þeirrar reglugerðar við útfærslu þessa ákvæðis enda ljóst að hún verður leidd í íslenskan rétt á næstu misserum og mun í reynd ákvarða þær tæknilegu kröfur sem gerðar verða við rafræna þinglýsingu skjala.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að um beiðni um þinglýsingu með rafrænni færslu skuli gilda sömu skilyrði og eiga við um þinglýsingu skjala, að frátöldum skilyrðum g- og h-liðar 2. mgr. 6. gr. laganna. Þá er jafnframt lagt til að staðfesting á móttöku beiðni um þinglýsingu með rafrænni færslu skuli send með rafrænum hætti til þinglýsingarbeiðanda.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um að rafræn þinglýsing fari í rafræna skoðun um leið og hún berst þinglýsingarstjóra. Ef hún uppfyllir ekki öll skilyrði þinglýsingar er henni sjálfvirkt vísað frá, eða hún fer í skoðun hjá þinglýsingarstjóra. Hann tekur ákvörðun um hvort færslunni verður þinglýst, með eða án athugasemda, eða henni vísað frá þinglýsingu.

Um 5. gr.

    Með þessari grein eru lagðar til breytingar á 9. gr. laganna er fjallar um framkvæmd þinglýsinga. Með innleiðingu rafrænna þinglýsinga verður aðeins meginatriðum skjals þinglýst. Þetta á bæði við um rafrænar færslur og skjöl sem berast á pappír. Pappírsskjali verður því ekki lengur þinglýst í heild sinni eins og nú er heldur verða meginatriði skjalsins áfram skráð í þinglýsingarkerfið eins og nú er gert. Þannig verða þinglýsingar á pappírsskjölum með sama hætti og ef send hefði verið rafræn beiðni um þinglýsingu.
    Ef beiðni um rafræna þinglýsingu uppfyllir öll skilyrði þinglýsingar fær þinglýsingarbeiðandi þegar staðfestingu um þinglýsinguna. Ef færslunni er þinglýst handvirkt af þinglýsingarstjóra berst staðfesting til þinglýsingarbeiðanda að henni lokinni.

Um 6. gr.

    Þegar þinglýsingar eru rafrænar eru veðleyfi, veðbandslausnir og aðrar áþekkar yfirlýsingar rafrænar. Það hefur í för með sér að aðeins sá kröfuhafi sem skráður er í þinglýsingarkerfinu getur gefið út slíkar yfirlýsingar. Lagðar eru til breytingar á 12. gr. þinglýsingalaga þar sem kveðið er á um framkvæmd þessa. Samkvæmt þessum ákvæðum þarf ávallt að þinglýsa annað hvort rafrænni færslu eða skjali í þessum tilfellum. Þegar um handhafabréf er að ræða verður ekki hjá því komist að framvísa frumriti veðbréfsins eða endurriti þess með áritun um þá breytingu á veðinu sem verið er að gera.

Um 7. gr.

    Gerð er tillaga um að aflýsingar allra skjala í tölvukerfi þinglýsinga verði með sama hætti. Ef eign hefur ekki verið skráð í tölvukerfi þinglýsinga fer aflýsing fram á sama hátt og verið hefur. Þá er hér lagt til að þegar aflýsing er gerð á grundvelli áritaðrar yfirlýsingar rétthafa á skjalið verði hætt að árita afrit þinglýsingarstjóra en þess í stað verði frumritið skannað og varðveitt í þinglýsingabók.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að rafræn þinglýsingarfærsla teljist móttekin þegar hún berst í þinglýsingarkerfið og að forgangsáhrif ráðist því af móttökutíma hennar sem er staðfestur með tímastimplun. Þá er lagt til að skjöl á pappír sem móttekin eru á skrifstofutíma, skv. 2. mgr. 14. gr., fái öll sömu tímastimplun á eftir rafrænum skjölum sem berast sama dag. Þau fengju því dagsetningu móttökudags og tímastimplun kl. 21. Skjöl berast ýmist til þinglýsingar með boðsendingu eða pósti. Það getur verið tilviljun háð í hvaða röð póstsend skjöl eru móttekin. Þá getur verið óhægt um vik að tryggja að boðsend skjöl verði móttekin í réttri röð. Það á t.d. við um það þegar fleiri en einn starfsmaður móttekur skjöl samtímis. Gera má ráð fyrir að þeir aðilar sem vilja hraða afgreiðslu þinglýsinga muni nýta sér rafræna þinglýsingu. Til að ná því markmiði rafrænna þinglýsinga að veita hraða og örugga þjónustu er nauðsynlegt að hægt sé að þinglýsa rafrænni færslu samstundis. Til að það náist er lagt til að veita rafrænum þinglýsingum forgang fram yfir pappírsskjöl sem þinglýst er handvirkt. Í Noregi er farin sama leið með sömu rökum.

Um 9. gr.

    Hér eru ákvæði um að forgangsáhrif þinglýsingar miðist við tímastimplun en ekki dagsetningu. Þá er ákvæði um að ef tvö skjöl fá sömu tímastimplun séu þau jafnstæð. Þetta mun eiga við um öll pappírsskjöl sem berast sama dag og fá því sömu tímastimplun. Í tæknilegri útfærslu er tryggt að rafræn þinglýsingarfærsla fái einkvæma tímastimplun, þ.e. ekki er mögulegt að tvær eða fleiri færslur fái sama tímastimpil. Þá er lagt til að forgangsáhrif aðfarargerða og kyrrsetningargerða falli niður. Það er nauðsynlegt til að ná fram hraða rafrænna þinglýsinga. Tiltölulega sjaldan reynir á forgangsáhrif og því ekki líklegt að þetta verði til baga. Þá er frekar einfalt að innleiða rafræna þinglýsingu aðfarargerða og kyrrsetningargerða. Ef það verður gert getur gerðarbeiðandi óskað eftir að sýslumaður sendi slíkar gerðir í rafræna þinglýsingu þegar að lokinni gerð í stað þess að gerðarbeiðandi fari með endurrit á pappír í þinglýsingu.

Um 10. gr.

    Þetta er árétting á ákvæði í 3. gr. frumvarpsins um vitundarvotta. Rafræn undirritun staðfestir dagsetningu og undirritun. Fjárræði er kannað með rafrænni uppflettingu í skrá yfir lögræðissvipta menn hafi útgefandi náð lögræðisaldri.

Um 11. gr.

    Til þess að unnt verði að veita veðleyfi og leysa eignir úr veðböndum rafrænt þurfa réttir kröfuhafar að vera skráðir í þinglýsingarkerfið. Því er nauðsynlegt að framsal og aðrar yfirfærslur á réttindum yfir þinglýstum veðbréfum verði þinglýsingarskyldar. Sá sem þinglýstur er kröfuhafi getur einn gert breytingar á réttindum samkvæmt veðbréfinu.

Um 12. gr.

    Í rafrænu og sjálfvirku þinglýsingarkerfi fara aflýsingar fram með rafrænni færslu sem rétthafi sendir í þinglýsingarkerfið. Þegar innköllun kröfuhafa er lokið er ekki lengur þörf á sérákvæðum 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. þinglýsingalaga. Allir þinglýstir rétthafar munu geta gefið út staðfestingu á samþykki til aflýsingar án þess að framvísa frumriti veðbréfs.

Um 13. gr.

    Ekki eru lagðar til breytingar á þessu ákvæði en tilvísun til siglingalaga aftur á móti lagfærð.

Um 14. gr.

    Hér er lagt til að frestur til að afhenda veðbréf sem veita sjálfsvörsluveð í lausafé verði alltaf sá sami, óháð útgáfustað.

Um 15. gr.

    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að heimilt verði að þinglýsa öllum skjölum rafrænt á allar tegundir eigna skv. IV.–VII. kafla þinglýsingalaga. Tæknilega er þetta ekki unnt enn þá og því lagt til að kveðið verði á um það í reglugerð hvaða tegundum skjala verður heimilt að þinglýsa rafrænt og á hvers konar eignir. Fleiri tegundum skjala og eigna verði bætt við eftir því sem verkefninu vindur fram.

Um 16. gr.

    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að fram fari leiðrétting á skráningu á kröfuhöfum í þinglýsingabók. Ekki er skylda til að þinglýsa kröfuhafaskiptum ef veðbréf er framselt. Þannig getur orðið misræmi á milli þess hvaða kröfuhafi er skráður í þinglýsingabók og hver er í raun eigandi kröfunnar. Grundvöllur þess að þinglýsing með rafrænum hætti geti átt sér stað er að eigandi hinnar þinglýstu kröfu sé rétt skráður í þinglýsingabók. Að öðrum kosti getur hann ekki skráð breytingar á kröfu sinni, svo sem vegna veðflutnings eða skilmálabreytinga í hinu rafræna kerfi. Nauðsynlegt er því að búið sé að ganga úr skugga um að réttur kröfuhafi sé skráður í þinglýsingabók og leiðrétta þá skráningu ef annar er eigandi kröfunnar en skráður er í þinglýsingabók áður en heimilt verður að þinglýsa með rafrænni færslu.
    Flest veðskuldabréf eru í eigu fjármálastofnana og lífeyrissjóða en dæmi eru um að þrátt fyrir sameiningar, yfirtökur eða nafnbreytingar sé upphaflegi kröfuhafinn enn þá skráður í þinglýsingarkerfið enda ekki skylda að þinglýsa kröfuhafaskiptum. Í slíkum tilfellum er með einföldum hætti unnt að fá upplýsingar um réttan kröfueiganda og gera leiðréttingu ef þörf er á. Er því ekki nauðsynlegt að þessar stofnanir leggi fram frumrit veðbréfs með áritun um framsal. Annað gildir um veðbréf í eigu einstaklinga og annarra lögaðila en fjármálastofnana og lífeyrissjóða sem kunna að hafa gengið kaupum og sölum. Hafi kröfuhafaskipti orðið á veðskuldabréfi með framsali þarf að sanna það með því að framvísa bréfinu til þinglýsingarstjóra með áritun um framsal. Mögulega verður þörf á því að kalla eftir upplýsingum um rétta kröfuhafa svo unnt verði að leiðrétta skráningu kröfuhafa í slíkum tilfellum. Slíkri innköllun er þó ekki ætlað að hafa í för með sér réttindamissi á nokkurn hátt. Einungis er verið að tryggja eftir því sem unnt er að þinglýsingarkerfið hafi að geyma sem réttastar upplýsingar hverju sinni. Stefnt er að því að leiðréttingu í þinglýsingabók verði lokið ári eftir gildistöku laganna, þ.e. 1. mars 2020. Áréttað er að ávallt verður hægt síðar að óska eftir leiðréttingu hafi bréfið verið framselt. Nauðsynlegt er að gera kröfu um að árituðu frumriti eða endurriti veðbréfa verði framvísað þar til leiðréttingu á skráningu kröfuhafa er lokið.

Um 17. gr.

    Lagt er til að breyting verði gerð á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu þannig að þau gildi um þinglýsingar.

Um 18. gr.

    Með ákvæðinu er gert ráð fyrir að ekki verði greitt gjald fyrir leiðréttingu á skráningu kröfuhafa í þinglýsingabók vegna rafrænna þinglýsinga. Sjá enn fremur skýringar við 16. gr.

Um 19. gr.

    Hér er kveðið á um gildistöku laganna. Gert er ráð fyrir að þau taki gildi 1. mars 2019 þannig að nokkur tími gefist til að undirbúa framkvæmd þeirra. Hins vegar er nauðsynlegt að hefja strax leiðréttingu á skráningu kröfuhafa. Því er gert ráð fyrir að nýtt ákvæði til bráðabirgða í þinglýsingalögum, sbr. 16. gr. frumvarpsins, taki strax gildi. Af því leiðir að nýtt ákvæði til bráðabirgða í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, sbr. 18. gr. frumvarpsins, þarf einnig strax að taka gildi.