Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 77  —  77. mál.

Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018,
um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga
(stofnanir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis).


Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.


I. KAFLI

Breyting á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
    Innheimtustofnun sveitarfélaga er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um heilsufar og fjárhag einstaklinga, félagslega erfiðleika þeirra og atvinnustöðu, upplýsinga um greiðsluskyldu og móttakendur meðlags og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu skv. 3. og 5. gr. að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

2. gr.

    9. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Skattyfirvöld, Vinnumálastofnun, Þjóðskrá Íslands, Fangelsismálastofnun, sveitarfélög, launagreiðendur og Lánasjóður íslenskra námsmanna skulu láta Innheimtustofnun sveitarfélaga í té upplýsingar með rafrænum hætti, ef því verður við komið, að því marki sem þær eru nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögum þessum.

II. KAFLI

Breyting á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála,
nr. 119/2012, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Samgöngustofu er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um heilsufar, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, upplýsinga um refsiverða háttsemi og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

III. KAFLI

Breyting á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu,
nr. 54/1962, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þjóðskrá Íslands er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um heilsufar, þjóðerni, trúarbrögð og hjúskaparstöðu og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

IV. KAFLI

Breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987,
með síðari breytingum.

5. gr.

    Við 64. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um aðgengi og miðlun upplýsinga úr skrám skv. 1. mgr., þar á meðal miðlun upplýsinga um eigendur og umráðamenn ökutækja, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

V. KAFLI

Breyting á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985,
með síðari breytingum.

6. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Samgöngustofu er heimilt að veita aðgang að og miðla upplýsingum úr aðalskipaskrá og skipaskrá yfir íslensk skip, þar á meðal upplýsingum um eigendur, umráðamenn og útgerðaraðila skipa, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um loftferðir, nr. 60/1998,
með síðari breytingum.

7. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Samgöngustofu er heimilt að veita aðgang að og miðla upplýsingum úr loftfaraskrá, þar á meðal upplýsingum um eigendur, umráðamenn og leigjendur loftfara, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála,
nr. 120/2012, með síðari breytingum.

8. gr.

    Við 4. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Vegagerðinni er heimilt að viðhafa rafræna vöktun eða taka myndir með reglulegu millibili á þjóðvegum í þeim tilgangi að stuðla að auknu samgönguöryggi. Stofnuninni er heimilt að miðla upplýsingum sem þannig er aflað til vegfarenda með rafrænum hætti að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Vegagerðinni er einnig heimilt að miðla upplýsingum til lögreglu og rannsóknarnefndar samgönguslysa með rafrænum hætti þegar rannsakað er sakamál, mannshvarf eða samgönguslys.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða gerðar á 16. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Vegagerðinni er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga um fjárhagsstöðu og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Þagnarskylda, veiting upplýsinga og persónuvernd.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995,
með síðari breytingum.

10. gr.

    Við 8. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 139/2012, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Jöfnunarsjóði er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um fatlanir og þroskaraskanir einstaklinga sem njóta þjónustu sveitarfélaga og um þarfir nemenda sem þurfa á sérfræðiaðstoð að halda í grunnskólum sveitarfélaga, sem og aðrar slíkar upplýsingar, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003,
með síðari breytingum.

11. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þ.e. upplýsinga sem nauðsynlegar þykja við athugun á málum sem Póst- og fjarskiptastofnun vinnur að samkvæmt lögum þessum, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samráði við Innheimtustofnun sveitarfélaga, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, Póst- og fjarskiptastofnun, Samgöngustofu, Vegagerðina og Þjóðskrá Íslands.
    Frumvarpið er samið í tilefni af heildarendurskoðun á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. nú lög nr. 90/2018. Endurskoðunin fer fram í tengslum við innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB (almenna persónuverndarreglugerðin) eins og hún hefur verið aðlöguð að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Reglugerðin kom til framkvæmda innan ESB 25. maí 2018 og leysti af hólmi tilskipun Evrópusambandsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.
    Vinnsla frumvarpsins er hluti af vinnu sem dómsmálaráðherra ýtti úr vör vegna innleiðingar framangreindrar persónuverndartilskipunar. Settur var á fót samráðshópur allra ráðuneyta sem falið var að fara yfir ákvæði sérlaga um persónuvernd í samvinnu við undirstofnanir í því skyni að meta hvaða breytingar væru nauðsynlegar vegna innleiðingarinnar. Yfirferð samráðshópsins leiddi í ljós að gera þyrfti ýmsar efnislegar breytingar á ákvæðum sérlaga og í fyrstu var ætlunin að aðeins ein safnlög yrðu samin í tengslum við innleiðinguna. Horfið var frá því og lagt fyrir hvert ráðuneyti að gera tillögur að breytingum á lögum sem undir það heyra. Í frumvarpi þessu eru tillögur um breytingar sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarpið hefur það að markmiði að renna lagastoð undir og eftir atvikum styrkja lagastoð fyrir vinnslu persónuupplýsinga svo að gildandi réttur fullnægi skyldum nýrrar persónuverndarlöggjafar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til lágmarksbreytingar sem gera þarf á lögum til að ná því markmiði sem að framan er lýst í tilefni af setningu nýrra persónuverndarlaga. Breytingarnar eru nauðsynlegar til að vinnsla persónuupplýsinga hjá stofnunum sem getið er í frumvarpinu byggist á viðhlítandi lagastoð. Umfang núverandi verkefna stofnananna breytist ekki.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var unnið í tengslum við starf samráðshóps ráðuneytanna þar sem öll ráðuneytin áttu fulltrúa. Það var birt í samráðsgátt 29. júní 2018 og lauk samráði 10. ágúst sama ár. Engar athugasemdir bárust.
    Ákvæði frumvarpsins snerta almenning mismikið. Ákvæði sem varða lög um Vegagerðina varða velflesta vegfarendur, breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga varða meðlagsgreiðendur o.s.frv.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur ekki í för með sér breytta þjónustu stofnananna sem í hlut eiga. Aðeins eru styrktar nauðsynlegar lagastoðir undir það sem tíðkast hefur svo að stofnanirnar geti sinnt skyldum sínum. Því mun frumvarpið hvorki hafa teljandi áhrif á almannahagsmuni né helstu hagsmunaaðila. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á tekjur eða útgjöld ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að Innheimtustofnun sveitarfélaga fái heimild til vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu skv. 3. og 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971. Áskilið er að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Innheimtustofnun sveitarfélaga annast meðlagsinnheimtu auk annarrar innheimtu sem kveðið er á um í 3. gr. laganna. Til að sinna hlutverki sínu er stofnuninni nauðsyn að afla, skrá, flokka, nota og skoða persónuupplýsingar. Þá þarf stofnunin að geta miðlað persónuupplýsingum til annarra stofnanna, svo sem Tryggingastofnunar og sýslumanna vegna aðfarar- og nauðungarsölugerða. Allar þessar aðgerðir falla undir vinnslu persónuupplýsinga. Við vinnsluna þarf að gæta meðalhófs og þarf hún að vera í samræmi við tilgang þann sem kveðið er á um í greininni. Ekki er heimilt að vinna upplýsingarnar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.
    Með persónuupplýsingum er átt við sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti. Lagt er til að heimild stofnunarinnar nái einnig til nánar tiltekinna viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. heilsufars, fjárhagserfiðleika og félagslegra erfiðleika. Heimildin takmarkast við upplýsingar sem stofnuninni er nauðsynlegt að krefjast á grundvelli lögbundinnar starfsemi sinnar. Ástæða þess að það er gert er að í 5. gr. laganna er kveðið á um heimild stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga til að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega þegar til skuldarinnar hefur verið stofnað sökum félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, fjölda barna eða af öðrum sambærilegum ástæðum.

Um 2. gr.

    Lögð er til breyting á 9. mgr. 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971. Gildandi ákvæði um heimild til að afla persónuupplýsinga er orðið úrelt, enda lögin frá 1971. Greinin er lagfærð með tilliti til nýrra laga og ítarlegri krafna sem ný persónuverndarlög hafa að geyma. Öflun umræddra persónuupplýsinga er háð því að hún sé nauðsynleg í þágu lögbundinnar starfsemi stofnunarinnar.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að Samgöngustofa fái heimild til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal vinnslu ákveðinna viðkvæmra persónuupplýsinga, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki samkvæmt lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012. Áskilið er að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Samgöngustofa hefur hlutverki að gegna gagnvart samgöngum í lofti, á láði og legi. Til að sinna hlutverki sínu er stofnuninni nauðsyn að afla, skrá, flokka, nota og skoða persónuupplýsingar. Þá þarf stofnunin að geta miðlað persónuupplýsingum til annarra stofnana, svo sem lögreglu. Allar þessar aðgerðir falla undir vinnslu persónuupplýsinga. Við vinnsluna þarf að gæta meðalhófs og þarf hún að vera í samræmi við tilgang þann sem kveðið er á um í greininni. Ekki er heimilt að vinna upplýsingarnar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.
    Með persónuupplýsingum er átt við sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti. Lagt er til að heimild stofnunarinnar nái einnig til nánar tiltekinna viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. heilsufars, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkunar sem og upplýsinga um refsiverða háttsemi þegar við á (sakavottorð) og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að Þjóðskrá Íslands fái heimild til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal vinnslu ákveðinna viðkvæmra persónuupplýsinga í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962. Áskilið er að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Þjóðskrá Íslands hefur því hlutverki að gegna að skrá grunnupplýsingar um einstaklinga í samræmda skrá, þjóðskrá. Til að sinna hlutverki sínu er stofnuninni nauðsyn að afla, skrá, flokka, nota og skoða persónuupplýsingar. Þá þarf stofnunin að geta miðlað persónuupplýsingum til annarra stofnana sem og einkaaðila. Allar þessar aðgerðir falla undir vinnslu persónuupplýsinga. Við vinnsluna þarf að gæta meðalhófs og þarf hún að vera í samræmi við tilgang þann sem kveðið er á um í greininni. Ekki er heimilt að vinna upplýsingarnar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.
    Með persónuupplýsingum er átt við sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti. Lagt er til að heimild stofnunarinnar nái einnig til nánar tiltekinna viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. heilsufars, þjóðernis, trúarbragða og hjúskaparstöðu og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té.

Um 5. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 64. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með það fyrir augum að styrkja lagastoð undir reglugerð um starfshætti skráningarstofu ökutækja, nr. 79/1997, sem fjallar um skráningu ökutækja, uppfærslu og rekstur ökutækjaskrár o.fl. Í 3. gr. reglugerðarinnar er fjallað um upplýsingamiðlun um eigendur og umráðamenn ökutækja. Nauðsynlegt er að kveða sérstaklega á um aðgengi og miðlun upplýsinga í lögum við gildistöku nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Um 6. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 4. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985, með það fyrir augum að styrkja lagastoð undir aðgengi og miðlun upplýsinga úr aðalskipaskrá og skipaskrá yfir íslensk skip. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 7. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 9. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, með það fyrir augum að styrkja lagastoð undir aðgengi og miðlun upplýsinga úr loftfaraskrá. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að Vegagerðin fái heimild til að vakta þjóðvegi landsins með rafrænum hætti líkt og tíðkast hefur undanfarin ár. Vöktunin fer fram með myndavélum þar sem teknar eru myndir með reglulegu millibili og þeim miðlað til vegfarenda með rafrænum hætti um heimasíðu Vegagerðarinnar. Misjafnt er hversu langur tími líður milli mynda, allt frá 1 sekúndu til 5 mínútna.
    Vefmyndavélar hafa lengi verið við vegi landsins og eru þær notaðar til að fylgjast með færð. Megintilgangurinn er að gera Vegagerðinni kleift að fylgjast með færð á vegum svo unnt sé að bregðast við, t.d. með snjómokstri og hálkuvörnum. Vegfarendur geta jafnframt farið á vef Vegagerðarinnar, valið myndavél og séð færð á viðkomandi vegi. Tilgangurinn er að bæta öryggi vegfarenda, samgönguöryggi og upplýsingagjöf.
    Almennt eru myndavélarnar það langt frá vegi að persónuupplýsingar greinast ekki á myndunum. Á höfuðborgarsvæðinu eru hins vegar dæmi um að myndavélar séu svo nálægt vegum og það góðar að unnt sé að greina bílnúmer og mögulega gangandi og hjólandi vegfarendur, þ.e. persónugreinanlegar upplýsingar.
    Óhjákvæmilegt er að persónugreinanlegar upplýsingar safnist upp við notkun þessara myndavéla á höfuðborgarsvæðinu. Vegagerðin notar ekki slíkar upplýsingar en ekki er útilokað að þær geti nýst við rannsóknir slysa og rannsóknir á saknæmri háttsemi eða mannshvörfum. Því er nauðsynlegt að Vegagerðinni verði ekki aðeins heimilt að miðla gögnum í rauntíma til almennings heldur verður Vegagerðin að geta miðlað upplýsingunum til lögreglu og eftir atvikum til rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að Vegagerðin fái heimild til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki samkvæmt lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012. Áskilið er að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Vegagerðin hefur hlutverki að gegna gagnvart samgöngum á láði og legi. Til að sinna hlutverki sínu er stofnuninni nauðsynlegt að afla, skrá, flokka, nota og skoða persónuupplýsingar, svo sem vegna samninga um landakaup, umsókna um styrkvegi, tjónabóta o.fl. Þá þarf stofnunin að geta miðlað persónuupplýsingum til annarra stofnanna, svo sem lögreglu. Allar þessar aðgerðir falla undir vinnslu persónuupplýsinga. Við vinnsluna þarf að gæta meðalhófs og þarf hún að vera í samræmi við tilgang þann sem kveðið er á um í greininni. Ekki er heimilt að vinna upplýsingarnar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.
    Með persónuupplýsingum er átt við sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti. Lagt er til að heimild stofnunarinnar nái einnig til nánar tiltekinna viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. fjárhagsupplýsinga og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái heimild til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal vinnslu ákveðinna viðkvæmra persónuupplýsinga, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Áskilið er að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Jöfnunarsjóður annast meðal annars úthlutun jöfnunarframlaga til sveitarfélaga vegna þjónustu þeirra við fólk með fötlun og vegna sérfræðiþjónustu við nemendur með sérþarfir í grunnskólum. Úthlutun þessara framlaga byggist á greiningu á þörfum einstaklinga sem njóta þjónustunnar til að hægt sé að meta með samræmdum og hlutlægum hætti stig þess stuðnings sem viðkomandi einstaklingar þarfnast. Þannig þarf sjóðurinn að afla, skrá, flokka, nota og skoða persónuupplýsingar, þ.m.t. viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá þarf stofnunin að geta miðlað persónuupplýsingum til annarra stofnanna, svo sem Greiningarstöðvar ríkisins, sveitarfélaga eða Tryggingastofnunar. Allar þessar aðgerðir falla undir vinnslu persónuupplýsinga. Við vinnsluna þarf að gæta meðalhófs og þarf hún að vera í samræmi við tilgang þann sem kveðið er á um í greininni. Ekki er heimilt að vinna upplýsingarnar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.
    Með persónuupplýsingum er átt við sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti. Lagt er til að heimild stofnunarinnar nái einnig til nánar tiltekinna viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. um heilsufar og félagslega erfiðleika. Heimildin takmarkast við upplýsingar sem sjóðnum er nauðsynlegt að krefjast á grundvelli lögbundinnar starfsemi sinnar.

Um 11. gr.

    Lögð er til breyting á 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003. Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun fái heimild til vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 69/2003. Áskilið er að uppfyllt séu skilyrði nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Póst- og fjarskiptastofnun annast m.a. eftirlit með fjarskiptum og póstþjónustu, sbr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna, og til að sinna því hlutverki þarf stofnunin að hafa heimild til að afla nauðsynlegra upplýsinga. Við vinnsluna þarf að gæta meðalhófs og þarf hún að vera í samræmi við tilgang þann sem kveðið er á um í greininni. Ekki er heimilt að vinna upplýsingarnar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.