Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 104  —  104. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013
(lækkun gjalds, brottfall laga).


Flm.: Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „0,8%“ í a-lið kemur: 0,4%.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar „1,6%“ í b-lið kemur: 0,8%.

2. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lög þessi falla úr gildi 1. janúar 2020.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að lög um stimpilgjöld falli brott frá og með 1. janúar 2020. Einnig er lagt til að frá og með 1. janúar 2019 verði gjaldið helmingi lægra en það er nú. Helstu rökin með afnámi gjaldtökunnar eru neikvæð áhrif hennar á fólk og fyrirtæki. Gjald sem lagt er á tiltekin viðskipti með eignir eykur bæði viðskiptakostnað fyrirtækja og kostnað einstaklinga við húsnæðiskaup.
    Heildartekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum nema nú liðlega 5 milljörðum kr. á ári. Á móti kemur að hluti stimpilgjalda vegna íbúðarhúsnæðis er endurgreiddur í gegnum vaxtabótakerfið. Gjaldtaka sem þessi mismunar fyrirtækjum eftir eðli starfsemi þeirra og vegur því að jafnræði lögaðila með ólíkan rekstur. Þannig er gjaldtaka sem þessi mun meira íþyngjandi fyrir fjármagnsfreka starfsemi af ýmsu tagi, svo sem rekstur útgerða, skipafélaga eða starfsemi sem krefst viðamikils húsakostar. Skattlagningin tekur hins vegar ekki mið af tekjum eða arðsemi þessara atvinnugreina. Eðlilegra er að skattlagning ríkisins leitist við að mismuna sem minnst atvinnugreinum eftir eðli starfseminnar og taki fremur mið af arðsemi þeirra og eftir atvikum gjaldtöku vegna aðgangs að auðlindum eða afleiddum kostnaði starfseminnar, t.d. áhrifa á umhverfi.
    Skattur sem lagður er á fasteignaviðskipti eykur kostnað við flutninga og dregur þannig úr hreyfanleika fólks. Skattlagningin gerir fólki dýrara en ella að koma sér þaki yfir höfuðið eða skipta um húsnæði vegna flutninga eða breyttra fjölskylduaðstæðna.
    Verði frumvarpið að lögum verða stimpilgjöld afnumin í tveimur skrefum. Árið 2019 verður hlutfall gjaldsins helmingi lægra en það er nú og á árinu 2020 falla lögin úr gildi og þar með gjaldtakan.