Ferill 110. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 110  —  110. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um fjölmiðla, með síðari breytingum (smásala áfengis).

Flm.: Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir orðinu „smásölu“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: ríkisins.

2. gr.


    Í stað orðanna „smásölu áfengis“ í a-lið 2. gr. og 3. gr. laganna kemur: smásölu ríkisins á áfengi.

3. gr.


    1. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

4. gr.


    2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

5. gr.


    1. málsl. 10. gr. laganna fellur brott.

6. gr.


    2. málsl. 5. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.

7. gr.


    14. gr. laganna fellur brott.

8. gr.


    Heiti laganna verður: Lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.
9. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Áfengissmásöluleyfi 50.000 kr.

III. KAFLI
Breyting á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum.
10. gr.

    Á eftir orðinu „heildsölu“ í 1. málsl. 3. mgr. 3. gr. og 5. mgr. 5. gr. laganna kemur: smásölu.

11. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Innflutningur, heildsala, smásala og framleiðsla áfengis sem fram fer í atvinnuskyni án leyfis samkvæmt lögum þessum varðar refsingu skv. 26. gr.
    Lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld annast eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögum þessum.

12. gr.


    Orðin „annað en leyfi til smásölu“ í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna falla brott.

13. gr.


    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Útsöluverð á áfengi er frjálst en óheimilt er að selja áfengi undir kostnaðarverði. Með kostnaðarverði er átt við endanlegt innkaupsverð að viðbættum opinberum gjöldum auk virðisaukaskatts.

14. gr.


    Í stað 2. mgr. 11. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Sveitarstjórn skal einungis veita smásöluleyfi til sérvöruverslana sem falla undir ÍSAT-flokk 47.2 (smásala á matvöru, drykkjarvöru og tóbaki í sérverslunum) eða selja eingöngu áfengi og vörur til neyslu þess.
    Sveitarstjórn skal setja eftirfarandi skilyrði fyrir veitingu smásöluleyfis:
     a.      Afgreiðslutími skal ekki vera lengri en frá kl. 11.00 að morgni til kl. 22.00 að kvöldi.
     b.      Starfsmenn sem afgreiða áfengi mega ekki vera yngri en 20 ára.
     c.      Önnur málefnaleg skilyrði, svo sem um staðsetningu verslunar, aðgengi, merkingar o.fl.
    Sveitarstjórn er heimilt að setja skilyrði um styttri afgreiðslutíma en þann sem getið er um í a-lið 3. mgr.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð að í tilteknum sveitarfélögum verði heimilt að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr. enda sé talið óhagkvæmt sökum fámennis að reka sérverslun einungis með áfengi. Skal ráðherra leita eftir umsögn viðkomandi sveitarfélags. Í þeim tilfellum skal áfengi afmarkað frá annarri söluvöru á bak við afgreiðsluborð eða í sérrými innan verslunar þannig að það verði ekki sýnilegt viðskiptavinum.

15. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ráðherra kveður nánar á um afgreiðslutíma, skilyrði smásöluleyfis og kröfur til eftirlits- og öryggiskerfa í reglugerð, þ.m.t. kröfur til myndupptökukerfa, fyrirkomulags afmörkunar áfengis frá annarri söluvöru o.fl.
     b.      2. mgr. fellur brott.

16. gr.


    20. gr. laganna orðast svo:
    Viðskiptaboð og fjarkaup fyrir áfengi skulu heimil með þeim takmörkunum sem fram koma í lögunum.
    Með viðskiptaboðum og fjarkaupum samkvæmt þessari grein er átt við viðskiptaboð og fjarkaup samkvæmt lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011.
    Viðskiptaboð og fjarkaup fyrir áfengi eru óheimil:
     a.      í sjónvarpsútsendingu milli kl. 7.00 að morgni og kl. 21.00 að kvöldi,
     b.      í kvikmyndahúsum, þegar myndefni fellur undir lög nr. 62/2006, um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum,
     c.      í hljóðvarpi milli kl. 7.00 að morgni og kl. 21.00 að kvöldi,
     d.      í prentmiðlum sem ætlaðir eru börnum og ungmennum.
    Viðskiptaboð og fjarkaup fyrir áfengi skulu ekki:
     a.      beinast að börnum eða ungmennum, og ekki má sýna börn eða ungmenni í slíkum auglýsingum,
     b.      tengja áfengisneyslu við bætta líkamlega getu eða við akstur,
     c.      skapa þá ímynd að áfengisneysla stuðli að bættri félagslegri stöðu eða tengja áfengisneyslu við kynlíf,
     d.      gefa til kynna að áfengi hafi læknandi áhrif, sé örvandi eða deyfandi eða hjálpi til við lausn deilumála,
     e.      hvetja til óhóflegrar neyslu eða sýna áfengisbindindi eða hóflega neyslu í neikvæðu ljósi,
     f.      tengja háan vínandastyrkleika áfengra drykkja við gæði þeirra.
    Öllum viðskiptaboðum og fjarkaupum fyrir áfengi skal þar að auki fylgja viðvörunin „Áfengisneysla veldur heilsutjóni“.
    Óheimilt er að auglýsa léttöl og aðra vöru með sama heiti og sambærileg áfeng vara innan þeirra marka sem kveðið er á um í 3. mgr.
    Undanþegið framangreindum takmörkunum er:
     a.      auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins,
     b.      auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á venjulegum búnaði til áfengisveitinga á veitingastað þar sem áfengisveitingar eru heimilaðar,
     c.      auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á flutningstækjum áfengisframleiðanda, vöruumbúðum, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.

17. gr.


    26. gr. laganna orðast svo:
    Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að sex árum ef:
     a.      hann stundar í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, smásölu eða framleiðslu áfengis án leyfis skv. 3. gr.,
     b.      hann framleiðir áfengi til einkaneyslu og sölu þótt ekki sé í atvinnuskyni,
     c.      hann selur áfengi þótt ekki sé í atvinnuskyni,
     d.      hann flytur inn, útbýr eða smíðar sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til að gera drykkjarhæft áfengi sem var ódrykkjarhæft skv. 7. gr.,
     e.      hann selur eða afhendir áfengi til einhvers sem hann hefur ekki heimild til að selja eða afhenda áfengi skv. 2. mgr. 9. gr.,
     f.      hann selur áfengi til neytenda yngri en 20 ára skv. 18. gr.,
     g.      hann neytir áfengis í veitingastofu, veitingatjaldi, húsnæði félagasamtaka eða á öðrum þeim stöðum þar sem veitingar eru bornar fram skv. 2. mgr. 19. gr.,
     h.      hann ber með sér áfengi inn eða út af veitingastað skv. 3. mgr. 19. gr.,
     i.      hann veitir, selur eða lætur af hendi áfengi til annarra gegn gjaldi eða öðru verðmæti skv. 4. mgr. 19. gr.,
     j.      hann lætur viðgangast ólöglegan tilbúning, sölu eða geymslu áfengis skv. 5. mgr. 19. gr.,
     k.      hann veldur óspektum, hættu eða hneyksli skv. 21. gr.,
     l.      hann veitir þeim áfengi sem tilgreindir eru í 1. mgr. 22. gr. skv. 3. mgr. 22. gr.,
     m.      hann er veitingamaður og veitir áfengi á öðrum tímum en honum er heimilt samkvæmt leyfi til áfengisveitinga,
     n.      hann er veitingamaður og veitir áfengi á annan hátt en honum er heimilt samkvæmt leyfi til áfengisveitinga.
    Nú er brot skv. 1. mgr. stórfellt eða ítrekað og skal þá maður sæta fangelsi allt að sex árum.
    Brot skv. 1. og 2. mgr. varða mann refsiábyrgð ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Gera má lögaðila sekt vegna brots skv. 1. eða 2. mgr. óháð sök fyrirsvarsmanns lögaðilans, starfsmanns hans eða annars á hans vegum í starfsemi lögaðilans. Lögaðila verður gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Refsiábyrgð stjórnvalda er bundin sömu skilyrðum, enda hafi verið framið brot skv. 1. eða 2. mgr. í starfsemi sem telst vera sambærileg starfsemi einkaaðila.
    Meðferð ávinnings af brotum skv. 1. og 2. mgr. er refsiverð eftir því sem segir í 264. gr. almennra hegningarlaga.
    Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. 1. og 2. mgr. er manni refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

18. gr.


    27. gr. laganna fellur brott.

19. gr.


    Á eftir b-lið 3. mgr. 28. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: áfengi sem borið er ólöglega inn á smásölustað.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, með síðari breytingum.
20. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Lýðheilsusjóður skal leggja sérstaka áherslu á rannsóknir á áfengisneyslu sem og forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna á árunum 2020–2024.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 38/2011, um fjölmiðla, með síðari breytingum.
21. gr.

    Orðin „og áfengi“ í 4. mgr. 37. gr. laganna falla brott.

22. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

Greinargerð.

Inngangur.
    Mál þetta er endurflutt en sambærileg frumvörp hafa áður verið lögð fram á 144. (17. mál), 145. (13. mál), 146. (106. mál) og 148. löggjafarþingi (287. mál). Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar á 146. þingi er gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem meiri hlutinn tók til skoðunar og íhugaði við meðferð málsins, þ.m.t. umsagnir og athugasemdir sem bárust. Frumvarp þetta byggist m.a. á niðurstöðu þeirrar vinnu og þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn lagði til við fyrrgreint frumvarp, 106. mál á 146. þingi.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum, lögum um fjölmiðla og lögum um landlækni og lýðheilsu með það að markmiði að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt, að smásala með áfengi verði gefin frjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og sérstök áhersla verði á eflingu lýðheilsusjóðs með auknum framlögum ásamt því að heimilt verði að auglýsa áfengi með takmörkunum.
    Frá því að sameinaðri verslun áfengis og tóbaks var komið á fót árið 1961 hefur allt almennt viðskiptaumhverfi gjörbreyst og samfélagið orðið í senn opnara og fjölbreyttara.
    Áfengismenning og áfengisneysla hefur líka gjörbreyst á sama tíma. Vín er orðið órjúfanlegur hluti gróskumikillar matarmenningar og innlend framleiðsla áfengis er að festa sig í sessi og orðin iðnaður sem er nátengdur landkynningu og þjónustu við sívaxandi fjölda ferðamanna. Þá hefur aðgengi að áfengi á undanförnum árum og áratugum stóraukist og útsölustöðum ríkisins með áfengi hefur fjölgað. Opnunartími áfengisverslana ríkisins hefur verið rýmkaður, úrvalið hefur aukist og netverslun verið komið á fót. Vínveitingaleyfum um land allt hefur samhliða stórfjölgað á síðastliðnum 20 árum.
    Á sama tíma hefur fyrirkomulag á einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis verið í grundvallaratriðum óbreytt í nær 95 ár, eða síðan sterkt áfengi var aftur gert að löglegri neysluvöru árið 1922. Eina stóra og markverða breytingin sem innleidd hefur verið í lög öll þessi ár er lögleiðing bjórs 1. mars 1989. Slíkt einokunarfyrirkomulag ríkisins með löglega neysluvöru hamlar eðlilegri og heilbrigðri samkeppni og skerðir atvinnufrelsi fólks. Löngu er tímabært að breyting verði á því fyrirkomulagi sem hér um ræðir og er tilgangur frumvarpsins að lögfesta nauðsynlegar breytingar í þá veru.

Meginefni frumvarpsins.
Afnám einkaleyfis á smásölu áfengis.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að afnema einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis og að einkaaðilum verði heimiluð slík sala að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að almennt verði heimilt að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur en ekki stórmörkuðum og matvöruverslunum.
    Þá er í frumvarpinu kveðið á um að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að í tilteknum sveitarfélögum verði heimilt að veita undanþágu frá meginreglunni um sérverslanir, enda sé talið óhagkvæmt sökum fámennis að reka sérverslun einungis með áfengi. Í þeim tilfellum skal áfengi vera í afmörkuðu rými eða í sérrými innan almennra verslana, þó þannig að áfengið verði ekki sýnilegt viðskiptavinum almennu verslunarinnar. Er þetta gert til þess að koma til móts við þau sjónarmið að fyrirkomulag sérverslana gæti reynst óhagkvæmt á landsbyggðinni.
    Ekki er lagt til í frumvarpi þessu að ÁTVR verði gert að hætta smásölu á áfengi. Afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis kallar engu síður á að starfsemi ÁTVR verði, í kjölfar lögfestingar frumvarpsins, tekin til endurskoðunar til að tryggja að nauðsynlegar breytingar á rekstri, reikningsskilum og upplýsingagjöf verði í samræmi við samkeppnisreglur, enda mikilvægt að einkaaðilar standi ekki höllum fæti í samkeppni við ríkið í smásölu áfengis.

Áfengisauglýsingar heimilaðar með takmörkunum.
    Frumvarpið kveður á um að heimilt verði að auglýsa áfengi með þeim takmörkunum sem koma fram í frumvarpinu, m.a. að hvers kyns áfengisauglýsingu skuli fylgja aðvörunarorð um skaðsemi áfengis og að aldrei megi beina áfengisauglýsingum að börnum og ungmennum. Rétt er að stíga varlega til jarðar vegna sérstöðu áfengis sem á ekki að kynna sem almenna sjálfsagða neysluvöru og er því lögð áhersla á að áfengisauglýsingar miði fyrst og fremst að því að kynna vöruna í tengslum við sölu hennar eða framleiðslu.
    Hér á landi er áfengisauglýsingar víða að finna þrátt fyrir áfengisauglýsingabann. Tilgangur breytinganna er fyrst og fremst að stýra og hafa eftirlit með áfengisauglýsingum betur en nú er gert sem og jafna út ósanngjarnan aðstöðumun erlendra og innlendra aðila. Í gildandi rétti eru hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum bannaðar en það felur í sér mismunun á þann veg að erlendir framleiðendur hafa greiðan aðgang að auglýsingum sem birtast hér á landi, hvort sem um er að ræða auglýsingar á erlendum kappleikjum, á internetinu eða í öðrum hljóð-, prent- eða myndmiðlun svo að dæmi séu tekin. Ekki er eingöngu um að ræða aðgengi í gegnum hljóð- eða myndmiðla eða tímarit heldur er einnig um að ræða auglýsingar sem m.a. birtast á ýmsum söluvarningi, t.d. fatnaði og íþróttavörum.
    Með aukinni netvæðingu hefur aðgengi innlendra neytenda að auglýsingum á áfengi aukist til muna og þykir því ljóst að núverandi bann hefur einna helst áhrif á innlenda framleiðslu og innlenda vöruþróun. Einnig hefur tíðkast um langa hríð að stærstu áfengisframleiðendurnir sem framleiða einnig léttöl hafa auglýst þá vöru með skírskotun til sambærilegrar áfengrar vöru og hafa þannig farið fram hjá banninu og notið þar samkeppnislegs forskots í kynningu. Þess ber einnig að geta að verði smásalan gefin frjáls án þess að auglýsingabann verði afnumið mun það skapa mikið ójafnvægi á milli smásölunnar og heildsölustigsins. Smásalar yrðu þá næsta einráðir um vöruframboðið og kynningu þess þar sem „auglýsingaplássið“ yrði í hillum og útstillingum verslana á meðan heildsalar og framleiðendur ættu ekki þann kost að koma vörum sínum á framfæri.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á lagaumhverfi viðskiptaboða með áfengi eru í samræmi við þær ábendingar sem bárust um eldra frumvarp og lutu að samræmingu við lágmarksreglur um innihald og framsetningu áfengisauglýsinga í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/65/EB frá 11. september 2007 um breytingu á tilskipun ráðsins 89/552/EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur (hljóð- og myndmiðlunartilskipuninni). Þá hefur við gerð frumvarpsins verið tekið mið af vinnu starfshóps á vegum fjármálaráðherra um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar frá því í janúar 2010. Í skýrslu hópsins var lagt til að heimila skyldi auglýsingar á áfengi með takmörkunum.

Aukið fjármagn í forvarnir og fræðslu til eflingar lýðheilsu.
    Óhófleg neysla áfengis er skaðleg. Hún er skaðleg þeim einstaklingi sem haldinn er slíkri vímuefnafíkn og böl fyrir fjölskyldu hans og vandamenn. Samfélagið verður jafnframt fyrir ýmsum kostnaði vegna óhóflegrar og ólögmætrar neyslu áfengis. Árangursríkasta leiðin til að draga úr misnotkun áfengis er með forvarnastarfi, fræðslu og meðferðarúrræðum. Því til stuðnings er bent á að áfengisneysla ungmenna hefur dregist verulega saman á undanförnum árum þrátt fyrir að aðgengi að áfengi hafi á sama tíma aukist vegna lengri afgreiðslutíma og fjölgunar verslana ÁTVR.
    Til að sporna gegn óhóflegri neyslu áfengis er mikilvægt að fræðsla, forvarnastarf og meðferðarúrræði verði markvisst efld bæði faglega og fjárhagslega. Við fyrri framlagningar frumvarpsins var lögð til sú breyting að í stað þess að 1% af áfengisgjaldi rynni í lýðheilsusjóð yrði hlutfallið hækkað í 5%. Síðastliðið vor var ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur breytt og sú framkvæmd gerð að meginreglu að málefni fengju beina úthlutun af fjárlögum í stað þess að þeim væru markaðar tekjur. Var 7. gr. laga um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, sem kvað á um hvaða hlutfall áfengisgjalds skyldi renna í lýðheilsusjóð, felld brott í þessu skyni. Viðeigandi breyting hefur verið gerð á þessu frumvarpi en flutningsmenn þess leggja áherslu á að samhliða þeirri breytingu sem felst í frumvarpinu verði framlög af fjárlögum til lýðheilsusjóðs stórlega aukin með það að markmiði að efla fræðslu og meðferðarúrræði til að sporna í meira mæli en nú er gert við skaðlegri, óhóflegri áfengisdrykkju. Aukna fjármuni ber jafnframt að nýta til rannsókna á áfengisneyslu þjóðarinnar.
    Lagt er til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, þar sem lýðheilsusjóði verði gert að leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna á árunum 2020–2024.
    Breytingin á verslun með áfengi og tóbak sem hér er lögð til felur aðeins í sér að aðrir en hið opinbera annist smásölu áfengis sem og rýmkun á heimildum til auglýsinga. Þannig felur frumvarpið ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslum í tóbaksvörnum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–8. gr.


    Í meginatriðum felur frumvarpið ekki í sér mikla breytingu á lagaumhverfi áfengis- og tóbakssölu miðað við það markmið að gera smásölu með áfengi frjálsa. Ekki er lagt til að ráðist verði í heildarendurskoðun á lagaumhverfi áfengis- og tóbaksmála. Af þeim sökum felur I. kafli frumvarpsins aðeins í sér þá breytingu að ekki verður lengur kveðið á um einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis. ÁTVR verður ekki gert að hætta smásölu á áfengi en afnám einkaleyfis ríkisins á slíkri sölu kallar engu síður á ákveðna heildarendurskoðun á starfsemi ÁTVR til þess að tryggja samræmi við samkeppnisreglur eins og áður er getið.

Um 9. gr.


    Í 9. gr. frumvarpsins er lögð til heimild til þess að innheimta 50.000 kr. gjald vegna útgáfu leyfis til smásölu á áfengi.

Um 10. gr.


    Í III. kafla eru lagðar til breytingar á áfengislögum, nr. 75/1998. Í 10. gr. er lögð til breyting á þann veg að heimilt verði að veita einstaklingum og lögaðilum leyfi til smásölu á áfengi.

Um 11. gr.


    Lagðar eru til ítarlegar breytingar á refsiákvæðum áfengislaga, nr. 75/1998, í 16. og 17. gr. frumvarpsins og því rétt að einfalda 4. gr. laganna í samræmi við þær breytingar.

Um 12. gr.


    Ekki er lengur þörf á að undanskilja leyfi til smásölu í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna og því lagt til að orðalagið „annað en leyfi til smásölu“ verði fellt brott.

Um 13. gr.


    Til að frumvarpið nái því takmarki að gera smásölu á áfengi frjálsa þarf að fella brott 1. mgr. 10. gr. laganna þar sem kveðið er á um einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis. Lagt er til breytt orðalag þar sem útsöluverð á áfengi er frjálst en óheimilt verði að selja áfengi undir kostnaðarverði. Með kostnaðarverði í þessu samhengi er átt við endanlegt innkaupsverð að viðbættum opinberum gjöldum auk virðisaukaskatts.

Um 14. gr.


    Lagt er til að meginreglan verði sú að heimilt verði að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur sem og sérverslunum með áfengi en ekki í stórmörkuðum og matvöruverslunum. Ljóst er að þó að sérverslanir sem þessar geti vel gengið á höfuðborgarsvæðinu gæti það reynst óhagkvæmt í dreifðari byggðum landsins og í einhverjum tilfellum ef til vill leitt til lakari þjónustu. Til þess að koma til móts við þetta sjónarmið er lagt til að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að í tilteknum sveitarfélögum verði heimilt að veita undanþágu frá meginreglunni um sérverslanir, enda sé talið óhagkvæmt sökum fámennis að reka sérverslun einungis með áfengi. Í þeim tilfellum skal áfengi vera í afmörkuðum rýmum eða í sérrými innan almennra verslana en þó þannig að áfengið verði ekki sýnilegt viðskiptavinum almennu verslananna.
    Í gildandi áfengislögum eru ekki settar skorður við afgreiðslutíma með smásölu áfengis heldur kveður ráðherra nánar á um hámarksafgreiðslutíma í reglugerð. Í reglugerð um smásölu og veitingar áfengis, nr. 177/1999, er hins vegar kveðið á um afgreiðslutíma frá kl. 8.00 til kl. 23.00. Í framkvæmd er reyndin sú að engin verslun ÁTVR er opin lengur en til kl. 20.00. Hér er lagt til að afgreiðslutími útsölustaða áfengis verði bundinn við tímann frá kl. 11.00 að morgni til kl. 22.00 að kvöldi. Auk þess er lagt til að sveitarstjórn geti sett skilyrði um styttri afgreiðslutíma.
    Lagt er til að þeir sem annast smásölu á áfengi skuli hafa náð 20 ára aldri, líkt og tíðkast hefur í framkvæmd í verslunum ÁTVR. Þótt vissulega ætti að treysta sjálfráða einstaklingum undir áfengiskaupaaldri til að selja vörur af þessu tagi er rétt að stíga varlega til jarðar og minnka hættu á jafningjaþrýstingi og því er lagt til að miðað verði við 20 ára aldur.

Um 15. gr.


    Lagt er til að gerðar verði breytingar á 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna á þann veg að ráðherra verði m.a. heimilað að kveða nánar á um eftirlits- og öryggiskerfi í reglugerð, svo sem kröfur til myndbandsupptökukerfa og afmörkunar áfengis frá annarri söluvöru.
    Einnig er lagt til að ákvæði laganna sem kveða á um að áfengisútsölustaðir skuli vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst verði felld brott. Telja verður að samfélagslegar breytingar síðustu áratugi með auknum fjölda ferðamanna og frjálsræði í verslun og viðskiptum hafi gert ákvæði sem þetta að hálfgerðri tímaskekkju í lögunum.

Um 16. gr.


    Lagt er til að heimilt verði að auglýsa áfengi en með ákveðnum takmörkunum sem eru ítarlega útlistaðar í greininni. M.a. er óheimilt að auglýsa áfengi í kvikmyndahúsum, í prentmiðlum sem ætlaðir eru börnum og ungmennum, í hljóðvarpi og í sjónvarpsútsendingu á ákveðnum tíma sem og í tengslum við íþrótta- og menningarviðburði. Lögð er áhersla á að viðskiptaboð og fjarkaup fyrir áfengi skuli einungis innihalda upplýsingar um nafn framleiðanda, vörumerki, vörutegund, hráefni sem nýtt er í framleiðslu vörunnar, innihald hennar, uppruna, framleiðslustað, framleiðsluaðferð og áfengisinnihald. Óheimilt verður að auglýsa léttöl og aðra vöru með sama heiti og sambærileg áfeng vara innan þeirra marka sem kveðið er á um í 3. mgr. en með því er leitast við að stöðva dulbúnar áfengisauglýsingar sem skáka í skjóli áfengisprósentuhlutfalls vörunnar. Auk þess er lagt til að öllum viðskiptaboðum og fjarkaupum fyrir áfengi skuli fylgja viðvörunin „Áfengisneysla veldur heilsutjóni“.
    Takmarkanir þær sem eru taldar upp í 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins eiga við um allar auglýsingar og kostun, sem og aðra markaðssókn eða kynningu í og við skóla (leik-, grunn- og framhaldsskóla) og æskulýðs- og frístundastarf. Í greininni er stuðst við skilgreiningu laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, á viðskiptaboðum og fjarkaupum.

Um 17. gr.


    Í 17. gr. eru lagðar til breytingar á 26. gr. áfengislaga. Í 26. gr. gildandi áfengislaga segir að ef veitingamaður sem leyfi hefur til áfengisveitinga misbeitir leyfi sínu með því að veita áfengi á öðrum tímum eða á annan hátt en honum er heimilt, eða aðrar áfengistegundir, svo og með því að selja eða afhenda áfengi án þess að þess sé neytt á staðnum, eða ef hann brýtur á annan hátt fyrirmæli sem um áfengisveitingar gilda varði það refsingu samkvæmt lögunum. Meginregla refsiréttarins er að refsiheimildir eigi að vera skýrar og byggist hún á 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Krafan um skýrleika refsiheimilda felur í sér að refsiákvæði verður að vera nægjanlega skýrt og fyrirsjáanlegt til að einstaklingur geti gert sér grein fyrir því með lestri ákvæðisins og ef til vill út frá dómaframkvæmd hvaða athafnir og eða athafnaleysi geti leitt til refsiábyrgðar á grundvelli þess. Er því með frumvarpinu lagt til að ákvæði 26. gr. verði tekið til gagngerrar endurskoðunar.

Um 18. gr.


    Með þeim breytingum sem lagðar eru til á 26. gr. áfengislaga er talið rétt að fella brott gildandi 27. gr. til einföldunar. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 19. gr.


    Í 19. gr. er lagt til að nýjum staflið verði bætt við 3. mgr. 28. gr. áfengislaga þannig að ljóst verði að gera megi upptækt áfengi sem er borið ólöglega inn á smásölustað, svo sem áfengi sem hefur verið framleitt án framleiðsluleyfis eða flutt inn án innflutningsleyfis.

Um 20. gr.


    Í 20. gr. er lagt til að við lög um landlækni og lýðheilsu bætist nýtt bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að lýðheilsusjóður skuli leggja sérstaka áherslu á rannsóknir á áfengisneyslu sem og forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna á árunum 2020–2024.

Um 21. gr.


    Gæta þarf samræmis við lög um fjölmiðla, nr. 38/2011, þar sem viðskiptaboð og fjarkaup fyrir áfengi eru óheimil samkvæmt þeim. Því er lagt til að tilvísun í áfengi í 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla falli brott.

Um 22. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.