Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
149. löggjafarþing 2018–2019.
2. uppprentun.
Þingskjal 122 — 122. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunar
um innviðauppbyggingu og markaðssetningu hafnarinnar í Þorlákshöfn.
Flm.: Ásmundur Friðriksson, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Njörður Sigurðsson, Páll Magnússon, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason.
Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp til að móta stefnu um hvernig standa megi að innviðauppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn svo að höfnin geti enn frekar vaxið sem inn- og útflutningshöfn.
Starfshópurinn geri tillögu um hvernig bæta megi og auka öryggi og dýpi í og við innsiglingu í höfnina. Starfshópurinn geri einnig tillögur um hvernig best verði náð árangri í markaðssetningu hafnarinnar innan lands og utan. Lögð verði áhersla á staðsetningu hafnarinnar með tilliti til styttri siglingatíma milli Evrópu og Íslands fyrir farm- og farþegaflutninga og sem einstaklega áhugaverðan kost sem inn- og útflutningshöfn með nægt landrými í 40–60 mínútna akstursfjarlægð frá stærstu mörkuðum og þéttbýlustu svæðum landsins og alþjóðaflugvellinum í Keflavík.
Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. maí 2019. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.
Greinargerð.
Þær breytingar sem gerðar hafa verið á innviðum hafnarinnar í Þorlákshöfn á liðnum árum hafa tekist framúrskarandi vel og verið langt undir kostnaðaráætlun, en gjörbreytt aðstöðunni við höfnina og gert mögulegt að taka á móti stærstu skipum sem til landsins koma. Það liggur þó fyrir að innsiglingin í höfnina, þegar hvass vindur er að sunnan eða suðaustan, gerir innsiglinguna varasama á stórum skipum með mikið vindfang. Þess vegna höfðu skipstjórnarmenn á Mykinesi æft inn- og útsiglinguna í Þorlákshöfn í siglingahermi í alls um 200 skipti áður en vikulegar siglingar hófust. Þeir voru því við öllu búnir en í erfiðustu aðstæðunum, sem áður er getið, þarf skipið að sigla á töluverðum hraða, eða 10–12 sjómílna ferð, til að halda stefnu við þröngar og krefjandi aðstæður þar sem kröpp beygja á bakborða er tekin rétt áður en komið er inn á milli garða og þar þarf að nota allt vélarafl skipsins til að stöðva það. Þessar aðstæður þarf að lagfæra og verður starfshópurinn að rýna alla möguleika til þess og koma með tillögur til úrbóta. Þá er mikilvægt til að bæta öryggi hafnarinnar og sjófarenda við suðurströndina að nýr og öflugri lóðsbátur en nú er verði fenginn að höfninni.
Vegna legu Þorlákshafnar og 16 klukkustunda styttri siglingatíma þangað en til Faxaflóahafna er hægt að notast við eitt skip í vikulegum siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu. Því fylgja þau jákvæðu áhrif að kolefnisspor vöruflutninga þessa sjóleið til landsins er mun minni en til áfangastaða við Faxaflóa eða þeirra hafna sem eru lengra frá stærstu mörkuðum landsins. Ferskar sjávarafurðir og eldisfiskur sem fara vikulega með Mykinesi á föstudegi eru komnar til sölu á mörkuðum síðdegis á mánudegi í vestanverðri Evrópu en á þriðjudagsmorgni á Ítalíu, Spáni og Portúgal. Þessi nýja siglingaleið er styttri en aðrar og flutningsgjöld því lægri um sem nemur 40%. Það ætti að hafa áhrif til lækkunar á vöruverði á Íslandi og gera útflutningsgreinar samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum.
Tollsvæðið sem höfnin reisti í upphafi fyrir innflutning er löngu sprungið en flutningar um höfnina eru langt umfram væntingar. Til að mæta þessari miklu aukningu á umferð um svæðið er nýtt 40.000 fermetra afgirt og upplýst tollsvæði norðan hafnarinnar komið í notkun. Frá Þorlákshöfn eru greiðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið og Vesturland um Þrengsla- og Suðurlandsveg, um Óseyrarbrú á Selfoss og Suður- og Suðausturland, og um Suðurstrandarveg til Suðurnesja og alþjóðaflugvallarins í Keflavík
Í markaðslegu tilliti má segja að höfnin er staðsett í 50 km radíus frá markaðssvæði þar sem 2/ 3 hluti þjóðarinnar býr og starfar. Auk nálægðar við stærsta markaðinn eru helstu náttúru- og ferðamannaperlur landsins í innan við 2–3 klst. akstur frá höfninni í Þorlákshöfn.
Sveitarfélagið Ölfus er öflugt samfélag í mikilli sókn og hefur yfir sterkum innviðum að ráða auk nægs landrýmis til að takast á við aukin verkefni á svið farm- og farþegaflutninga. Þar er hefð fyrir öflugri útgerð og fiskvinnslu, vikurútflutningur hefur farið um höfnina í áratugi og fiskeldi vex fiskur um hrygg í sveitarfélaginu. Í fárra kílómetra fjarlægð frá höfninni eru ein gjöfulustu vatnsverndarsvæði landsins sem og öflugt jarðhitasvæði sem eru óinnheimt tækifæri fyrir framtíðina.