Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 132  —  132. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um bætta stjórnsýslu í umgengnismálum.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum sem varða úrræði sýslumanns í umgengnismálum sem og að tryggja fjármögnun verkefnisins með það að markmiði að bið foreldra og barna eftir afgreiðslu mála af hálfu sýslumanns verði eins stutt og frekast er kostur. Ráðherra hafi samráð við sýslumannsembætti, barnaverndaryfirvöld, hagsmunasamtök og stofnanir sem koma að málaflokknum.
    Sérstaklega verði hugað að því hvernig tryggja megi styttri málsmeðferðartíma, að ákvæði 47. gr. a barnalaga um bráðabirgðaumgengni nýtist í þágu barns, að gætt sé hagsmuna og réttinda barna með tilliti til barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna, að dagsektarúrræði sýslumanns verði einfaldað og gert áhrifaríkara, að meðlag verði tengt við umgengni, að endurtekin brot á umgengnissamningi verði ekki meðhöndluð sem ný mál og að gjafsókn verði lögbundin í forsjár- og lögheimilismálum. Aðgerðaáætlun og frumvarp liggi fyrir eigi síðar en við upphaf haustþings 2019.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 148. löggjafarþingi (90. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Hún er lögð fram að nýju með nokkrum breytingum.
    Kveðið er á um réttindi og vernd barna annars vegar í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og hins vegar í barnalögum, nr. 76/2003. Í 2. mgr. 1. gr. barnalaga er mælt fyrir um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Í 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga segir að börn skuli eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Skv. 1. mgr. 2. gr. sömu laga eru það markmið laganna að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Markmið íslenskra laga sem fjalla um börn og barnavernd eru þannig fyrst og fremst miðuð að því að tryggja réttindi og vernd barna. Hið sama gildir um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í 1. mgr. 3. gr. hans segir að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Þá er í barnasáttmálanum kveðið á um skyldu aðildarríkja að veita foreldrum og lögráðamönnum viðeigandi aðstoð við að rækja uppeldisskyldur sínar og sjá til þess að byggðar séu upp stofnanir og aðstaða og þjónusta veitt til umönnunar barna, sbr. 2. mgr. 18. gr. sáttmálans.
    Þrátt fyrir göfug markmið er núgildandi löggjöf og stjórnsýsluframkvæmd ekki með þeim hætti að réttindi barna séu tryggð. Með þingsályktunartillögu þessari er stefnt að því að gera úrbætur á löggjöf og stjórnsýslu er varðar börn með það að markmiði að stuðla betur að því að tryggja áðurnefnd réttindi og vernd barna.
Eitt helsta vandamál í stjórnsýslunni þegar hún hefur aðkomu að tálmunarmálum er að úrræði sem standa til boða eru afar seinvirk og jafnvel áhrifalítil, m.a. vegna þess að málsmeðferð hjá sýslumanni er mjög svo löng og hægt að misnota þennan langa málsmeðferðartíma. Það foreldri sem talið er beita tálmun getur notað sér þennan langa málsmeðferðartíma til að viðhalda tálmuninni, jafnvel þegar hún er óréttmæt. Skjótvirkari úrræði kæmu öllum málsaðilum til góða, bæði þeim foreldrum sem tálma aðgengi hins foreldrisins í góðri trú vegna rökstuddrar hættu um öryggi barns, þeim foreldrum sem eru á óréttmætan hátt beittir tálmun af hinu foreldrinu og barninu sjálfu. Skjótari úrlausn í málinu leysir úr óvissu og bætir öryggi og stöðu allra sem að málinu koma.
    Samkvæmt 33. gr. a barnalaga, nr. 76/2003, er foreldrum skylt að leita sátta áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál vegna forsjár, lögheimilis, umgengni, dagsekta eða aðfarar. Ákvæði þetta var lögfest ásamt nokkrum öðrum breytingum í því skyni að laga málsmeðferð í þessum málaflokki. Nú þegar nokkur reynsla er komin á notkun og beitingu sáttameðferðarúrræðis og annarra lagabreytinga sem gerðar voru á sama tíma er rétt að fram fari könnun á árangri lagabreytinganna. Eðlilegt er að gera þær kröfur að þessi úrræði þjóni sínum tilgangi og stuðli að bættum aðstæðum barna og foreldra. Reynslan gefur til kynna að svo kunni ekki að vera og er því ástæða til að skoða hvort frekari breytinga er þörf.
    Því er lagt til að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að gera breytingar á lögum sem stuðli að úrbótum á þeim vanda sem hér hefur verið fjallað um. Þeir þættir sem ráðherra hugi sérstaklega að er hvernig tryggja megi styttri málsmeðferðartíma með tilliti til þess sem barni er fyrir bestu miðað við 47. gr. a barnalaga um bráðabirgðaumgengni, að gætt sé að hagsmunum og réttindum barna með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að dagsektarúrræði sýslumanns verði gert einfaldara og áhrifaríkara í notkun, að meðlag verði tengt við umgengni og að gjafsókn verði lögbundin í forsjár- og lögheimilismálum. Með þessum áhersluþáttum má stuðla að því að gera viðunandi úrbætur í málaflokknum.
    Þá er lagt til að aðgerðaáætlun og lagafrumvarp liggi fyrir eigi síðar en við upphaf haustþings 2019. Ljóst er af umræðu um þennan málaflokk að fjöldi einstaklinga, foreldra og barna bíður úrlausna mála sinna og verður því að leggja áherslu á að mál þetta sé unnið hratt í þágu barna og foreldra sem bíða úrvinnslu sinna mála í núverandi kerfi. Með samþykkt þingsályktunartillögu þessarar verður stuðlað að bættu umhverfi og lífsskilyrðum barna og fjölskyldna og er því lagt til að Alþingi samþykki að fela dómsmálaráðherra að gera þær nauðsynlegu úrbætur sem hér hefur verið fjallað um.